Foreldrafræðsla

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 14:34:40 (1490)


[14:34]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð um mikilvægi þessarar tillögu. Það er hverjum þeim ljóst sem að fræðslumálum kemur og raunar sjálfsagt íbúum Íslands öllum hversu mikilvægt það er að þekkingin berist frá kynslóð til kynslóðar, þekking frá foreldrum til barna og frá afa og ömmu til barna og barnabarna. Þannig hefur þetta ætíð verið en því miður verða ýmis rof í því samfélagi sem við lifum í í dag vegna þeirra geysilegu þjóðfélagsbreytinga og atvinnulífsbreytinga sem orðið hafa.
    Ég tel sérstaklega mikilvægt að samstarf verði aukið milli leikskóla og foreldra og skóla í hverju skólahverfi þar sem raunveruleg fræðsla og umræðufundir um hvernig efla beri hina ýmsu þroskaþætti barna gætu farið fram. Hvert einasta hverfi borgarinnar og landsins alls raunar situr inni með þekkingu í þessum stofnunum sem svo auðvelt ætti að vera að veita foreldrunum. Ég legg áherslu á að efnt yrði til slíks samstarfs bæði milli leikskóla og skóla og foreldranna. Það er ekki nóg að vinna frá morgni til kvölds og gefa börnunum gott húsnæði, jafnvel ekki þó þau fái líka sæmilega gott að borða. Það sem er mikilvægast fyrir þau, og það hefur margsannast í gegnum sögu mannkynsins, og það sem skiptir höfuðmáli er að þau hafi öryggi og ástúð og raunverulegar fyrirmyndir að fara eftir. Það er aðferðin til þess að kenna frá kyni til kyns, þ.e. að sýna hvernig á að bregðast við. Þetta á ekki bara við um hvernig á að kenna börnum að lesa og ýmis slík fræði heldur á það ekki síst við um umgengni, viðhorf til skyldna sinna í samfélaginu og siðfræði almennt. Við kennum ekki börnum siðfræði nema sýna hana. Það þýðir ekki að segja barni: Þú skalt ekki reykja, og púa framan í það. Þetta er eins með alla aðra hluti. Til þess að það sé hægt verða foreldrar að gera sér grein fyrir hvaða leiðir þeim eru færar í uppeldishlutverki sínu og það gerist best með því að þeir geti ráðfært sig við fólk sem hefur lært eitthvað um þetta og líka reynt fólk til að ráðfæra sig við. Því það er ekki nóg að senda einhverja sem hafa gert einhverjar kannanir einhvers staðar til segja fólki frá því heldur þarf reynsluþekking að koma til líka. Blanda af reynsluþekkingu sem kynslóðirnar hafa og vísindalegri þekkingu er það besta sem hægt er að miðla foreldrum til þess að þau geti síðan staðið í sínu hlutverki. Þetta gæti einfaldlega farið fram í bæði leikskólum og svo í skólum á æðri skólastigum.
    Ég vildi undirstrika þetta samstarf sem þarf að vera annars vegar. Hins vegar vildi ég líka undirstrika að við kennum börnum ekki neitt sem við sýnum þeim ekki sjálf og til þess þurfa foreldrar, eins og ég sagði í síðustu umræðu, að hafa bæði tíma og peninga, þ.e. peninga til þess að lifa sæmilega góðu lífi. Umhverfið skiptir sáralitlu máli fyrir börnin. Það sem skiptir máli fyrir þau er að þau hafi öryggi og viti eftir hvaða línum í samfélaginu þau eigi að ganga. Misvísandi línur eða misvísandi reglur sem gefnar eru gilda ekki og ég held að þetta sé einn aðalvandinn hjá okkur í dag. Við erum alltaf að læra um eitthvað en lærum ekki hlutinn. Við erum að kenna um eitthvað en kennum ekki hlutinn.