Náttúruvernd

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 11:10:37 (1423)


[11:10]
     Kristín Einarsdóttir :

    Frú forseti. Við ræðum hér frv. til laga um náttúruvernd. Það þarf ekki að fjölyrða um það, og þó, hversu mikilvæg umhverfismálin eru og hversu mikilvægt er að stjórnkerfið taki á þeim málum með viðunandi hætti. Það hefur sem betur fer orðið almenn vakning í þjóðfélaginu að því er varðar umhverfismál. Það hafa orðið breyttar áherslur og breytt viðhorf, þó ég telji að því miður hafi það ekki endurspeglast hér inni á Alþingi og ekki í Stjórnarráðinu eins og ég hefði viljað sjá.
    Ef við horfum aðeins í kringum okkur þá hljótum við að viðurkenna að það stefnir í mikið óefni ef við lítum á heiminn í heild. Ef fram heldur sem horfir þá mun enda með skelfingu, ragnarökum, ég veit ekki hvort við eigum að kalla það það, en ástandið er orðið þannig að það verður að taka mjög ákveðið á. Því miður er efnahagsstefna heimsins ekki með þeim hætti að það virðist eiga að gera því það er enn horft á það að peningarnir skuli ráða og að hagvöxtur og sú hagvaxtastefna sem ríkt hefur í heiminum á greinilega að halda áfram. Þetta vil ég segja í tilefni þess að við erum, held ég, í fyrsta skipti á þessu þingi að ræða eitthvað um umhverfismál og er það vel að við skulum loksins gera það og ættum við auðvitað að gera miklu oftar.
    Á sínum tíma lögðu kvennalistakonur gífurlega mikla áherslu á að stofna umhverfisráðuneyti. Við töldum að það mundi verða til þess að umhverfismálum yrði skipað hærra og yrði veittur veglegri sess í stjórnkerfinu og við vildum að umhvrn. hefði í raun sams konar stöðu innan stjórnkerfisins varðandi umhverfismál eins og fjmrn. hefur að því er varðar fjármál stjórnkerfisins. Þetta hefur því miður ekki orðið og sést best á því fjárlagafrv. sem við erum nú að fjalla um í þinginu að áherslurnar hafa breyst ákaflega lítið.
    Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði og þykir okkur kvennalistakonum slæmt að þurfa að horfa upp á það að umhvrn. skuli vera í stöðugri baráttu um meiri fjárveitingar og að við sem erum að reyna að ýta þar á fáum ekkert að gert.
    Einnig eru það okkur mikil vonbrigði að ekki skuli vera hægt að setja yfir til umhvrn. þá málaflokka sem eðlilega eiga heima þar. Þetta vil ég segja hérna, virðulegi forseti, þó það tengist ekki nema óbeint þessu frv. því það er samt liður í því sem hér er verið að leggja til, þ.e. breytingar sem eðlilega þarf að gera vegna þess að við erum komin með nýtt ráðuneyti. Við erum komin með umhverfisráðuneyti sem ekki var til áður. Þannig að þær breytingar sem þarf að gera í stjórnkerfinu eru auðvitað margar og þarf að gera miklu fleiri, en það sem hér er verið að reyna að gera er auðvitað eitt af því sem þarf að líta til, þ.e. stöðu Náttúruverndarráðs innan stjórnkerfisins og þar af leiðandi hlut umhvrn. í þeim verkum sem hafa verið hjá Náttúruverndarráði. En ég er ekki hins vegar alveg viss um að ráðherrann hafi hitt naglann á höfuðið með þessu frv. hérna. Og ég endurtek aftur, það þurfti að gera breytingar, en ég er ekki alveg viss um að það sé rétt að staðið eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, því miður.
