Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:19:03 (1442)


[13:19]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er gagnrýni vert hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessu máli, þ.e. að ekki sé búið að ganga frá því. Ég tel hins vegar að hæstv. iðnrh. hafi gert mjög glögga grein fyrir því hér hvernig þetta samkomulag var og það þurfi kannski ekki að vera að ræða það miklu meira heldur þurfi að leggja fyrir Alþingi frv. þar sem þetta verði staðfest. Það verður að drífa í því og fá fram vilja þingsins í staðinn fyrir að vera að rífast um þetta því það er mjög alvarlegt að fólk í Mývatnssveit viti ekki um framtíð sína.
    Ég tel að það ætti að vera öllum ljóst af þeim gögnum sem fyrir liggja, af þeim rannsóknum sem fyrir liggja, að með því að veita námaleyfi í Syðriflóa er náttúran í mikilli hættu. Ef það liggur fyrir þá get ég ekki skilið hvers vegna menn vilja taka þá áhættu. Náttúran á að njóta vafans. (Gripið fram í.) Það liggja fyrir rannsóknir. Ef menn vilja lesa þær þá geta þeir gert það, það liggur fyrir niðurstaða.
    Ég vil líka benda á það að í því námaleyfi sem iðnrh. gaf út er í 11. tölul. beinlínis gert ráð fyrir að félagið skuli fjarlægja öll verksummerki um verksmiðjuna og fjarlægja hana. Af hverju er það sett í námaleyfið ef öllum hefur ekki verið ljóst að það er ætlunin að þessi tími til 2010 sé notaður til þess að hætta námavinnslu? Það hlýtur að vera allra hagur að um leið verði reynt að byggja upp atvinnulíf á öðrum sviðum í Mývatnssveit. Ég vil minna á að þann 14. des. 1993 samþykkti Alþingi ályktun þess efnis að efla atvinnuþróun í Mývatnssveit. Af hverju sameinumst við ekki frekar um að gera það í staðinn fyrir að vera að deila um þetta sem er svo augljóst? Námavinnsla í Mývatni getur ekki haldið áfram eftir 2010.