Breytingar á ríkisstjórninni

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:47:01 (1476)

[13:47]

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr er um margt óvenjuleg. Hún er m.a. óvenjuleg vegna þess að fjórir hæstv. ráðherrar hafa hætt þar störfum. Stjórnarandstaðan flutti vantraust á núv. hæstv. ríkisstjórn fyrr á þessu hausti og þessu vantrausti var vísað frá þannig að það reyndi aldrei á það hér á Alþingi hvort núv. ríkisstjórn hefur meiri hluta á bak við sig.
    Það hefur ekki verið venja fyrir því þegar breytingar verða á ríkisstjórn að forsrh. geri þinginu grein fyrir slíkum breytingum. Mér finnst það nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru að nýr ráðherra hefur tekið við störfum og annar gengið út úr ríkisstjórninni. Þess vegna óska ég eftir því að starfandi forsrh. staðfesti hér eða skýri þinginu frá hinu gagnstæða hvort núverandi ríkisstjórn hefur öruggan meiri hluta hér á Alþingi. Það er mikið fram undan í störfum þingsins, fjárlög og frumvörp tengd fjárlögum, þannig að það er mikilvægt að þingheimur viti hvort ríkisstjórnin hefur meiri hluta á bak við sig. Mér finnst ástæða til að spyrja þessara spurninga, m.a. í ljósi reynslunnar. Ráðherra hefur gengið út úr þessari ríkisstjórn og lýst því yfir að hann styðji hana ekki lengur. Það hefur komið fram hjá þeim ráðherra sem gekk út úr ríkisstjórninni að honum finnist ýmislegt athugavert í störfum fyrrum samstarfsmanna sinna og það hefur jafnframt komið fram hjá einum þingmanni, hv. þm. Eggert Haukdal, að hann hafi ekki traust á ákveðnum ráðherrum í ríkisstjórninni og undirbúi þess vegna sérframboð. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. starfandi forsrh. staðfesti það hvort ríkisstjórnin hefur meiri hluta hér á Alþingi.