Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 15:25:41 (1455)


[15:25]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það var dapurleg skýrsla sem hæstv. forsrh. flutti hér um byggðamál. Hún endurspeglar reyndar þá stefnu sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar markaði í upphafi, að atvinnumál kæmu henni ekki við. Árangur þeirrar stefnu og annarra aðgerða ríkisstjórnarinnar hafa orðið vaxandi erfiðlekar atvinnulífsins og atvinnuleysi. Samkvæmt breytingu sem var gerð á lögum um Byggðastofnun í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar ber forsrh. að leggja fram byggðaáætlun á Alþingi. Það gerði hæstv. forsrh. fyrst á síðasta þingi og var hún samþykkt fyrir þinglok. Þar eru sett fram fögur fyrirheit í almennum orðum. Hins vegar gagnrýndi ég það við meðferð málsins í allshn. að þar vantaði markvissar aðgerðir eins og fram kemur í nefndaráliti sem ég skilaði þá. Studdist ég m.a. við ummæli eins gestsins sem kom á fund nefndarinnar um að þetta væri eins og beinagrind sem allt hold vantaði á. Því miður bætir boðskapur hæstv. ríkisstjórnarinnar ekki úr, hvorki ræða hæstv. forsrh. né tölur í fjárlagafrv.

    Í greinargerð fjárlagafrv. eru þrjár línur um Byggðastofnun. Þar er sagt frá því að hækkun framlaga til Byggðastofnunar úr ríkissjóði verði 25 millj. kr. Er það vegna aukinna verkefna stofnunarinnar í framhaldi af ályktun Alþingis á sl. vori. En hvað segir þessi ályktun Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun? Í lok hennar er listi yfir fjárveitingar til byggðamála á næstu árum. Þar kemur fram að fjárframlög til Byggðastofnunar skuli hækka um 50 millj. á næsta ári. Hæstv. ríkisstjórn er sem sagt þegar búin að gera þessa áætlun að marklausu plaggi og bætist það við of rýrt innihald þannig að það lofar ekki góðu.
    Það kom líka fram í skýrslu hæstv. forsrh. að umsvif Byggðastofnunar hafa minnkað á síðustu árum. Lánveitingar hafa lækkað um helming og hlutafjárframlög hafa algjörlega horfið. Það er á grundvelli reglugerðar sem hæstv. forsrh. gaf út um að slíkt væri ekki lengur heimilt. Hæstv. forsrh. sagði að í staðinn væri lögð vaxandi áhersla á byggðaáætlanir og aðra áætlanagerð. Það kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar að lagðar hafa verið fram lágar upphæðir til ýmissa átaksverkefna. Ég kannast við sum þessara verkefna. Þau byrja gjarnan þannig að það er litið á það hvaða möguleikar kunni að vera fyrir hendi í hverju byggðarlagi og síðan er tekinn út einn kostur sem talinn er vænlegastur. Það hefur verið reynt að fylgja eftir þessum verkefnum, sem sérstaklega eru talin álitleg, með frekari athugunum. En því miður er það svo, og það þekki ég fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi um, að þegar sú vinna er nokkuð komin á veg og ýtir frekar en hitt undir vonir manna um að vel geti til tekist þá er fjármagnið sem hægt er að fá til stuðnings verkefninu þrotið. Það þarf að vinna að meiri markaðsathugunum áður en hægt er að fara að leggja áætlanirnar fyrir hugsanlega fjárfesta en þá reka menn sig á vegg. Þá hefur það gerst ef þannig fer að því miður fer það fjármagn sem þegar er búið að leggja í verkefnið forgörðum og verður að engu. Þetta er sorgarsaga.
    Hæstv. forsrh. minntist m.a. á samdrátt í landbúnaði og sjávarútvegi og að eitthvað annað þyrfti að koma í staðinn. En hvernig sýnir ríkisstjórnin það í verki? Í síðasta búvörusamningi er kveðið á um að 100 millj. kr. skyldu renna til Byggðastofnunar á ári til þess að styðja sérstaklega verkefni í þeim byggðarlögum þar sem sauðfjárrækt er ríkjandi og samdrátturinn því tilfinnanlegastur. Nú hefur það farið svo að þessi samdráttur er jafnvel enn meiri en þeir svartsýnustu óttuðust þegar sá samningur var gerður. En sérstaklega þó tilfinnanlegur vegna þess almenna atvinnuleysis sem nú er að dynja yfir. Bændur hafa því engin úrræði til að leita í nálæg þéttbýli til að drýgja tekjur sínar. En efndir á þessu hafa orðið þær að Byggðastofnun hefur aðeins fengið samtals 15 millj. kr. í þetta verkefni og sjá allir að það hrekkur ekki langt.
    Því miður verður að taka undir það sem hv. 1. þm. Vestf., formaður Byggðastofnunar, sagði hér að aðrar þjóðir eru vakandi að sinna nýjungum en við hjökkum í sama fari. Þar vil ég þá aðeins víkja að því hvað aðrar þjóðir eru að gera og hvernig þær meta gildi byggðamála.
    Um þessar mundir er verið að kynna drög að Evrópusamþykkt um byggðamál og m.a. voru þau drög kynnt á fundi Evrópusamtaka bænda á sl. sumri. Í Evrópuráðinu eru 32 þjóðir og við Íslendingar þar í hópi. Þar er verið að endurmeta gildi byggðastefnu og hvers virði hún sé fyrir þjóðirnar. Það er mjög margt fróðlegt sem kemur fram í þessu skjali og athyglisvert að hæstv. forsrh. minntist ekki einu orði á þessa vinnu eða hvert viðhorf íslensku ríkisstjórnarinnar og stjórnarliðsins væri til hennar þó að Ísland eigi þar aðild. Það örlaði ekki heldur á framtíðarsýn í byggðamálum hjá hæstv. forsrh. En mig langar að víkja að örfáum atriðum sem standa í þessum drögum að samþykkt um byggðamál. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Landsbyggðin hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Þéttbýli og dreifbýli eru háð hvort öðru og tengjast með margvíslegum hætti. Örlög þeirra eru samtvinnuð.``
    Enn fremur undir heitinu: Kröfur um byggðastefnu:
    ,,Sjá verður landsbyggðinni fyrir nútímalegum stoðveitum og samgönguleiðum sem mæta raunverulegum þörfum. Þar sem slíkar stoðveitur og samgönguleiðir eru forsendur fyrir því að hægt verði að renna stoðum undir hagfélagslega starfsemi á landsbyggðinni má ekki meta ákvarðanir um að koma þeim upp eða halda þeim við eingöngu út frá umfangi. Þetta á jafnt við um fjarskipti, vegakerfi, almenningssamgöngur og þjónustumiðstöðvar.
    Mannauður er verðmætasta eignin í dreifbýlissamfélagi rétt eins og annars staðar. Þróun hans og viðhald verður því að hafa allan forgang. Ef dreifbýlissamfélög eiga að halda velli verður að tryggja fólki viðunandi tekjur. Til þess að það geti tekist þarf fjölbreytt úrval eftirsóknarverðra atvinnutækifæra, ekki aðeins í landbúnaði. Þessi atvinnutækifæri verða þó að miðast við sérkenni hvers héraðs fyrir sig. Meðal aðgerða sem grípa þarf til eru eftirfarandi:``
    Síðan eru talin upp allmörg atriði og m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Veita þarf forgang starfsemi og atvinnuframtaki sem miðar að sjálfstæðri þróun og umfram allt sem lúta að stjórn og eru fjármagnaðar af dreifbýlissamfélaginu sjálfu. Stuðla verður að framleiðslu vöru og þjónustu sem eykur verkþekkingu og menntun í einstökum héruðum, svo og að fullri nýtingu vannýttra auðlinda þar sem nefna má timbur, vatn, byggingarefni, landsvæði og virkjun endurnýjanlegrar orkuauðlinda.``
    Hér er vikið að ýmsum auðlindum, m.a. vatninu. Í sambandi við afgreiðslu á byggðaáætlun á sl. vori vildi ég vekja athygli á þeim miklu möguleikum sem eru í verðmætum landsins og m.a. vatninu. Ég flutti því tillögu um skipun nefndar til vatnsútflutnings sem ég hef endurflutt á þessu þingi. Vænti ég þess að hún fái hér undirtektir. Í greinargerð þeirrar þáltill. er vitnað í tímarit sem heitir AVS en þar segir svo,

