Breytingar á ríkisstjórninni

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:50:51 (1479)


[13:50]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. starfandi forsrh. orðaði það þannig að ríkisstjórnin nyti enn meiri hluta hér á Alþingi og það væri venjan að það kæmi í ljós í atkvæðagreiðslum. Það er rétt, ég er að vísu ekki sammála því að ríkisstjórnin fylgi alveg nákvæmlega sömu stefnu og hún fylgdi í upphafi, en við skulum láta það liggja á milli hluta.
    Ég hef nú samt ekki neina sannfæringu fyrir því að ríkisstjórnin hafi öruggan meiri hluta hér á Alþingi þrátt fyrir orð hæstv. starfandi forsrh. En ég skil orð hans þannig að það verði að koma betur í ljós þegar aðrir ráðherrar eru komnir heim og ég vildi t.d. gjarnan vita hvað sá hæstv. ráðherra sem fer með öll ráðuneyti Alþfl. hefur um þetta mál að segja. Mér finnst að það hafi mjög margt komið fram í orðum sérstaklega hv. þingmanna Alþfl. sem bendi til þess að það sé alls ekkert víst að ríkisstjórnin hafi t.d. stuðning við fjárlagafrv. Þess vegna væri fróðlegt að heyra í hæstv. umhvrh. um það mál hvort hann telji að ríkisstjórnin muni njóta þessa meiri hluta lengi eða hvort það sé líklegt að hann muni e.t.v. riðlast við fjárlagaafgreiðsluna.