Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 16:17:42 (1460)


[16:17]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegur forseti. Einn af stærstu þáttunum í byggðamálum er skipulag samfélagsins úti á landi og skipulag sveitarstjórnarstigsins sem fer með veigamikinn þátt í opinberri þjónustu og sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórnir og sveitarsjóðir hafa í auknum mæli komið inn í átök í atvinnumálum. Það á ekki síst við nú síðustu fjögur árin eða þrjú árin í þeim erfiðleikum sem verið hafa víða.
    Á vegum félmrn. var gert átak í sameiningu sveitarfélaga og var innt af höndum mikil vinna í því efni. Í þeirri vinnu tóku þátt fulltrúar þingflokkanna og fulltrúi frá Byggðastofnun, sem vann í þessum málum frá upphafi. Það var ákveðið að það yrði efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga og sameining sveitarfélaga hefur það auðvitað að markmiði að skapa sterkari einingar til að fást við þau mál sem fyrir hendi eru, bæði í þjónustu og atvinnuuppbyggingu.
    Það var allsherjaratkvæðagreiðsla um þessi mál 20. okt. á sl. hausti og eigi alllöngu áður en hún var þá gaf hæstv. ríkisstjórn yfirlýsingu um nokkur atriði sem áttu að hennar dómi að greiða fyrir þessum málum og örva vilja fólks til þess að sameinast og greiða fyrir framhaldinu. Þar var m.a. tekið fram að Byggðastofnun mundi koma inn í atvinnuuppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum. Það yrði gert átak í samgöngumálum og því var vísað til vegáætlunar í vetur að fjalla um slíkt átak. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga jafnaði skuldir sveitarfélaga, svo að ég nefni þrjú atriði sem voru veigamikil í þessari yfirlýsingu. En eitt þeirra snertir Byggðastofnun sérstaklega. Það varð að vísu ekki sá árangur af þessu sameiningarátaki sem þáv. félmrh. og með stuðningi ríkisstjórnarinnar, vonaðist eftir. Eigi að síður voru nokkuð mörg sveitarfélög sameinuð í kjölfar þessara kosninga. En það er nú svo að síðan hafa fyrirspurnirnar dunið á okkur, m.a. fjárlaganefndarmönnum, hvernig ætlar ríkisvaldið að standa við þessa yfirlýsingu frá því í fyrrahaust? Ég vil, þó að ég eigi fyrirspurn um þetta inni hjá forsrn. sem það hefur ekki svarað enn þá, spyrja hæstv. forsrh. hvort hann getur svarað þessu: Með hverjum hætti Byggðastofnun á að taka á þessu máli, uppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum? Því þó að árangurinn hafi vissulega ekki verið eins mikill og menn áttu von á þá eru þó nokkuð mörg sveitarfélög og í öllum landshlutum sem hafa sameinast og kalla nú eftir efndum á þessu loforði, að Byggðastofnun geri sérstakt átak.

    Það er að sönnu hækkað framlag til Byggðastofnunar á fjárlögum úr 185 millj. í 210 millj., ef ég man rétt, um 25 millj. En það framlag er sérstaklega merkt til þess að vinna að þeirri till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun sem var samþykkt á sl. vori. Þannig að ég fæ ekki séð að þessir peningar hrökkvi langt til að taka á í atvinnumálum í sameinuðum sveitarfélögum.
