Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:35:32 (1498)


[15:35]
     Sigbjörn Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Guðna Ágústssonar hér á undan að Alþfl. hefði ekki hug á því að viðhalda hátekjuskatti þá kom það glöggt fram í máli mínu við 1. umr. fjárlaga að ég legg á það þunga áherslu og tala þar fyrir þingflokk Alþfl. að hátekjuskatti verði viðhaldið. Þetta ætti hv. þm. að vera minnisstætt vegna þess að stór hluti 1. umr. fjárlaga gekk út á umræður um hátekjusktt og samræmdan eignarskatt sem ég tel nauðsynlegt að brugðist verði við af þeirri ríkisstjórn sem nú situr, enda voru gefin um það fyrirheit í upphafi stjórnarsamstarfsins.
    Örlítið varðandi þessa tillögu sem í sjálfu sér er ágæt. Það er rétt að haft sé í huga hvers vegna á sínum tíma ekki var leyfð 100% millifærsla á persónuafslætti. Eftir því sem ég veit best og mér hefur ætíð verið tjáð var það vegna þess að ýmis samtök kvenna töldu það draga úr atvinnuþátttöku kvenna. Einnig, eftir því sem ég veit best, voru skattleysismörk á þeim tíma ákveðin að nokkru með hliðsjón af því að einungis skyldu 80% vera millifæranleg.
    Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. Guðna Ágústssyni að það ber brýna nauðsyn til þess að skattalög séu réttlát og ég tel það forgangsverkefni þeirrar ríkisstjórnar sem við tekur að endurskoða skattalög í heild.