Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:24:37 (1497)


[15:24]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Finni Ingólfssyni lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.
    Þessi breyting hljóðar svo:
    ,,1. gr.: 2. málsl. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna orðast svo: Sá persónuafsláttur, sem þá er enn óráðstafað, fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna, sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr., og skal þá óráðstafaður persónuafsláttur annars makans bætast við persónuafslátt hins.
    2. gr.: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 á tekjur ársins 1995.``
    Í grg. segjum við flm.:
    ,,Með frumvarpi þessu er lagt til að úr gildi falli sú takmörkun, sem nú er í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, að einungis 80% af persónuafslætti geti færst milli hjóna. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að allur óráðstafaður persónuafsláttur annars hjóna flytjist til hins.
    Í einu af þeim fylgifrumvörpum, sem lögð voru fram með frumvarpi til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1986, var gert ráð fyrir þeirri breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt að sá hluti persónuafsláttar annars hjóna, sem ekki nýttist því, yrði ekki millifæranlegur til hins aðilans að fullu heldur aðeins að þremur fjórðu hlutum. Þetta hlutfall var fært upp í 80% áður en lögin voru samþykkt og hefur haldist óbreytt síðan.
    Lengi vel naut fólk í hjónabandi eða sambúð rýmri reglu í skattlagningu af hálfu ríkisins fram yfir einstaklinga. Á síðustu árum hefur þróunin verið þveröfug. Fólk, sem slítur samvistum, býr við rýmri reglur í fyrirgreiðslu og nýtur forgangs af hálfu bæjar- og sveitarfélaga hvað t.d. leikskóla o.fl. varðar. Nú er svo komið að ýmsir telja að hjónabandinu sem formi sé ógnað og hafa prestar sagt frá því að þeir hafi neyðst til að ráðleggja skilnað í fjárhagslegri neyð.
    Hjón eða fólk í sambúð eiga eignir sínar saman og þær eru skattlagðar sem slíkar. Flutningsmenn telja sjálfsögð mannréttindi að vilji annað hjóna t.d. sinna uppeldi barna eða vera heima`` --- við skulum hugsa okkur við nám eða þá kannski vegna þess að annar aðilinn er öryrki eða á við veikindi að stríða --- ,,sé það frjálst án þess að sú ákvörðun leiði til þess að persónuafsláttur sé stórlega skertur. Flutningsmenn telja því að hjón eða fólk í sambúð eigi að fá að ráðstafa persónuafslætti sínum að fullu. Það er sanngirnismál í augum okkar að svo sé. Flutningsmenn gera sér grein fyrir að hér er um talsvert tekjutap að ræða fyrir ríkið verði þetta frumvarp að lögum. Þann vanda verður að leysa með öðrum hætti, svo sem að viðhalda hátekjuskatti og taka upp samræmdan eignarskatt.``
    Þetta er frv. eins og það hljóðar í þeim búningi sem við höfum sett það fram. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta kallar á tekjutap ríkisins. Ég hef látið skoða það. Það munu vera einar 600 millj. sem taldar eru að ríkið verði af ef þetta næði fram að ganga.
    Við veltum því hér upp að þetta sé mikið sanngirnismál, ekki síst vegna þess að eignirnar eru skattlagðar saman. Það er viðurkennt þegar fólk hefur tekið saman annaðhvort í hjónabandi eða í sambúð þá á það að njóta þess réttar á öllum sviðum.