    Það er nú svo að auðvitað eru fleiri stofnanir og sjóðir heldur en Byggðastofnun sem koma þarna að verki og það er alveg ljóst að miðað getu stofnunarinnar núna þá getur hún ekkert gert í þessu máli ef ekki verður ráðist í neinar aðgerðir til viðbótar henni til stuðnings. Það er einfaldlega rangt og röng aðgerð að vekja þessar væntingar og það er röng aðferð í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. En hæstv. ríkisstjórn hefur teflt á svo tæpt vað í þeim efnum að það er alveg undarlegt og þetta er eitt dæmið um það að það stendur ekki sem sagt er, það stendur ekki gagnvart sveitarfélögunum það sem lofað er og það verður til þess að auka tortryggni milli þessara aðila, ríkisvaldsins og sveitarstjórnarstigsins, og koma í veg fyrir framfarir og breytingar og að sveitarstjórnarstigið sé styrkt til þess að taka við verkefnum. Sveitarstjórnarmennirnir fara eðlilega í baklás, fyllast tortryggni yfir sviknum loforðum, loforðum sem hefur verið gengið á svig við. Það þarf ekki annað en nefna Atvinnuleysistryggingasjóð, Innheimtustofnun sveitarfélaga og svo þetta loforð um sérstakt átak Byggðastofnunar í því efni. Auðvitað er alls óvíst um loforð um að taka sérstaklega á í samgöngumálum í sameinuðum sveitarfélögum vegna þess að við okkur blasir ekkert annað nú í þeim efnum en að átaksverkefnum er hætt og gefið undir fótinn með það að gjörbreyta skiptingu fjár úr Vegasjóði og skipta fé eftir höfðatölu sem er algjör kúvending frá því pólitíska samkomulagi sem hefur ríkt um árabil um að vegafé sé skipt eftir arðsemi, kostnaði og ástandi vega.
    Það samkomulag er í vegalögum og ekki hefur verið kynnt neitt frv. til breytinga á þeim. Þetta lítur því allt saman heldur illa út þegar menn tala um mál Byggðastofnunar og framkvæmd þeirrar tillögu sem var samþykkt sl. vor til stefnumótandi byggðaáætlunar. Sú tillaga er góðra gjalda verð og tókst um hana bærileg samstaða í þinginu en framkvæmdin lofar ekki góðu það sem af er.
    Þau vinnubrögð lofa heldur ekki góðu sem verið hafa um flutning ríkisstofnana út á land sem er einn þáttur í byggðamálum og er eðlilegt að minnst sé á það þegar málefni Byggðastofnunar eru rædd. Í fyrirspurnatíma nýverið kom fram að ekki er verið að gera nokkurn skapaðan hlut í flutningi ríkisstofnana sem voru þó lagðar til af nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði og vann sitt verk og skilaði skýrslu þar um.
    Allur flutningur á ríkisstofnunum út á land virðist vera háður hugdettum einstakra ráðherra hverju sinni. Ég hef ekki á móti því að embætti veiðistjóra sé staðsett á Akureyri en auðvitað verða hæstv. ráðherra eins og hæstv. umhvrh. að vinna eðlilega að því. Þessi mál koma mjög sterklega inn í umræður um byggðamál og er eðlilegt að minnt sé á þetta hér.
    Eitt af því sem tilheyrði þessu átaki í sveitarstjórnarmálunum var að úti á landsbyggðinni yrðu stofnuð reynslusveitarfélög og reyndar meira en úti á landsbyggðinni því öll stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru valin út til þessara hluta.
    Ég veit ekki til að viðræðum miði nokkuð um reynslusveitarfélögin sem er þó leið til að færa völd og áhrif út á landsbyggðina og stjórn á ákveðnum verkefnum.
    Þegar rætt er um byggðamálin á breiðum grundvelli blasir við að lítið er að gerast í þeim efnum enda sannast sagna að hæstv. ríkisstjórn er hætt störfum að þessu leyti. Hún hætti í rauninni störfum á miðju sumri og hæstv. forsrh. ákvað þá að efna til kosninga. Síðan var af einhverjum ástæðum hætt við að efna til kosninganna. Síðan hefur hæstv. ríkisstjórn verið svo gott sem óstarfhæf og eins og kemur berlega í ljós þessa dagana og andrúmsloftið í þingsölum í dag bendir ekki til þess að hv. stjórnarliðar og hæstv. ráðherrar hafi sérstaklega hugann við byggðamál. Ríkisstjórnin er búin og ekki er að búast við miklum afrekum í þessu efni af hennar hendi.
    Ég vildi spyrja hvernig Byggðastofnun á að standa að öflugri uppbyggingu í sameinuðum sveitarfélögum svo við hæstv. forsrh. getum sparað okkur langar umræður í fyrirspurnatíma.