Breytingar á ríkisstjórninni

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:54:53 (1484)


[13:54]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. starfandi forsrh. lét svo um mælt að oft hefði verið vísað frá tillögu eins og gert var með vantrauststillöguna fyrir stuttu síðan. Ég minnist ekki annars en vantrauststillögur, sem fram hafa komið á meðan ég hef setið á þingi, hafi gengið til atkvæða og þar hafi reynt á það hvort þingmenn vildu hafna vantrausti og þar með lýsa beint yfir trausti á ráðherra.
    En vantraust á einstaka ráðherra hefur ekki aðeins komið fram á undanförnum vikum og mánuðum frá stjórnarandstöðunni. Það kom rækilega fram í umræðum um vantrauststillöguna að hæstv. forsrh. hafði lýst yfir mjög miklum efasemdum um hæfni hæstv. utanrrh. til að gegna sínu starfi og sagði reyndar að hann væri ekki færi um að gera samninga við aðrar þjóðir. Það hlýtur að vera ofarlega í huga okkar nú þegar nágrannaþjóðir okkar eru að greiða atkvæði um inngöngu í Evrópusambandið og samþykkja þá mun reyna meira á það á næstunni að samið verði við Evrópusambandið. Það hlýtur því að verða meira brennandi spursmál: Nýtur hæstv. utanrrh. trausts á Alþingi til þess að ganga til þeirra samninga fyrir hönd íslensku þjóðarinnar?