Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:28:22 (1403)


[16:28]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. virðist vera fyrirmunað að segja satt í þessu máli. Hann hefur greinilega ekki sagt forseta þingsins satt og rétt frá því hvert væri hið raunverulega tilefni þess að hann bað um orðið utan dagskrár. Það er ekki rétt hjá honum að hann hafi reynt eins og hann gat að láta ná í mig í þinghúsinu vegna þess að ég var í þinghúsinu frá því klukkan rúmlega 12 þangað til rúmlega 2 og fékk engin boð frá einum eða neinum um það að þessi umræða ætti að beinast að mér. Og spurði þó hér í ræðustólnum um hvað umræðan ætti að snúast. Það var ekki fyrr en ég kom í þinghúsið kringum klukkan 3 að ég fékk boð frá fjmrh. um að hringja í hann. Siðvenja er hér í þinginu að áður en utandagskrárumræða er tilkynnt fari slíkar umræður fram.
    Síðan vil ég segja við hæstv. fjmrh.: Ef það er þannig að hann hefur í einhverju undarlegu ástandi verið með yfirheyrslur í fjmrn. og gagnvart starfsmönnum skattstofanna í landinu um hver hafi sagt hvað við hvern fyrir sex árum síðan og stjórnunarhættirnir eru virkilega orðnir í þessum dúr þá er rétt fyrir hæstv. fjmrh. að hugleiða það sem er þó kjarni málsins. Hver er ástæðan fyrir því að í sex ár hefur þessi skattur ekki verið innheimtur af blaðsölubörnum eða merkjasölubörnum? Hver er ástæðan fyrir því að skatturinn hefur ekki verið innheimtur í sex ár? Það er kjarni málsins. Hann ætti að spyrja embættismennina að því vegna þess að ef embættismennirnir segja
    ( Forseti (SalÞ) : Tala um fundarstjórn.)
. . .   að það hefði átt að innheimta hann allan þennan tíma þá eru þeir auðvitað um leið að segja að þeir hafi ekki sinnt sínum starfskyldum.

    ( Forseti (SalÞ) : Tala um fundarstjórn.)
    Ég er að gera það, virðulegur forseti, vegna þess að ég er að svara því sem hæstv. fjmrh. sagði hér undir þessum dagskrárlið fyrir örfáum mínútum síðan. Það væri nær fyrir ráðherrann að yfirheyra þá embættismennina.
    Auðvitað er ástæða fyrir því að þetta hefur ekki verið framkvæmt í sex ár. Það er hin stóra staðreynd málsins að þessi innheimta á barnasköttum hefur ekki verið framkvæmd í sex ár. Ekki í þrjú ár á meðan ég var fjmrh. og ekki fyrstu þrjú árin í fjármálaráðherratíð núv. hæstv. fjmrh., er sú að sá skilningur var skapaður í samræðum á sínum tíma að það ætti ekki að gera þetta vegna hins sérstaka eðlis þeirrar vinnu barna að vinna sér inn lausafé með því að selja blöð eða selja merki. En vilji hæstv. fjmrh. upphefja einhver réttarhöld í málinu þá væri nær fyrir hann að spyrja að þessu. Ég skora því á hæstv. fjmrh. að gefa út ekki fréttatilkynningu um áframhaldandi skak í málinu heldur gefa út þá ákvörðun sína að skattkerfið á Íslandi eigi að halda áfram að framkvæma lögin með sama hætti og gert hefur verið í sex ár, fara ekki að breyta framkvæmd laganna nú.