Breytingar á ríkisstjórninni

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:57:35 (1486)


[13:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið vakin athygli á býsna sérkennilegri stöðu sem ríkir á hinu háa Alþingi. Ef maður hugsar til þess hvernig okkar stjórnarfyrirkomulag er þá ætti það auðvitað að vera eðlileg venja að forsrh. geri þinginu grein fyrir breytingum sem verða á ríkisstjórn en slíkt hefur ekki tíðkast hér. Hins vegar verð ég að segja að það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að umræða fór fram um vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og m.a. hefur það gerst að sá ráðherra sem síðast gekk út úr ríkisstjórninni bar nokkuð þungar ásakanir á aðra ráðherra og benti á það að fyrst hann yrði að víkja þá væri greinilega alveg eins ástæða til þess að ýmsir aðrir stæðu upp úr stólunum. Það er því full ástæða til þess að spyrja hvort þeir þingmenn sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum eða tilheyrðu, bera fullt traust til ríkisstjórnarinnar.
    Það er líka afar sérkennilegt að í umræðum hér fyrir nokkrum vikum skoraði hæstv. forsrh. á stjórnarandstöðuna að koma með vantraust á ríkisstjórnina. Nú stendur hæstv. umhvrh. upp og skorar aftur á stjórnarandstöðuna að koma með vantraust og maður spyr sig auðvitað: Hvað býr hér að baki?