Foreldrafræðsla

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 14:22:26 (1489)


[14:22]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um foreldrafræðslu en flm. ásamt mér eru Anna Ólafsdóttir Björnsson, Kristín Einarsdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Guðrún J. Halldórsdóttir.
    Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að markviss foreldrafræðsla verði stóraukin í skólum landsins, í fjölmiðlum og í samvinnu við heilbrigðisráðherra á heilsugæslustöðvum. Skipaður verði vinnuhópur sem komi með tillögur um æskilegt inntak, form og umfang foreldrafræðslu á fyrrgreindum stöðum.``
    Í grg. segir, með leyfi forseta:
    ,,Nær samhljóða tillaga var flutt á 113., 116. og 117. löggjafarþingi.
    Skipan uppeldismála samkvæmt gildandi lögum er sú að foreldrar eru ábyrgir fyrir uppeldi barna sinna. Ríkinu ber þó að grípa inn í og aðstoða foreldra á tilteknum sviðum, t.d. varðandi grunnmenntun, sbr. ákvæði um skólaskyldu, og ef foreldrar eru ófærir um að sinna ábyrgð sinni eða skyldum, sbr. t.d. ákvæði laga um barnavernd. Í lýðræðisríkjum er þessi skipan mála yfirleitt talin sjálfsögð, enda litið á fjölskylduna sem einn af hornsteinum þjóðfélagsins. Þetta fyrirkomulag byggir á því að foreldrar hafi sjálfir aðstöðu til að sinna þessari ábyrgð eða hafi möguleika á uppeldisaðstoð sem þeir geta haft áhrif á og samræmist þeirra lífsviðhorfum.
    Þessi skipan uppeldismála er nú miklum erfiðleikum bundin. Mikil atvinnuþátttaka beggja foreldra og sá langi vinnudagur sem hér tíðkast dregur úr möguleikum foreldra til að hafa áhrif á uppeldi barna sinna. Til að koma í veg fyrir uppeldislega vanrækslu heillar kynslóðar íslenskrar æsku er ekki aðeins nauðsynlegt að stórefla samfélagslega þjónustu á sviði uppeldis- og skólamála heldur þarf einnig að styrkja foreldrana ef núverandi skipan uppeldis á ekki að vera merkingarlaus. Löggjafinn hefur eðlilega gert ráð fyrir að foreldrar hafi áhrif á starf skóla og leikskóla, en því miður virðist samstarf foreldra og uppeldisstofnana eiga erfitt uppdráttar. Hér er lagt til að foreldrar verði styrktir til að takast á við hlutverk sitt, ekki síst barnanna vegna. Það skiptir afar miklu máli að börn fái góða aðhlynningu og örvun í uppeldinu til að þau verði heilsteyptir einstaklingar og þar gegna foreldrar, eða aðrir sem standa barninu næst tilfinningalega, lykilhlutverki. Foreldraábyrgð er því mikilvæg og í lýðræðisþjóðfélagi, sem hefur lögfest jafnrétti kynjanna, þurfa báðir foreldrar að geta sinnt henni sem best. Til að svo geti orðið þarf að styrkja foreldra í hlutverki sínu og um leið þau grundvallarmannréttindi foreldra og barna sem hér eru í húfi.
    Sú leið, sem hér er mælt með, er að taka upp almenna foreldrafræðslu. Markmið hennar væri að gefa foreldrum kost á að fræðast um ýmis atriði er snerta foreldrahlutverkið og mikilvægi þess. Auk framangreindra ástæðna fyrir fræðslu af þessu tagi má benda á eftirfarandi rök:
    1. Engin fræðsla um foreldrahlutverkið og barnauppeldi er í boði fyrir alla í skólakerfinu eða annars staðar í þjóðfélaginu.
    2. Vísindaleg þekking á þroska og uppeldi barna hefur stóraukist á liðnum áratugum án þess að skila sér til foreldra almennt. Ætla má að það dragi úr öryggi foreldra í samskiptum við sérmenntað fólk á uppeldisstofnunum.