með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hingað til höfum við horft á þetta neysluvatn renna til sjávar eins og lati Geir á lækjarbakka án þess að hafa uppi mikla tilburði til að gera okkur það að féþúfu. Þó hafa nokkrar ánægjulegar tilraunir verið gerðar til að vinna og flytja út vatn en af miklum vanefnum og án þess að nokkur stefna hafi verið mótuð um það hvernig æskilegt sé að standa að þessum málum þegar til lengri tíma er litið.
    En hversu verðmæt er nytjavatnsauðlindin? Allt lindarvatn í byggð flutt út í dýrum neytendaumbúðum skilaði 200 þús. milljörðum íslenskra króna eða fimmþúsundföldum þjóðartekjum okkar núna.`` Þessar tölur segja aðeins það að hér sé um að ræða nær óþrjótandi hráefni ef við berum gæfu til að nýta það og markaðir fyrir það fara sístækkandi. Þess vegna tel ég að það sé til mikils að vinna að taka svona mál föstum tökum og vinna að framgangi þeirra.
    Það sem mér finnst alvarlegast við skýrslu hæstv. forsrh. og þau viðhorf sem þar koma fram er vantrúin á möguleikana. Og vantrúin á það að athafnir borgi sig. Fjárfesting er nú í sögulegu lágmarki og ef hæstv. ríkisstjórn hefði trú á því að það borgaði sig að nýta möguleikana þá mundi hún ekki vera að skera niður þá lágu upphæð sem ályktunin um byggðaáætlun gerði ráð fyrir að veita til aukinnar nýsköpunar. Ef við ætlum að búa áfram í þessu landi þá verður það ekki gert nema með því að nýta auðlindir landsins og þá möguleika sem þær auðlindir bjóða upp á. Þær verða ekki nýttar ef menn sitja með hendur í skauti og virðast telja að það fjármagn sem veitt er til þeirra séu glataðir peningar.