Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 15:56:42 (1457)


[15:56]
     Ragnar Þorgeirsson :
    Virðulegur forseti. Þegar rætt er um byggðamál setja menn gjarnan upp alveg sérstakan svip. Menn

gerast hátt stemmdir og flytja gjarnan einskonar 17. júní ræður. Ræðurnar eru orðnar geysimargar og eflaust á þeim eftir að fjölga enn. Mikið hefur verið rætt um atvinnusköpun en samt fækkar störfunum stöðugt og er orðið varanlegt atvinnuleysi í flestum byggðum landsins.
    Mikið hefur verið talað um flutning ríkisstofnana út á land en allt situr við það sama eða nánast allt. Ekki vil ég þó vera ósanngjarn og þakka þau skref sem stigin hafa verið þó bæði hafi þau verið lítil og fá.
    Mikilvægi sjávarútvegsins þekkja allir. Í 17. júní ræðunum, sem ég nefndi áðan, er gjarnan talað um nýsköpun í sjávarútvegi, m.a. að efla hafrannsóknir, bæta þekkingu okkar á nýtingu auðlindanna. Afkoma sjávarútvegsins er mikilvirkur þáttur í afkomu byggðar um allt land. Er þá talað um djúpsjávarrannsóknir með tilliti til stóraukinna veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg, stofn sem lítið er vitað um en útvegsmenn treysta á og hafa fjárfest stórkostlega í skipum sem geta stundað þessar veiðar.
    Ég þykist muna að hæstv. sjútvrh. sagði í fjölmiðlum í sumar að rannsaka þyrfti sérstaklega norsk-íslenska síldarstofninn þegar síld gerði vart við sig norðaustur af landinu í júlí sl. Einnig er það samdóma álit að vinna þurfi að rannsóknum þorskklaks, skelfisks, krabbadýra og fleira mætti telja. Þrátt fyrir allt er framlag til Hafrannsóknastofnunar skert frá fyrra ári, að vísu ekki stórlega, en það hefði þurft að bæta stórum upphæðum við milli ára ef þetta ætti að vinnast. Að mínu mati felst framtíð okkar að miklu leyti í þessum rannsóknum, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir og þær fjárfestingar sem þar eru til staðar.
    Á sama tíma og Hafrannsóknastofnun er ætlað lítið fjármagn er Þróunarsjóður sjávarútvegsins að taka ákvarðanir um stórútgjöld vegna úreldingar fiskiskipa. Hef ég af því veður að á meðal þeirra skipa sem sótt hafa um úreldingarstyrk og verið ákveðið að veita styrk til úreldingar séu stór, nýleg og vel búin skip, togarar og línuskip, þar sem útgerðaraðilar sjá sér ekki fært að halda áfram rekstri. Finnst mér að með þessu háttalagi séu Íslendingar búnir að gefast upp, ekki einstakir útgerðaraðilar heldur stjórnvöld. Stefnuleysi, svartsýni, samdráttur og uppgjöf í sjávarútvegi bitnar fyrst og síðast á hinum dreifðu byggðum og teygir vissulega anga sína um allt þjóðfélagið.
    Þróun og rannsóknir vegna atvinnumála landsbyggðarinnar eiga að vera í hendi Byggðastofnunar. Þá er ég vissulega að tala um fjármagnshliðina. Sveitarfélögin, atvinnurekendur og sérfræðingar á hverju sviði vinna verkin. Þróun á sviði iðnaðar hefur verið dapurleg. Störfum hefur fækkað stórlega. Ungt fólk sem er að koma úr löngu og dýru námi fær ekki tækifæri til að nýta menntun sína í starfi. Unga fólkinu sem kemur út úr skólanum með miklar skuldir vegna námslána gefst ekki kostur á atvinnu sem stendur undir afborgunum námslána og húsnæðislána, sem óhjákvæmilegt er að taka á sig. Þegar svona er komið er lítið svigrúm til að stofna eigin atvinnurekstur. Ekkert áhættufjármagn er fáanlegt í reksturinn, ekki nóg með það, lán eru sjaldnast fáanleg nema í bönkum, jafnvel rótgróin fyrirtæki eru í vandræðum með bankalán og háa vexti þeirra. Engin lán eru fáanleg nema gegn veðum og veðin skulu vera steinsteypa. Þetta á líka við um Byggðastofnun.
    Hér á landi lánar enginn út á áætlanir, þekkingu eða reynslu. Eingöngu steinsteypan gildir. Má ekki sveigja af þessari stefnu? Af hverju tapar Byggðastofnun á útlánum sínum? Má ekki breyta til?
    Miklar breytingar hafa orðið í málefnum íslensks landbúnaðar á seinustu árum. Lánveitingar Byggðastofnunar til þess málaflokks hafa ekki verið miklar. Ekki er hægt að segja að bjart sé fram undan hjá bændum. Samkvæmt tölum sem Hagþjónusta landbúnaðarins á Hvanneyri vann upp úr búreikningum undanfarinna ára kemur fram að eignir, tekjur og launagreiðslugeta í hefðbundnum landbúnaði, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, hefur minnkað ár frá ári og sér ekki fyrir enda þeirrar þróunar. Er hér um stórkostlegt byggðamál að ræða.
    Virðulegur forseti. Það þarf að efla Byggðastofnun, breyta verulega áherslum, þannig ræktum við blómlega byggð.