Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:36:35 (1407)


[16:36]

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé kannski fullseint að ræða um það eftir hvaða fyrirkomulagi þessi umræða átti að fara fram því henni er lokið. Það sem mér finnst hins vegar rétt að komi fram er það um hvað var samið milli formanna þingflokka og forseta þingsins. Það var ákveðið að umræðan færi fram á grundvelli 50. gr. þingskapanna og stæði í 30 mínútur. Síðan var samið um að á grundvelli 72. gr. yrði fyrirkomulag umræðunnar þannig að sá sem fyrr talaði fyrir hvern þingflokk fengi fjórar mínútur ásamt ráðherra og sá sem síðar talaði hefði tvær mínútur. Þetta átti að standa með þessu fyrirkomulagi í 30 mínútur. Nú er það hins vegar upplýst að umræðan stóð alls ekki í 30 mínútur heldur 25 mínútur. Það hefði verið eðlilegt að mínu viti að nota þær fimm mínútur sem eftir voru ( ÓRG: Það var bara einn frá þingflokki Sjálfstfl.) bara einn frá þingflokki Sjálfstfl., það er rétt hv. þm., enginn frá þingflokki Alþfl. sem talaði en það hefði verið eðlilegt vegna þess að um það var samið að umræðan stæði yfir í 30 mínútur að leyfa þeim hv. þm. sem höfðu beðið um orðið að tala. Því um þetta tvennt, og það vil ég ítreka, var samið, lengd tímans í heild og fyrirkomulagið milli flokkanna.