Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:56:37 (1436)


[12:56]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Það leysir ekki vanda smábátaútgerðarinnar í landinu að deila hér um það hverjum eitthvað er að kenna. Allir stjórnmálaflokkar sem setið hafa í ríkisstjórn sl. sex ár bera ábyrgð á því ástandi sem hér blasir við. Ekki eigendur smábátanna sjálfir heldur stjórnmálamennirnir og allir stjórnmálaflokkar sem hafa setið í ríkisstjórn sl. sex ár.
    Við erum sammála um að ástandið er svo alvarlegt að það verður að grípa til einhverra aðgerða ef ekki verr á að fara. Hæstv. sjútvrh. hefur boðað hér breyttar úthlutunarreglur í sambandi við starfsemi Fiskveiðasjóðs en ég óttast mjög að í ljósi þeirra aðstæðna sem við stríðum við kunni þetta að koma að litlu gagni vegna þess að eigendur þessara báta búa ekki lengur yfir neinum veðum til að bjóða Fiskveiðasjóði. Og ég óttast að eigendur þessara báta séu ekki lánshæfir í Fiskveiðasjóði. Það er gott ef þetta skref er stigið en það leysir ekki þann aðsteðjandi vanda sem við er að etja einmitt núna og verður að taka á. Ég vona að í kjölfar þessara umræðna megi nást breið samstaða um skjótar aðgerðir til að bregðast við þessu ástandi. Og ég treysti hæstv. sjútvrh. að skoða málið vel og taka forustu um aðgerðir sem að gagni geta komið.