Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:38:55 (1409)


[16:38]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst þetta nú tiltölulega einfalt mál. Þinghald hér hefur að vísu farið ofurlítið úr böndunum en ég lít svo á að ef formenn þingflokka gera samkomulag þá verði það að standa. Það verður ekkert skipulag á þinghaldi nema þingmenn virði það. Hins vegar verður líka að virða rétt einstakra þingmanna til að tjá sig. Ég sé ekki betur en þetta mál sé auðleysanlegt, þ.e. að efna bara á morgun til utandagskrárumræðu um skattastefnu ríkisstjórnarinnar eða barnaskattinn sérstaklega ef menn vilja það heldur eins og hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefur þegar farið fram á. Ég vil styðja þá kröfu hans að það verði gert og það umræðu án tímamarka. Það hefur sýnt sig að þessar 30 mínútur duga ekki til að gera þessu efni fullnægjandi skil.
    Hæstv. fjmrh. hefur lagt málið upp með þeim hætti að raunverulega kemur hann af stað umræðu sem gæti staðið í marga daga þess vegna, marga daga. Hann beinir spurningum til þingmanns sem er að vísu dálítið óvenjulegt því venjulega eru það þingmenn sem spyrja hæstv. ráðherra. En ég verð að segja eins og er að guð láti gott á vita. Ég tel að þetta sé fyrirboði þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson verði næsti fjmrh. og hæstv. fjmrh. verði óbreyttur þingmaður strax að loknum kosningum og hæstv. fjmrh. hafi gert þetta vegna þess að hann heyri hverjum klukkan glymur.
    Frú forseti. Ég vil sem sagt eindregið leggja til að á morgun verði efnt til umræðu um skattastefnu ríkisstjórnarinnar það er ekki nóg að tala bara um barnaskattinn, það er ýmislegt fleira sem við höfum við skattastefnu ríkisstjórnarinnar að athuga en barnaskatturinn kemur þar inn í.