Þingsköp Alþingis

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:07:41 (1494)



[15:07]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum. Mál þetta er 42. mál þingsins og eru meðflm. þess sem hér stendur hv. þm. Björn Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Frv. er í tveimur greinum og er meginefni 1. gr. það að í upphafi hvers þings skuli kjósa níu þingmenn í þingskapalaganefnd. Nefndin skal fjalla um framkvæmd þingskapa og setja nánari reglur um einstök atriði. Þá ber einnig samkvæmt 1. gr. að vísa frumvörpum um þingsköp Alþingis til nefndarinnar, svo og frumvörpum og öðrum tillögum um breytingar á þeim. Þá er heimilt að vísa öðrum þingmálum til nefndarinnar að svo miklu leyti sem þau varða störf Alþingis eða alþingismanna. Samkvæmt 1. gr. er að lokum gert ráð fyrir því að þingmaður sem telur að úrskurður forseta eða fundarstjórn hans séu ekki í samræmi við þingsköp getur gert skriflega grein fyrir andmælum sínum við nefndina og er þingskapalaganefnd samkvæmt ákvæðinu skylt að taka slík erindi til umfjöllunar og afgreiðslu.
    Rétt er að taka það fram, virðulegi forseti, að samkvæmt 8. gr. þingskapa stjórnar forseti Alþingis fundum þingsins og sér samkvæmt þessari grein um að allt fari þar fram með góðri reglu. Mikilsvert er að störf þingsins séu í föstum skorðum og friður ríki um þau á þingfundunum. Til þess að svo megi verða þarf að gæta samræmis við stjórn þingfunda og þegar þingsköpin og starfsreglurnar eru túlkuð, en þessar starfsreglur hafa að sjálfsögðu verið settar á grundvelli þingskapanna sjálfra.
    Samkvæmt 10. gr. þingskapa skipuleggur forsætisnefnd þinghaldið og setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Að því er varðar fundarstjórn og þinghald er hins vegar æskilegt að sérstök þingnefnd setji og endurskoði reglur sem forsetar þingsins styðjast síðan við í störfum sínum fremur en að þeir setji reglurnar sjálfir. Álitamálum um það hvort mál teljast þingleg ellegar hvort um þinglega meðferð mála sé að ræða er eðlilegt að skjóta til þingskapalaganefndarinnar. Enn fremur er æskilegt að frumvörp um þingsköp eða breytingar á slíkum frumvörpum komi til umfjöllunar í nefndinni, svo og önnur frumvörp sem snerta starfsemi Alþingis. Þingmenn hafa rétt til þess að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta og ræða störf þingsins og framgang mála. Slíkur háttur er í raun eðlilegur og nauðsynlegur, en á stundum vekja slíkar umræður spurningar sem hæpið er að leysa úr á þingfundum en kalla á umræður utan þingfundar um starfsemi og reglur þingsins. Er í þessu frv. lagt til að slíkum málum verði vísað til þingskapalaganefndar. Má telja fullvíst að slíkur háttur muni draga úr umræðum um gæslu þingskapa og fundarstjórn forseta og skapa þar með festu um störf þingsins.
    Það er alveg ljóst að umræður um fundarstjórn forseta hafa iðulega verið um allt önnur mál og er ekki óalgengt að umræðum í þinginu, sem formlega er lokið, sé haldið áfram undir liðnum ,,um fundarstjórn`` en ákvæði um slíkar umræður er í 55. gr. þingskapanna. Slík misnotkun á starfsreglum þingsins dregur úr þeim aga sem þarf að ríkja í störfum þingsins, dregur úr virðingu þingmanna fyrir þinginu og almennings á störfum þingsins. Það er meginregla að þingmönnum ber að lúta stjórn forseta og það er beinlínis tekið fram í þingsköpunum í 59. gr. að þingmönnum sé skylt að hlíta ákvörðun forseta. Forsetum eru því falin mikil völd og ábyrgð þeirra er mikil. Þess vegna ríður á miklu að þeir fari með vald sitt af sanngirni og hófsemi. Undan þessu er heldur ekki almennt talað að kvarta.
    Hins vegar er það svo að verði þingmenn ósáttir við ákvörðun forseta eða aðfinnslur í þeirra garð eiga þeir ekki margra kosta völ til að fá leiðréttingu mála sinna nema eiga um það orðastað við forseta á þingfundum. Það er heldur óæskilegt að taka tíma þingsins í slíkt orðaskak og miklu eðlilegra að finna annan vettvang fyrir slíkar kvartanir. Þess eru dæmi að þingmenn hafi snúið sér til forsætisnefndar með sín mál, en hún er samráðsvettvangur forsetanna. Forsetum fer sem öðrum að það er erfitt að vera dómari í eigin sök, auk þess sem slík skipan mála er andstæð nútímaviðhorfum í stjórnsýslu.
    Ef frv. þetta yrði að lögum, virðulegi forseti, opnast leið fyrir þingmenn sem telja á sig hallað í fundarstjórn eða öðrum ákvörðunum forseta að koma andmælum sínum skriflega á framfæri og fá um það formlega hlutlæga umfjöllun og skriflegt svar. Slíkt á þegar best lætur að geta leitt til þess að tekið verði á ýmsum atriðum við framkvæmd þingskapa sem ekki liggja fyrir reglur um og sem ekki er veigaminnst, að leiðrétt sé ef forsetar fara út yfir valdsvið sitt í umræðum, t.d. gera athugasemdir við ræður þingmanna sem þeim alla jafna er ekki heimilt að gera nema til þess að víta þingmenn.
    Mikils er vert að forseti gæti þess vendilega að fara ekki út fyrir valdsvið sitt, enda getur það leitt til þess að málfrelsi þingmanna sé skert. Á sama hátt er brýnt að þingmenn virði reglur um störf þingsins. Aðhald í þingstörfum þarf þannig að beinast bæði að þingmönnum og forseta til þess að störf þingsins verði sem best skipulögð og árangursrík.
    Það ber að árétta að með þessari skipan, sem lögð er til í frv., er ekki verið að skerða völd forseta við fundarstjórn eða annað sem þeim er falið samkvæmt þingsköpum. Það er óumdeilt að forseti fer með fundarstjórnina og jafnframt að varaforsetar fara með það vald þegar þeir sitja í forsetastóli, sbr. 4. mgr. 8. gr. þingskapa. Hin nýja nefnd ætti hins vegar að vera hlutlaus vettvangur fyrir þingmenn til að fá umræður um fundarstjórn forseta og aðrar ákvarðanir þeirra. Má ætla að með þessari skipan verði komið á meiri aga í störfum þingsins.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir var lagt fram á 117. löggjafarþingi en er nú endurflutt óbreytt. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.