Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:15:47 (1397)


[16:15]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að forsetinn hafi þann drengskap og skilning að skoða þetta mál mjög alvarlega að lokinni þessari umræðu.
    Hér var tilkynnt í upphafi fundar í dag að fjmrh. óskaði að flytja yfirlýsingu. Fjmrh. sagði síðan í sínu máli að hann hefði kvatt sér hér hljóðs til þess að 8. þm. Reykn. fengi tækifæri til þess að fjalla um málið, eins og ráðherrann sagði nánast orðrétt. Það var tilefni þess að fjmrh. kom með málið hingað inn. Ég spurði forseta að því í upphafi fundar hvert væri erindi fjmrh. að biðja um slíkt og ég fékk ekkert svar við því. Þegar þingmenn óska eftir að fá að ræða við ráðherra og gefa þeim tækifæri að svara hefur það verið sjálfsögð kurteisi í áratugi að hafa samband við viðkomandi ráðherra og láta hann vita. Forseti innir reglulega eftir því að svo sé gert.
    Ég var ekki látinn vita neitt, hvorki af forsetanum né fjmrh. áður en þessi fundur hófst í dag eða tilkynning var gefin um þessa umræðu. Það hafði enginn samband við mig. Ég hefði þess vegna getað verið bundinn hvar sem var. Þegar ég kom hér í húsið hálftíma áður en umræðan hófst fékk ég skilaboð að einhvern tímann eftir að fundur hófst í þinginu hefði fjmrh. beðið um mig í símann. Svona framkoma í þinginu nær auðvitað ekki nokkurri átt. Menn sjá bara ef við færum að koma svona fram við ráðherrana þá yrði það stöðvað þegar í stað. Þannig að ég vona nú að þeir sem stjórna hér störfum í þinginu átti sig á því að hér hafa orðið mistök.
    Hitt er hins vegar kjarni málsins að í sex ár eru yfirmenn skattamála á Íslandi búin að framkvæma skattalögin á þann hátt að ganga ekki eftir staðgreiðslu hjá blaðsölubörnum og merkjasölubörnum. Þannig er það búið að vera í sex ár. Það er kjarni málsins.
    Ég skora því á hæstv. fjmrh. að segja við yfirmenn skattkerfisins í landinu: Haldið áfram að framkvæma lögin eins og það hefur verið gert hingað til. Farið ekki að breyta um í framkvæmdinni vegna þess að það er það sem á að fara að gera núna, að breyta um í framkvæmdinni. Ég skora á hæstv. fjmrh. að vera ekki að flytja þetta mál niður á stig pólitísks karps við fyrirrennara sinn bara í einhverjum pólitískum leik, heldur einfaldlega segja: Það sem búið er að gera í skattakerfinu í sex ár verður gert áfram. Ég vil nota þetta tækifæri hér til þess að skora á fjmrh. í stað þess að fara í fréttatilkynningaleik og halda þessum leik áfram eins og hann boðaði hér áðan að einfaldlega taka þá ákvörðun að framkvæmdin verði óbreytt.