    Ráðherrann minntist hér á nefnd. Það var gerð tilraun til að líta á endurskoðun á lögunum hér áður fyrr, reyndar ekki í hans ráðherratíð, það var í tíð fyrri ráðherra og þar voru tilnefndir ýmsir aðilar til að endurskoða lögin og m.a. var fulltrúi Kvennalistans, Sigrún Helgadóttir, í þeirri nefnd en ráðuneytið taldi ekki ástæðu til þess að halda áfram með þá vinnu. Ég skal ekki leggja dóm á það. Ég sjálf kom ekki þar að en mér finnst hins vegar ekki gott að ráðuneytið skuli eitt koma að þessum tillögum. Það kemur reyndar ekki fram hvaða aðilar það eru í ráðuneytinu, það skiptir í sjálfu sér ekki máli, það er á ábyrgð ráðuneytisins sem þetta frv. er samið og það kemur ekkert fram í samvinnu við hverja eða hvort það hafi yfirleitt verið reynt að taka tillit til sjónarmiða aðila en það er ekki tekið annað fram hér en þetta hafi eingöngu verið unnið innan ráðuneytisins.
    Á 117. löggjafarþingi var frv. lagt fram með sama heiti. Því var líka vísað til umhvn. og það var ekki afgreitt frá nefndinni. Nefndin sendi frv. til umsagnar en vegna mikilla anna hjá nefndinni við önnur frumvörp þá tókst okkur ekki að fara yfir umsagnir eða vinna neitt sérstaklega úr þeim. Við vorum aðeins byrjuð á því, þ.e. formaður, undirrituð, ásamt starfsmönnum nefndarinnar og starfsmönnum Alþingis og vorum búin að vinna aðeins úr umsögnum sem ekki voru teknar fyrir í nefndinni. Við vorum hér með mjög stór mál í fyrra, þ.e. bæði dýraverndarmál og svokallað villidýrafrv. eða vernd og veiðar á villtum dýrum og gátum þar af leiðandi ekki komið að því. En nú þegar við skoðum þetta frv. þá er búið að gera á því verulegar breytingar svo að það er erfitt að nota það sem við höfum verið vinna að. Ég á erfitt með að sjá og gat ekki séð hvorki á þessu frv. né á ræðu ráðherrans hvers vegna valið hefur verið að gera verulegar breytingar. Í markmiðsgreininni eða það sem talið er markmið þessara breytinga á lögum um náttúruvernd sem koma fram á bls. 9 í greinargerðinni og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir hér áðan, þá er ein af ástæðunum sem er dregin fram er að það eigi að skilja ríkisrekstur frá annarri starfsemi Náttúruverndarráðs og tryggja sjálfstæði gagnvart Stjórnarráðinu. Þessu hygg ég að flestir geti verið sammála og ég er alveg sammála því markmiði og eins að skapa grundvöll fyrir sjálfstætt og virkt Náttúruverndarráð. Það getur verið umdeilt því að margir eru algerlega á móti Náttúruverndarráði. Ég er ekki ein af þeim og hefði þess vegna talið að þetta markmið væri mjög gott og gilt. Síðan er að samræma verksvið umhvrn. og stofnana þess og samræma lög um náttúuvernd og lög um umhverfisáhrif að öðrum lögum og síðan að styrkja stefnu friðlýsingar og framkvæmd friðlýsingar. Þetta er allt mjög gott og gilt og þá veltir maður fyrir sér þegar maður les þetta frv. hvort þessum markmiðum verði náð með þessu frv.
