Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:42:00 (1502)


[15:42]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessa frv. sem hér er til umræðu fyrir það að þeir skuli hreyfa merkilegu máli. Ég vil segja það við þessa umræðu að þetta er út af fyrir sig ágætis tillaga. Það hefur legið fyrir að það eru mjög margir þeirrar skoðunar að það hafi á sínum tíma verið mistök við setningu laga um tekju- og eignarskatt að persónuafsláttur væri ekki að fullu millifæranlegur á milli hjóna. Ég heyrði ekki betur en það væru fleiri og fleiri sem hafa komist að þeirri niðurstöðu en hins vegar hefur ekki orðið úr neinum breytingum og engar breytingar voru gerðar í tíð fyrri ríkisstjórnar sem báðir hv. flm. þessarar tillögu studdu þó og höfðu góð tök á að hafa áhrif á að slíkar breytingar næðu fram að ganga. Hins vegar er það þannig að í tímans rás hefur reynsla manna orðið sú að það eru langflestir sem telja að þessa breytingu eigi að gera.
    Þá kemur að þeim vanda sem lýtur að vesalings ríkissjóði sem margt verður að þola um þessar mundir og það er nauðsynlegt að hv. flutningsmenn þessarar tillögu geri sér grein fyrir því og geri þinginu grein fyrir því hversu mikið þetta kostar og hvernig skuli koma á móti þeirri tekjuskerðingu sem ríkissjóður verður fyrir samfara þessari breytingu. Það er alveg nauðsynlegt þegar þingmenn flytja frumvörp til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fela í sér minnkun á tekjum ríkissjóðs að það sé gerð grein fyrir því með hvaða hætti og í það minnsta að þinginu sé gerð grein fyrir þeim kostnaði sem þessu fylgir.
    En ég vil bara undirstrika að ég tel að þetta sé mál sem þurfi að taka til meðferðar og skoðunar en eins og nú er þá hefur ekki verið talið að þetta væri hægt að svo komnu máli í það minnsta nema önnur tekjuöflun kæmi til. Ég tel því að þetta þurfi að skoða og vissulega ber að fagna því ef tekjur geta fundist á móti þessu til þess að þetta geti orðið.
    En varðandi hins vegar málflutning hv. þm. Guðna Ágústssonar þá er hann náttúrlega algerlega með ólíkindum. Hér talar hv. þm. um það að það verði blóðug styrjöld, það verði að móta réttlát skattalög. Það verður fróðlegt að vita í hverju það verður fólgið þegar framsóknarmenn komast til valda ef að yrði einhvern tíma. Þeir hafa boðað að þetta réttlæti muni birtast þegar Framsókn kemst til valda í því að þeir ætli að hækka matarskattinn. Það verður fyrsta aðgerð. Þeir hafa boðað hana. Það verður fyrsta aðgerð í réttlætisaðgerðum þeirra til þess að forðast væntanlega blóðuga styrjöld eins og þingmaðurinn nefndi. Þetta er málflutningur sem er algjörlega útilokað að boðið sé upp á í sölum þingsins.
    Ekki ætla ég að fara að leggjast í það að verja hvorki Alþb. né Alþfl. sérstaklega en ég get ekki

annað en vakið athygli þingsins á málflutningi hv. þm. Guðna Ágústssonar sem segir: Það var allt Alþfl. og Alþb. að kenna að við skyldum ekki þegar við vorum saman í stjórn setja á hátekjuskatt. Þetta er undarlegur málflutningur. Nú er Alþfl. í ríkisstjórn og þá tekur hann þátt í því að setja á hátekjuskatt. Er það trúverðugur málflutningur að í fylgd með Steingrími Hermannssyni og undir hans stjórn þá hafi Alþfl. verið þeirrar skoðunar að það væri ekki forsvaranlegt að setja á hátekjuskatt? ( Gripið fram í: Og svona sterkur.) Og svona sterkur, já. Það rekur sig hvað á annars horn í þessum málflutningi.
    En ég ætla ekki að elta ólar við það, virðulegur forseti, heldur vil ég vekja athygli á hinum jákvæða þætti í frv. en legg ríka áherslu á það að hv. flm. geri þinginu grein fyrir því hvað þetta kostar og hvernig þeir vilja koma til móts við ríkissjóð án þess að benda á hátekjuskattinn því hann er inni á þessu ári. Ég vil heyra fleiri hugmyndir hv. þm. Framsfl. en að benda eilíflega á hátekjuskatt.