Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:40:58 (1429)


[12:40]
     Ágústa Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Hér eru málefni smábátaútgerðarinnar á dagskrá en ekki alls fyrir löngu var aðalfundur Landssambands smábátaeigenda og ég vil byrja á því að vitna í ályktun þaðan, með leyfi forseta:
    ,,Stefna stjórnvalda í fiskveiðistjórninni er á villigötum. Á sama tíma og fjölmörgum minni byggðarlögum á ströndinni er meinað að sækja lífsbjörg sína og tilverugrundvöll í hafsvæði fyrir framan bæjardyrnar hjá sér safnast veiðiheimildirnar í æ ríkari mæli á hendur örfárra aðila sem ráðskast með þær að vild. Þessi niðurstaða er í hrópandi ósamræmi við alþjóðasamþykktir sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað og þar með skuldbundið þjóðina til að fara eftir ásamt því að ganga þvert á öll yfirlýst markmið sjálfra fiskveiðistjórnunarlaganna.
    Sú spurning er nú mjög knýjandi að þessi byggðarlög snúist gegn þessari þróun og krefjist t.d. óskoraðs nýtingarréttar innan skilgreindrar byggðalandhelgi þaðan sem aflanum hefur verið landað til vinnslu í landi.``
    Þetta tel ég vera kjarna málsins og ég ætla að benda á að Kvennalistinn hefur talað um það síðan 1987 að taka upp byggðakvóta. Þá gætu byggðarlögin, hvert fyrir sig, stutt við sína smábátaútgerð og það yrði ekki í höndum örfárra manna í Reykjavík að ráðskast með þeirra örlög.
    Við verðum að endurskoða og endurmeta stjórnunaraðferðirnar í fiskveiðunum með langtímasjónarmið í huga og þar sem horft er til sjálfbærrar þróunar.
    Það er fólk en ekki fjármagn sem á að stjórna meðferð auðlindarinnar. Við verðum að ýta undir veiðar með vistvænum veiðarfærum og veiðarnar verði stundaðar á skipum sem teljast hagkvæmust með

tilliti til orkunotkunar. Byggðakvóti er því einmitt það sem koma skal.