    Þegar litið er á þetta þá kemur aðalbreytingin að mínu mati fram á bls. 9 í athugasemdum með frv. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Lagt er til að sérstök stofnun, Landvarsla ríkisins, sem að stofni til

er núverandi skrifstofa Náttúruverndarráðs, taki við hluta af verkefnum Náttúruverndarráðs.`` Mér finnst að þarna sé einmitt kjarninn, þ.e. að Landvarsla ríkisins verði að stofni til núverandi skrifstofa Náttúruverndarráðs þannig að í raun og veru er meginbreytingin sú að það er verið að skipta um nafn á Náttúruverndarráði auk þess sem mér sýnist að önnur breyting sem er auðvitað mjög veigamikil frá núgildandi lögum, þ.e. að að verði sett þriggja manna stjórn, þannig að Náttúruverndarráð verði ekki skipað eins og það er núna. En eins og kemur fram í e-lið 1. gr. sem verður 6. gr., með leyfi forseta: ,,Ráðherra skipar Landvörslu ríkisins þriggja manna stjórn, þar af formann sérstaklega, til fjögurra ára í senn og ákveður stjórnarlaun`` eins og þar segir, þ.e. að stjórnin verði skipuð án tilnefningar. Það sem gerist er því að Landvarsla ríkisins tekur yfir hlutverk Náttúruverndarráðs að mestu leyti og stjórnin verði skipuð án tilnefningar af ráðherra.
    Ég er ekki alveg sátt við þetta fyrirkomulag. Ég á svo sem ekki að segja það að þessi þriggja manna stjórn þurfi endilega að vera einhverjir sérlegir fulltrúar ráðherrans en það er eitt af því sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að: Hvernig lítur hann á þessa stjórn? Nú hefur verið talað um það af ráðherrum núna nýlega þegar verið er að skipa í stjórn og minni ég á stjórnir sem hæstv. heilbrrh. hefur verið að skipa í, sjúkrastjórnir og annað, hann lítur svo á að fulltrúar í stjórn sem hann skipar séu sérlegir fulltrúar hans. Ef það er það sama sem litið er á með þetta þá hlýtur það að vera umhugsunarefni í fyrsta lagi hvort það sé rétt að yfir slíkum málaflokki skuli skipuð þriggja manna stjórn sem sé eingöngu fulltrúar ráðherrans, enginn í stjórn sé tilnefndur af neinum öðrum aðilum. Og ef það verður ofan á hvort það sé þá þessi fjögur ár hvort ráðherrann hugsi sér að það sé meðan hann situr, þ.e. fjögur ár meðan viðkomandi ríkisstjórn situr og ef það er hugsunin á bak við þetta, þá þyrfti að breyta þessu þannig að hver ráðherra skipar. Þetta þarf að hugsa dálítið í samhengi ef maður hugsar um hlutverkið. Svo að ég taki það fram, þá er ég ekki alveg sátt við að þetta skuli vera svona þriggja manna stjórn án tilnefningar í fyrsta lagi. En ef það verður valið, þá finnst mér að það verði að hugsa hvort það verði þá ekki við hver ráðherraskipti eins og er í öðrum lögum. Þetta finnst mér þurfa að taka til athugunar sérstaklega.
    Ég vil einnig benda á að það hafa komið nokkuð margar athugasemdir við nafnið ,,Landvarsla ríkisins``. Það finnst mörgum það neikvætt orð og hafa bent á ýmislegt annað. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. Mér finnst sjálfri ekki neitt neikvætt við ,,Landvarsla ríkisins``, en ég hef heyrt að það eru mjög margir sem benda á að það geti orðið ruglingur við Landgræðsluna. Það var reyndar ein athugasemd frá landgræðslustjóra um það. En hins vegar eru aðrir sem telja að þetta virki eins og þetta sé nokkurs konar lögregla eða þess háttar. Ég vil varpa þessu fram til umhugsunar vegna þess að þetta er eitt af því sem mjög margir benda á og hafa bent mér á að við þyrftum að athuga í þinginu hvort ekki væri rétt að breyta um nafn á þessu fyrirbæri sem Landvarslan er. Ég hygg að þetta nafn sé upphaflega komið frá Náttúruverndarráði, þó er ég ekki alveg viss um það. Þetta er nú atriði sem ég vildi spyrja ráðherrann hvort hann hafi hugleitt, hvort þetta væri endilega rétta nafnið, hvort við ættum ekki að reyna að finna eitthvert annað nafn, því að ég sé að þau rök sem komið hafa geta alveg átt rétt á sér. En eins og ég segi, þetta er kannski ekki stórmál, þetta er kannski atriði sem þarf bara að skoða frekar í nefndinni.
