Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:50:31 (1433)


[12:50]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegur forseti. Við kvennalistakonur höfum lengi bent á mikilvægi smábátaútgerðar og ég held að það sé sífellt að koma betur í ljós hversu mikilvæg smábátaútgerð hefur reynst og jafnvel bjargað atvinnulífi heilu byggðarlaganna þegar þau hafa orðið fyrir skakkaföllum. Að því leyti til er smábátaútgerð ólík annarri útgerð að sveiflurnar verða ekki slíkar sem gerist t.d. þegar togarar sem heilt byggðarlag á afkomu sína undir er úr leik af einum eða öðrum orsökum. Þar af leiðandi er smábátaútgerð mjög í takt við það sem byggðarlög þola og í rauninni skapar ákveðna fjölbreytni í atvinnulífi sem önnur útgerð gerir síður a.m.k. í smærri plássum. Þar að auki er þar um að ræða fiskveiðar með lítilli fjárfestingu sem skilar býsna vel inn ef á annað borð smábátum er gert mögulegt að lifa. Þar að auki er smábátaútgerð mjög atvinnuskapandi bæði á sjó og á landi.
    Því er von að þegar allt í einu blasa við tölur um allt að 70% skerðingu þorskveiðiheimilda til aflamarksbáta þá hrökkvi menn við og skynji alvöru málsins. Þeir geta ekki farið á fjarlæg mið og gengið frá hlutunum eins og aðrir og leyst alla vega til bráðabirgða sín mál. Landssamband smábátaeigenda hefur komið með hugmyndir um t.d. að aflamarkssmábátar undir sex tonnum geti farið á krókaleyfi og það er hægt að framkvæma m.a. innan þess byggðakvóta sem við kvennalistakonur höfum ávallt mælt fyrir. Það er í takt við það byggðasjónarmið og ég vona að það verði gripið til einhverra ráðstafana sem duga.