Þingsköp Alþingis

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:20:26 (1496)


[15:20]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði gaumgæfilega á athugasemdir hv. þm. Sturlu Böðvarssonar við þessu frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Ég vil undirstrika þann skilning á frv. sem kemur fram í grg. þess þar sem tekið er fram sérstaklega að sú skipan sem gert er ráð fyrir í frv. á ekki að verða til þess að skerða völd forseta við fundarstjórn eða annað sem þeim er falið samkvæmt þingsköpum. Það er þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir því að sú nefnd sem hér er lagt til að verði skipuð, þingskapalaganefnd, sé eins konar yfirforsætisnefnd þingsins eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson velti vöngum yfir í ræðu sinni áðan.
    Það er hins vegar svo að það er grundvallaratriði í stjórn þingsins að fullkomins samræmis sé gætt við stjórn þingsins. Það er einnig grundvallaratriði að ýmsar þær reglur sem snerta málfrelsi þingmanna séu virtar til hins ýtrasta. Það er grundvallaratriði að forsetar þingsins fari ekki út fyrir valdsvið sitt. Það er grundvallaratriði að forsetar þingsins taki sér ekki þá heimild að leiðrétta efnislegar skoðanir þingmanna því til þess hefur forsetinn ekki vald.
    Ef slíkt gerist þá er það líka grundvallaratriði vegna málfrelsisins sem er skilgreint í stjórnarskrá lýðveldisins að þingmennirnir geti gert um það athugasemd og það verði tekið á þeirri athugasemd af einhverri stofnun þingsins sem er þá ekki að dæma í eigin máli. Svo hefur verið hingað til að þingmenn sem hafa lent í þeirri stöðu hafa orðið að snúa sér til forsætisnefndarinnar með erindi. Þannig að í raun og veru hefur forsætisnefndin sjálf fjallað um þessi klögumál. Það er ekki gott, það er ekki góð grundvallarregla að menn séu dómarar í eigin máli.
    Ég vil því taka það skýrt fram að það er alls ekki hugmyndin með flutningi á þessu frv. til laga að setja á stofn yfirforsætisnefnd, síst af öllu er hugmyndin að skerða völd forseta, heldur er hugmyndin sú að koma umfjöllun um þau þingmál sem snerta þingsköp Alþingis í fastan farveg og skapa eins konar áfrýjunarrétt fyrir þingmenn sem telja sig ekki ná fram rétti sínum sem þó er skilgreindur í stjórnarskránni og um það dæmi einhver annar heldur en sá sem við málið er riðinn.