    En eins og ég segi, mér sýnist að þarna sé Landvarslan látin taka yfir meiri hlutann af því eða nánast allt það hlutverk sem Náttúruverndarráð hafi á sinni könnu og er ég ekki alveg viss um að það sé rétt að gera það vegna þess að eitt af því sem var tilgangurinn var að aðskilja ríkisrekstur frá t.d. eftirliti, frá fræðslunni eða mínu mati, þá ætti það að vera gert. Tökum sem dæmi að það er ekki gert ráð fyrir því að Landvarslan sé rekstraraðili, þ.e. þjóðgarðanna og friðlýsta svæðisins ef um það er að ræða, hún hlýtur að þurfa að hafa eftirlit með þeim aðilum sem hugsanlega taka að sér rekstur á friðlýstum svæðum ef um það væri að ræða því að það er gert ráð fyrir því í frv. að það geti verið og reyndar er það gert að hluta til núna. Það eru aðilar sem taka að sér rekstur vissra svæða og þá þarf Landvarslan væntanlega að hafa eftirlit með þeim aðilum og síðan er líka gert ráð fyrir að Landvarslan hafi með höndum menntunarmál eða fræðsluna sem ég hefði haldið að ætti frekar að vera hjá Náttúruverndarráði ef við gerum ráð fyrir að Náttúruverndarráð hafi eitthvert hlutverk í þessu kerfi.
    Á síðasta löggjafarþingi var gert ráð fyrir því í frv. að það væru eftirlitsmenn Náttúruverndarráðs í hverjum landsfjórðungi. Ég hefði haldið að þetta væri mjög mikilvægt atriði, að það væru eftirlitsmenn í hverjum landsfjórðungi a.m.k. og hefði reyndar talið að þyrftu að vera í hverju kjördæmi. Það er eitt af því sem bæði þeir sem hafa verið við þessa vörslu og fleiri hafa bent á að það ætti frekar að efla þetta, þ.e. fjölga þeim. Það var meðal þeirra athugasemda sem við fengum á síðasta löggjafarþingi þannig að ég tel mjög hæpið að fella niður hlutverk þessara eftirlitsmanna úti á landi, úti kjördæmunum eða landsfjórðungunum eftir því hversu menn velja marga eftirlitsmenn. Ég tek eftir að það er auðvitað gert ráð fyrir að t.d. þjóðgarðsverðir geti tekið þarna yfir ákveðið eftirlitshlutverk en þeir geta aldrei tekið við öllu því hlutverki sem allir þessir eftirlitsmenn hafa haft með höndum úti um landið. Ég tel að það þurfi að skoða þetta aðeins betur og vil reyndar spyrja af hverju valið var að fella niður --- nú er hæstv. ráðherra horfinn, ég vona að hann heyri mál mitt af því að ég hefði viljað spyrja hérna um eitt atriði. Ég þyrfti að fá aðeins betri skýringu á því hvers vegna er ákveðið að leggja niður eftirlitsmannakerfið hjá Náttúruverndarráði sem er samkvæmt 14. gr. eins og gert var ráð fyrir í fyrra. Ég heyrði ekki rök fyrir því af hverju var valið að fella það niður því að ég hefði einmitt talið þurfa að efla það frekar, það eftirlitskerfi. Síðan er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð hætti að fjalla um lögbundið mat á umhverfisáhrifum eins og gert er ráð fyrir

í núgildandi lögum og lögð var áhersla á að það mundi ekki falla brott og ráðherrann minntist á að Landvarsla ríkisins ætti, ef ég heyrði rétt, að hafa það með höndum. Ég tel að Landvarsla ríkisins sé komin með allt of mikið hlutverk. Hún er komin með svo margþætt hlutverk að ég átta mig ekki á hvers vegna þessi leið er valin og þar hefði ég þurft að fá örlítið betri rök hjá hæstv. ráðherra fyrir einmitt þessum breytingum. Ef ég heyrði rétt, þá sagði ráðherrann eitthvað á þá leið að þetta þætti eðlilegt, en ég þyrfti að fá örlítið betri skýringu á því.
