Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:24:37 (1444)


[13:24]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það kemur verulega á óvart að hér skuli koma fram af hálfu stuðningsmanna ríkisstjórarinnar að það ríki einhver vafi í þessu máli að því er varðar frágang á þeirri sátt sem gerð var 1993. Mér finnst það satt að segja fádæmi að heyra það frá þingmönnum og þingmanni eins og Tómasi Inga Olrich að túlka málið með þeim hætti sem hann gerði . . .  
    ( Forseti (SalÞ) : Háttvirtur.)
. . .  hv. þm., að túlka málið þannig eftir það sem fyrir liggur í málinu. Og það fór ekki fram hjá neinum, hvorki á Alþingi Íslendinga, né hjá okkur t.d. í umhvn. sem fengum bæði umhvrh. þáv. og iðnrh. á fund til að gera okkur grein fyrir málinu sameiginlega. Í þeirri nefnd, á þeim vettvangi var engin spurning um hvað fólst efnislega í þessu. Þetta var samtengt samkomulag og byggðist á niðurstöðu þess tilkvadda verkefnishóps sem skilaði niðurstöðum 26. mars 1993. Þar kemur að sjálfsögðu alveg ótvírætt fram að stórfelld áhætta væri tekin ef það væri hafin námavinnsla í Syðriflóa, ef stefna ætti að því í Bolum, sem tengjast Syðriflóa, og það væri áhætta sem stefndi lífríki Mývatns í hættu. Á þessu er þessi niðurstaða reist. Mér finnst það afskaplega hryggilegt ef einhverjir þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra eru að fara að reyna að þyrla upp moldviðri út af þessu máli. Þetta er allt of stórt mál til þess fyrir landið sem heild, fyrir Mývetninga og alla hlutaðeigandi til þess að ætla nú að skemmta skrattanum með því að þyrla upp slíku moldviðri.
    Auðvitað á Alþingi Íslendinga að innsigla þetta samkomulag fyrr en seinna eins og að var stefnt og ráð var fyrir gert og frv. hafa komið fram um það efni. (Forseti hringir).
    Ég minni líka á að það var samþykkt sérstök þáltill. að frumkvæði umhvn. þingsins um að styðja við sjálfbæra atvinnuþróun í Mývatnssveit, m.a. með hliðsjón af því sem þarna lá fyrir varðandi (Forseti hringir.) framtíð kísilgúrvinnslunnar.