    3. Þó að foreldrar hafi hingað til getað byggt á reynslu fyrri kynslóða eru aðstæður nútímaforeldra og barna, a.m.k. í þéttbýli, mjög breyttar frá því sem foreldrarnir hafa sjálfir þekkt í eigin uppeldi.
    4. Þegar boðið er upp á foreldrafræðslu eða námskeið um samskipti foreldra og barna, bæði hér og í nágrannalöndunum, hefur eftirspurn af hálfu foreldra verið mikil. Því miður hefur þetta mest verið í formi einkanámskeiða sem ekki ná til allra.
    Hér er mælst til að vinnuhópur komi með tillögur um foreldrafræðslu í skólum landsins, á heilsugæslustöðvum og í fjölmiðlum. Lagt er til að í vinnuhópnum verði auk sérfræðinga á sviði uppeldismála og foreldrafræðslu fulltrúar frá foreldrum eða samtökum þeirra, fjölmiðlafræðingur varðandi foreldrafræðslu í fjölmiðlum og fulltrúi frá heilbrigðisráðuneyti varðandi aukna fræðslu og ráðgjöf á heilsugæslustöðvum. Markvissar rannsóknir á áhrifum foreldrafræðslu eru til sem geta gefið vísbendingar um æskilegar aðferðir. Algengara er þó að gildi fræðslunnar er ekki rannsakað þar sem trú aðstandenda á gildi hennar hefur dugað. Æskilegt væri að gera ráð fyrir athugun á notkun og gildi þeirrar foreldrafræðslu sem lögð verður til og haga umfangi hennar í samræmi við það.
    Varðandi skólakerfið ber að fagna skýrslu starfshóps um jafna stöðu kynja í skólum sem menntamálaráðuneytið gaf út í desember 1990. Þar er skýrt kveðið á um að íslenska skólakerfið eigi að undirbúa bæði stúlkur og drengi undir fjölskyldulíf, m.a. með námi í fjölskyldufræðum í grunn- og framhaldsskólum. Í því felst m.a. umfjöllun um heimilisrekstur, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna sem allt getur tengst foreldrahlutverkinu og jafnri foreldraábyrgð. Ákvæði af þessu tagi er einnig að finna í aðalnámskrá grunnskóla og í lögum um grunnskóla, nr. 49/1991 (48. gr.). Mikilvægt er að settar verði fram nákvæmar tillögur um útfærslu foreldrafræðslu, ekki síst fyrir framhaldsskólann sem nú er öllum opinn. Foreldrafræðslu þyrfti einnig að efla í Háskóla Íslands og sem víðast símenntun og endurmenntun fólks.
    Heilsugæslustöðvar og meðgöngudeildir sjúkrahúsa hafa boðið upp á mismikla fræðslu fyrir verðandi foreldra og foreldra ungbarna. Mælt er með eflingu þess starfs og að bætt verði við uppeldislegri ráðgjöf fyrir þá foreldra og börn að 16 ára aldri sem hennar óska.
    Mikilvægt er að nýta sem flesta fjölmiðla við þá fræðslu sem hér er mælt með. Fræðsluþættir í útvarpi og sjónvarpi með þátttöku sérfræðinga og foreldra eru hugsanleg dæmi. Möguleg viðfangsefni eru þroskaeinkenni ákveðinna aldurshópa barna, samskipti foreldra og uppeldisstofnana, samhæfing fjölskyldulífs og starfs, málfarslegt uppeldi á heimilum, trúaruppeldi, afmörkuð uppeldisvandamál eða æskilegar uppeldisaðferðir. Slíkir þættir gætu síðan verið til útláns á myndböndum. Einnig mætti nota dagblöð og tímarit í þessum tilgangi.
    Það er von flutningsmanna að þessi tillaga styrki foreldra, jafnt mæður sem feður, í sínu ábyrgðarmikla hlutverki til góðs fyrir uppvaxandi kynslóðir Íslendinga því að lengi býr að fyrstu gerð.``
    Þannig hljóðar greinargerðin, virðulegi forseti.
