Varðveisla arfs húsmæðraskóla

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 14:40:17 (1491)


[14:40]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um varðveislu arfs og eigna húsmæðraskólanna, en flm. ásamt mér eru Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að setja fram tillögur um hvernig best megi varðveita arf og eignir gömlu húsmæðraskólanna í landinu. Verði sérstaklega hugað að stofnun eða eflingu heimilisiðnaðarsafna eða heimilisiðnaðardeilda í byggðasöfnum landsins. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar Kvenfélagasambands Íslands, landshlutasamtaka kvenfélaganna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, safnamanna og menntamálaráðuneytis.``
    Greinargerðin er svohljóðandi:
    ,,Um áratuga skeið störfuðu húsmæðraskólar í öllum landshlutum. Þúsundir kvenna sóttu sér menntun í þessa skóla sem urðu til undir handarjaðri kvenfélagasambanda landsins. Þjóðfélagsbreytingar síðustu áratuga hafa kippt grundvellinum undan sérskólum af þessu tagi þótt engan veginn verði sagt að hið almenna skólakerfi hafi tekið við og búi pilta og stúlkur nægilega vel undir það verk að stofna og reka heimili. Húsmæðraskólarnir voru arftakar gömlu kvennaskólanna sem stofnaðir voru á 8. áratug 19. aldar, en þeir þróuðust í tvær áttir. Kvennaskólinn í Reykjavík (stofnaður 1874) varð að almennum skóla fyrir stúlkur með sterkri hannyrðahefð (nú almennur menntaskóli), en skólarnir úti á landi urðu að hreinum húsmæðraskólum. Hér er um 120 ára skólahefð að ræða með mikla og merka sögu að baki.
    Mikil hús voru byggð yfir kvenna- og húsmæðraskólana og eru flest þeirra nú notuð til kennslu af einhverju tagi. Innan veggja húsmæðraskólanna gömlu er að finna listaverk, hannyrðir, borðbúnað, verkfæri og gjafir af ýmsu tagi, svo og ýmislegt það sem tengist sögu skólanna. Sums staðar hefur eitt herbergi verið tekið undir lausamuni, en það er auðvitað engin lausn þegar svo merkur menningararfur á í hlut. Engin stefna hefur verið mörkuð um það hvað beri að gera við arf húsmæðraskólanna. Kvenfélagasamböndin í hverjum landshluta annast þessar eignir en hafa sums staðar miklar áhyggjur af því hvað um þær verði.
    Um tvennt er að velja. Annaðhvort verður að finna mununum stað innan skólanna og sjá til þess að þeir verði varðveittir þar eða að koma þeim á söfn.
    Í Kvennaskólanum á Blönduósi hafa kvenfélagskonur komið á fót heimilisiðnaðarsafni sem m.a. byggist á þeim munum sem Halldóra Bjarnadóttir skólastjóri safnaði á sínum langa lífsferli. Hugsanlega er það vilji kvenfélaganna í landinu að efla safnið á Blönduósi, gefa muni þangað og gera það að landssafni eða þá að styrkja eigin byggðasöfn með því að koma upp eða efla heimilisiðnaðardeildir í þeim. Víða á heimilum eru til merkilegar hannyrðir og listiðnaður kvenna sem þyrfti að safna og hafa til sýnis sem dæmi um vinnu og tómstundir kvenna í hundruð ára. Öflugt heimilisiðnaðar- og hannyrðasafn mundi eflaust leiða til þess að fólk væri viljugra að gefa merka muni úr fórum ættingja sinna.
    Það er brýnt að finna lausn á því máli sem hér er reifað og sjá til þess að sú kvennamenning sem húsmæðraskólarnir gömlu eru fullir af glatist ekki. Það verður að gerast í samvinnu ríkisins sem fer með forsjá skólahúsanna, sveitarfélaganna sem í hlut eiga og ekki síst kvenfélaganna sem stóðu vörð um skólana og hafa gætt þeirra eigna sem eftir eru.``
    Þannig lýkur greinargerðinni, virðulegi forseti, en því er við að bæta að á 116. löggjafarþingi lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um það hvernig þessum málum væri háttað. Í svari hans kom í ljós að af tíu húsmæðraskólum sem starfandi voru fer enn þá fram kennsla í heimilisfræðum í tveimur skólum, þ.e. í hússtjórnarskólanum í Reykjavík og í hússtjórnarskólanum á Hallormsstað. Hússtjórnarskólinn í Reykjavík hefur farið þá leið að bjóða almenningi upp á námskeið meðan hússtjórnarskólinn á Hallormsstað hefur tekið að sér hússtjórnarbraut og kennslu fyrir bæði grunnskólana á Héraði og Menntaskólann á Egilsstöðum. En hinir skólarnir eru nýttir með ýmsu móti.
    Skólinn á Varmalandi var til skamms tíma nýttur í þágu grunnskólans á staðnum, en hefur nú verið afhentur Kennaraháskólanum og á að verða eins konar námskeiðssetur þar. Skólinn á Staðarfelli er rekinn sem meðferðarstöð fyrir SÁÁ. Um báða þessa skóla sem ég hef nefnt gildir það að þeir munir sem eru mitt stóra áhyggjuefni eru geymdir í einstökum stofum í skólahúsinu undir eftirliti kvenfélaganna í héraðinu.
    Hús skólans sem kvenfélagið Ósk á Ísafirði átti og rak er nýtt af Framhaldsskóla Vestfjarða og grunnskólanum og tónlistarskólanum og kvenfélagið hefur aðgang að ákveðnum stofum í húsinu til fundahalda og þar eru gripirnir geymdir. Í gamla skólanum á Blönduósi starfar Fræðsluskrifstofa Norðurlands vestra og þar eru gripir og búnaður í eigu skólans varðveittur í skólahúsinu undir eftirliti heimamanna en gamla fjósið og hlaðan hafa verið tekin undir heimilisiðnaðarsafnið sem nefnt var í greinargerðinni.
    Á Löngumýri í Skagafirði er þjóðkirkjan með eins konar skóla og funda- og ráðstefnusetur. Þar gildir það sama að munirnir eru enn þá geymdir í húsinu.
    Á Laugalandi í Eyjafirði er skólahúsið nýtt til kennslu á grunnskólastigi en þar hafa einnig verið námskeið í gangi, m.a. fyrir átaksverkefni í þágu kvenna.

    Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur yfirtekið hlutverk og eignir húsmæðraskólans á Akureyri.
    Framhaldsskólinn á Laugum er með húsið þar. Þarna gildir það sama að mununum, listaverkunum, silfrinu, borðbúnaðnum, dúkunum, vefnaðinum og vefstólunum og öllu þessu er troðið inn í einstakar stofur.
    Eini skólinn sem var á Suðurlandi, þ.e. húsmæðraskólinn á Laugarvatni, er nú nýttur af Íþróttakennaraskóla Íslands og Menntaskólinn á Laugarvatni hefur líka haft aðgang að því húsi. Kvenfélögin hafa geymt þarna sína hluti og hafa reyndar komið svolítið að rekstrinum en ég minnist þess að kvenfélögin á Suðurlandi voru afar óhress með þá ákvörðun ráðherra á sínum tíma að leggja skólann niður.
    Af þessari upptalningu má ljóst vera að þetta er vandræðaástand. Áður en Kennaraháskólanum var afhent húsið á Varmalandi var ástandið þannig að allir þessir munir voru geymdir í skólastofu þar sem var raki og einhver leki og kvenfélagskonur í Borgarfirði og Mýrarsýslu höfðu miklar áhyggjur af þessu ástandi.
    Að mínum dómi, virðulegi forseti, þá er hér um mál að ræða sem þarf að taka á. Ég held að þarna verði ekki um mikinn kostnað að ræða. Það þarf að finna lausn á þessu. Það þarf að kanna hvort það er vilji kvenfélaganna að koma þessum munum á söfn og þar með að efla heimilisiðnaðardeildir á söfnum. Því miður er það ekki svo að maður geti gengið inn á mörg söfn til þess að kynna sér t.d. handavinnuhefðir eða aðrar slíkar hefðir. Það eru mjög litlar deildir bæði í Árbæjarsafni og Þjóðminjasafninu. Að mínum dómi er þarna um að ræða mjög merkilega listmenningu og menningu hins daglega lífs sem við höfum ekki gert þau skil sem vera ber. Ég er sjálf spennt fyrir þeirri hugmynd að efla Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, gera það að einu stóru safni fyrir landið en ég veit hins vegar ekki hvort að vilji kvenfélagasambandanna stendur til þess.
    Ég hef ekki rætt þetta mál við hæstv. menntmrh. en ég þykist þó vita að nokkur vilji sé til að taka á þessu. Það hefur tekist að finna sjálfum skólahúsunum hlutverk í flestum tilvikum. Í mörgum tilvikum er um að ræða stór og myndarleg og vel byggð hús sem munu nýtast annaðhvort til frekari kennslu en þau eru mörg hver nýtt sem sumarhótel yfir ferðamannatímann, en vandamálið er þessir gripir, þessi menningararfur sem þarna er og að mínum dómi má það ekki bíða lengur að taka á þessu.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.