    Ef horft er á hlutverk Náttúruverndarráðs í þessu frv., þá er hlutverk þess í raun og veru orðið ákaflega lítið og rýrt. Samkvæmt frv. hefur það umsagnarrétt og það á að vera mikilvægur aðili í stefnumótun eins og talað er um. Það á að vera stjórnvöldum til aðhalds og eins og ég las upp hér áðan úr frv., þá á það að vera sjálfstætt og virkt eins og það kemur fram. Ég á ákaflega erfitt með að sjá hvernig það á að geta átt sér stað ef ekki á að tryggja neitt fjármagn til Náttúruverndarráð því til þess að vera sjálfstæður og til þess að vera virkur þá þarf maður að hafa peninga. Því miður er það þannig að við erum öll háð því að hafa eitthvert fé til að geta stundað einhverjar aðhaldsaðgerðir og eitthvert aðhald varðandi náttúruna. Það er ekki bara það heldur finnst mér líka skipta mjög miklu máli ef Náttúruverndarráð á að hafa þarna eitthvert vægi þá verður það að hafa einhver ákvæði í lögum sem gera það að verkum að það geti haft einhver áhrif á það sem verið er að gera. Það sé ég ekki að það geti gert. Það getur sagt: Þetta er slæmt og þetta er ómögulegt, en hvað svo? Það tel ég að gangi ekki upp ef meiningin er að það eigi að vera með þannig hlutverk og hafa eitthvert vald.
    Mér sýnist að það sé snyrtilega verið að leggja niður Náttúruverndarráð og það er kannski e.t.v. tilgangurinn og þá er best að segja það ef það er tilgangurinn og það væru sjálfsagt margir ánægðir með það því það eru margir sem hnýta í Náttúruverndarráð og það er eins og ég segi að ég tek ekki undir það þó ég geti gagnrýnt ýmislegt hjá Náttúruverndarráði þá vil ég ekki leggja það niður. Ég tel að það geti haft mikilvægu hlutverki að gegna. Svo þarna finnst mér vera nokkuð mikill munur á því sem sagt er og því sem fram kemur í frv. þegar grannt er skoðað.
    Við getum væntanlega lengi deilt um þessi atriði, þ.e. hvernig þessu eigi að vera fyrir komið, hvað á að heita hvað og hvort Náttúruverndarráð eigi að vera til staðar. Ég tel að það eigi að vera virkt og sjálfstætt náttúruverndarráð en það verður að hafa fjármagn og eitthvert hald í lögum til að hafa eitthvert vægi. Það er ekki hægt að það sé einhver nefnd eða ráð úti í bæ sem raunverulega hefur ekkert að segja og ekkert að gera, þá er jafngott að taka skrefið til fulls og leggja það niður. Ég tek það enn og aftur fram að ég er ekki að mæla með því en mér sýnist á þessu að það er raunverulega tilgangurinn og þá verður það bara að koma fram hjá hæstv. ráðherra ef það er meiningin.