    Ríkisstjórnin ber skynbragð á þær aðstæður sem nú blasa við í íslensku þjóðfélagi. Þegar hæstv. forsrh. segir að nú sé efnahagsvorið að koma og batinn er fram undan þá eru hans fyrstu viðbrögð í ríkisfjármálum og undir það tekur Alþfl. og undir það tekur þingmannakórinn í Sjálfstfl. að nú beri að fella niður hátekjuskatt og eignarskatt af ríku fólki á Íslandi upp á 1,1 milljarð. Það eru fyrstu viðbrögðin þegar efnahagsvorið virðist vera fram undan að koma til móts við þessa hópa sérstaklega. Samtímis þá ákveða þessir háu herrar að skerða bætur til öryrkja og atvinnuleysingja upp á 850 millj. kr. Svo að réttlætið í þessum herbúðum er ranglæti. Það er enginn vafi í mínum huga. Tilfinningin gagnvart þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu er engin í þessari ríkisstjórn, því miður. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið þurfi á því að halda að skattleggja þegnana, en það verði á öllum sviðum að gera það af réttlæti. Ríkið gerir það af einni ástæðu, það þarf á tekjum að halda. En við verðum að búa við réttlát skattalög á Íslandi. Öðruvísi verður ekki friður í þjóðfélaginu og hér verður blóðug styrjöld ef menn halda inn á þá braut sem núverandi ríkisstjórn er að fara. Láglaunafólkið mun ekki sætta sig við það. Ríkisstjórnin hefur afrekað það að lækka skattleysismörkin niður í 57 þúsund kr. til þess að ná í láglaunafólkið á Íslandi og geta lagt byrðar á þess herðar þannig að á öllum sviðum hafa þeir því miður, þessir háu herrar, farið ranga leið.
    Ég teldi það stórt verkefni og tel það kannski stærsta verkefni næstu ríkisstjórnar að móta réttlát skattalög og móta skattalög sem taka mið af því þjóðfélagsástandi sem við nú búum við.
    Það er margt fleira sem kemur til greina en þetta frv. sem ég er hér að flytja ásamt hv. þm. Finni Ingólfssyni. Ég er t.d. sannfærður um að þetta frv. hefði jafnvel þau áhrif að við mundum að einhverju leyti rýma fyrir ungu fólki á vinnumarkaði svo að dæmi séu nefnd. Þetta er því ekki bullandi tekjutap fyrir ríkissjóð að fara þessa leið. Ég get líka hugsað mér þá leið í skattamálum að huga vel að því t.d. að þeir sem vilja hætta að vinna, eru komnir á sjötugsaldur, fái hækkuð skattleysismörk til þess að eiga auðveldara með þetta og geti gengið út af vinnumarkaðnum og unga fólkið fái atvinnutækifæri. Við gerum okkur grein fyrir því að ein stærsta leið sem við stöndum frammi fyrir í þessu þjóðfélagi nú er auðvitað sú að hópar ungs fólks fái ekki vinnu við sitt hæfi. Í fyrsta sinn um mjög langa hríð ganga hámenntaðir menn um án atvinnu. En við verðum verulega að hugsa um þá þjóðfélagsmynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er alvarlegur hlutur ef stjórnarflokkarnir komast áfram með það í fjárlagagerðinni eins og þeir ætla sér að taka ekkert tillit til þeirra aðstæðna sem við búum við og segja að þeir einir sem hafa haft hátekjur og eiga miklar eignir skuli núna njóta batans. Við framsóknarmenn segjum alla vega: Fyrstu aðgerðir verða að snúa að því fólki sem hefur þrengt sín belti til þess að halda hér verðbólgunni niðri. Það er meðaltekju- og láglaunafólk, það er fjölskyldufólk á Íslandi sem vart við núverandi aðstæður, vart við núverandi efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar hefur að framfleyta sínum fjölskyldum. Ég vil því hvetja stjórnarliðana til þess að skoða þetta frv. með okkur og gá hvort við getum ekki við þessar aðstæður í gegnum fjárlagagerðina náð nýrri þjóðarsátt sem miðar að þeim aðstæðum að bæta kjör láglauna- og miðlungstekjufólksins og kannski rýma til á vinnumarkaði þannig að við gætum upprætt þá mestu skelfingu sem hefur dunið yfir, alla vega í mínu lífi, það mikla atvinnuleysi sem nú er í landinu þegar milli 6 og 7 þúsund manns ganga um án atvinnu.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa ræðu mína meir en legg til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. að umræðu lokinni.