    Þess ber að geta að tillagan var send til umsagnar á sl. ári og fékk mjög góðar undirtektir en þó náðist ekki að afgreiða hana. Sem betur fer hefur ýmislegt verið gert í málum sem varða foreldrafræðslu, ekki síst á heilsugæslustöðvum, og það kom m.a. fram í nokkuð ítarlegum umsögnum. Ég minnist þess t.d. að á Akureyri hefur verið heilmikið átak í foreldrafræðslu en betur má ef duga skal. Í því samhengi vil ég minna á að í umfjöllun menntmn. um fjárlagafrv. fyrir u.þ.b. tveimur vikum kom fram að sífellt meira fjármagn fer til sérkennslu af ýmsu tagi og talið er að á milli 15 og 20% af því fjármagni sem fer til grunnskólans fari til sérkennslu. Þó er ljóst að það dugir hvergi nærri. Hluti af sérkennslunni fer til fatlaðra barna og barna sem eiga við ýmiss konar erfiðleika að stríða en það er staðreynd að sífellt fleiri börn þurfa á aðstoð í skólakerfinu að halda vegna vanrækslu eða vegna þess að þau hafa ekki fengið það uppeldi og þann stuðning sem þau þurfa til þess að geta staðið sig í skólakerfinu. Þar á ofan bætast ýmsar kannanir sem hafa verið gerðar á högum barna og unglinga og er skemmst að minnast ráðstefnu sem haldin var af læknum, ég hygg að það hafi verið fyrir tveimur árum, þar sem því var blákalt haldið fram að uppeldi og aðstæður barna hér á landi þyrftu verulegra umbóta við. Þar var bæði vitnað til slysa á börnum, ýmiss konar vanrækslu sem læknar og hjúkrunarfólk verður vart við, hvernig börn eru hreinlega í lausagöngu hér á landi og er gert að taka ábyrgð á sjálfum sér og systkinum sínum frá unga aldri. Þetta eru auðvitað hlutir sem ganga ekki lengur í þjóðfélagi eins og við þekkjum á þéttbýlissvæðum þar sem hættur eru margar. Sú staðreynd að Ísland skuli vera í hópi þeirra landa þar sem er að finna flest slys á börnum, hvort sem það eru slys í heimahúsum eða slys í umferðinni, er auðvitað ömurleg staðreynd í svona fámennu þjóðfélagi og hlutur sem við þurfum virkilega að taka á.
    Þá höfum við því miður orðið vör við vaxandi ofbeldi meðal barna og unglinga og þar þarf auðvitað að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Ég held að öllum þeim sem kynnast skólamálum og ýmsum vandamálum barna í gegnum okkar félagslega kerfi, félagsmálastofnanir, skólana og þær stofnanir sem sérstaklega eiga að sinna börnum og unglingum, blandist ekki hugur um það að hér er því miður um vaxandi vandamál að ræða. Ein leiðin til þess að taka á því er auðvitað að reyna að styðja foreldra. Að skólakerfið og heilbrigðiskerfið styðji foreldra miklu betur en hefur verið gert.

    Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar J. Halldórsdóttur í síðasta máli að ein besta leiðin til þess að bæta stöðu fjölskyldunnar er auðvitað styttri vinnutími og bættar aðstæður. En auðvitað er líka um það að ræða að þekking á uppeldi barna er hætt að berast með sama hætti og áður frá kynslóð til kynslóðar. Þar ræður sú mikla vinna sem konur stunda og það verður sífellt meira vart við það að foreldrar, sérstaklega ungir foreldrar, vita hreinlega ekki hvernig þeir eiga að haga sér í uppeldi barna. Hér eru á ferð ýmsar gamlar hugmyndir sem eiga rætur að rekja til bændasamfélagsins, eins og þær að það sé eðlilegt að 8--9 ára gömul börn séu að vinna og geti tekið ábyrgð á litlum systkinum sínum sem gengur ekki í bæjum þar sem umferð er mikil og margvíslegar hættur á ferð.
    Það er því margt að athuga í þessu samhengi, virðulegi forseti, og hér er einmitt um að ræða tillögu sem horfir til framtíðar. Hér er um að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir sem bæði munu skila sér í betra samfélagi jafnframt því að spara þjóðfélaginu mikil vandræði og mikla peninga.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.