    Ég held ég fari ekki að svo komnu máli frekar ofan í einstakar greinar frv. Það er svona ,,smotterí`` sem ég hefði viljað spyrja um og það er kannski bara mín vanþekking sem gerir það að verkum að þegar ég ber saman frv. frá því á 117. löggjafarþingi og núna, ef við tökum t.d. 3. gr. þá er tekið fram í 3. gr. frv. eins og það leit út á 117. löggjafarþingi, með leyfi forseta:
    ,,Landvarsla ríkisins er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfisráðuneytið.``
    Nú er þetta ,,sjálfstæð`` fallið brott. Ég átta mig ekki á hver munurinn þarna er á. Það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessu úr því að þetta er fellt brott. Kannski skiptir þetta engu máli en ég hefði gjarnan viljað spyrja. Ég rak augun í þetta og fannst að það væri einhver tilgangur með þessu og vil þess vegna spyrja ráðherrann um einmitt þetta atriði.
    Ég verð að segja það einnig að ég tel að ákvæði b-liðar 3. gr., þar sem talað er um akstur utan vega, vera allt of veik í þessu frv. og þurfi að herða það nokkuð. Það þarf að taka á akstri utan vega. Mér finnst orðalagið eins og það er þarna of veikt. Það er auðvitað hægt að styrkja það en það vil ég segja hér og nú að ég tel að þau gífurlegu spjöll sem unnin hafa verið með akstri utan vega séu þess eðlis að það þurfi að taka þarna fast á. Þess vegna vil ég segja það við þessa umræðu.
    Almennt vil ég segja um þær greinar sem hérna eru á eftir að þar er víða bætt inn að Náttúrufræðistofnun Íslands eigi ásamt Náttúruverndarráði að koma með ýmsar tillögur. Ég ætla ekki að fara að tíunda þær sérstaklega. Það má svo sem taka hérna eitt dæmi. Það er það sem hæstv. ráðherra minntist einnig á varðandi 22. gr. um friðlýsingar þar er talað um að þar komi að bæði Landvarsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands og það gildir reyndar um fleiri staði og eins og ráðherrann orðaði það hér áðan eitthvað á þá leið að það væri þar sem hið fræðilega atgervi liggur, ef ég tók rétt eftir og auðvitað liggur þar mikið fræðilegt atgervi. Ég vil bara benda á að það eru fleiri stofnanir sem hafa slíkt fræðilegt atgervi. Ég get t.d. bent á Háskóla Íslands, bæði líffræðiskor og náttúrufræði, landfræði, jarðfræði og ýmislegt fleira þannig að ég tel að svona takmörkun við eina stofnun geti víða verið slæm, það þurfi að hafa þetta víðara, því varðandi friðlýsingar, fræðilegan bakgrunn og annað getur verið nauðsynlegt að leita til annarra stofnana ekki síður en Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þannig að ég tel að það þurfi að athuga það og vil spyrja ráðherrann hvort hann telji einhverja meinbugi á því eða eitthvað sem er athugavert við að breyta t.d. þessum atriðum. ( Umhvrh.: Til dæmis hverju?) Varðandi það að fleiri fræðilegir aðilar komi að. Þarna er þetta alltaf takmarkað við Náttúrufræðistofnun Íslands, t.d. er gert ráð fyrir því að Náttúrufræðistofnun Íslands komi með tillögur að því er varðaði örverur og fleira þess háttar. Nú hefur t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands ekki verið á því sviði bara sem dæmi heldur hafa aðrar stofnanir verið aðallega með rannsóknir á sviði örverufræði. Þess vegna fyndist mér miklu eðlilegra að það væri ekki bundið endilega á þennan hátt inni í lögunum að Náttúrufræðistofnun Íslands ein geri tillögur að því er varðar friðlýsingar t.d. eins og þetta er sérstaklega tekið fram. Þetta er kannski bara eitt dæmi en þetta getur algjörlega átt við víðar þar sem um er að ræða friðlýsingar t.d. á náttúruminjum almennt sem ekki endilega Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fræðilega þekkingu á. Þótt hún hafi mjög víðtæka fræðilega þekkingu þá tel ég að þarna sé eðlilegt að þetta sé eitthvað víkkað út eða alla vega skoðað hvort það sé ekki rétt að gera það.
    Í frv. er gert ráð fyrir að þjóðgarðar þurfi ekkert endilega að vera í ríkiseign. Þetta finnst mér að þurfi að athuga sérstaklega því þarna er að mínu mati farið út á braut sem ég er ekki alveg viss um að gangi upp þó ég vilji ekki hafna því alveg án athugunar. En ég tel að meginreglan eigi að vera sú að þjóðgarðar séu í ríkiseign og tel það raunverulega algjöra forsendu og kom mér þess vegna nokkuð á óvart að það væri gert ráð fyrir þessu atriði. Þetta var reyndar í frv. í fyrra líka ef ég man rétt. Þannig að ég vildi áskilja mér allan rétt til að athuga þetta nokkuð nánar því þetta held ég að sé ákaflega erfitt og gangi illa upp. En eins og ég segi ég ætla ekki að hafna því við fyrsta umgang því það á ég eftir að athuga nokkuð nánar.
    Frú forseti. Það sem er kannski alvarlegasti þátturinn í þessu frv., og þó kannski ekki beinlínis í frv. því það er það sem kemur fram í fskj. með frv., er umsögn fjmrn. við þetta frv., lokamálsgreinin, ef ég má lesa það upp, með leyfi forseta: ,,Umhverfisráðuneytið fyrirhugar að standa þannig að framangreindum breytingum á framkvæmd náttúruverndar að starfsemin rúmist innan ramma núverandi fjárveitinga. Ráðuneytið hefur jafnframt ákveðið að ef lögin komi til framkvæmda verði gerð úttekt á Náttúruverndarráði og Landvörslunni sem miði að því að tryggja það markmið með endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri.``
    Þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að ekkert meira fjármagn fari til þess þó verið sé að skipta hlutverki Náttúruverndarráðs í tvær aðskildar stofnanir að því er sagt er og það er gert ráð fyrir því í frv. að það sé veitt til þess fjármagn á fjárlögum að það verði einn framkvæmdastjóri hjá Náttúruverndarráði auk skrifstofunnar og síðan hlýtur að þurfa að reka aðra skrifstofu fyrir Landvörsluna og með þeim starfsmönnum sem þar þarf. Og eins og við sem höfum fylgst hér með vitum þá hefur á hverju ári eða svo lengi sem ég hef fylgst með allt of lítið fjármagn verið veitt til Náttúruverndarráðs miðað við það lögbundna hlutverk sem því er ætlað. Þess vegna finnst mér í raun að þarna sé farið út á mjög hættulega braut að vera að gera verulegar breytingar á því að flytja verkefni yfir til Landvörslunnar og á sama tíma í raun verið að draga úr starfseminni.
    Þetta tel ég, frú forseti, vera ákaflega alvarlegt mál. Að við séum að fjalla um breytingar sem að mörgu leyti eru nauðsynlegar, það er nauðsynlegt að gera breytingar þó ég sé ekki viss um að þetta sé endilega nákvæmlega rétta leiðin en það má auðvitað laga en að þá eigi ekkert aukið fjármagn að veita í þennan málaflokk og þessar breytingar því ég sé ekki hvernig í ósköpunum Landvarsla ríkisins á að geta tekið yfir öll þau verkefni sem Náttúruverndarráð hefur með höndum, eftirlit, fræðslu og rekstur þjóðgarðanna og allt þetta sem gert er hér ráð fyrir og í raun með minna fjármagni því að Náttúruverndarráð er áfram með sjálfstæða skrifstofu sem er þó bara með einum manni sem verður auðvitað mjög bitlaust. Þannig að ég tel nú að þarna sé mjög margt að athuga og það getur verið vandasamt að standa að breytingum með þessum hætti ef ekki er gert ráð fyrir að efla um leið þá starfsemi sem þarna hefur farið fram að einhverju leyti og allt of litlu leyti auðvitað vegna fjárskorts en þyrfti að efla verulega.