Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:54:14 (1506)


[15:54]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Guðna Ágústssyni að með öllum ráðum þarf að vinna að því að koma í veg fyrir skattsvik í þjóðfélaginu. Ég hef ekki hugsað mér að benda á neina einstaka hópa hvorki á Alþingi né annars staðar sem sérstaka forsvarsmenn eða formælendur skattsvika. Það hvarflar ekki að mér. En ég vil bara vekja athygli á því vegna orða þingmannsins að verkalýðshreyfingin lagði ríka áherslu á þá aðferð sem var viðhöfð við álagningu virðisaukaskatts á matvæli. Stjórnarflokkarnir höfðu í það minnsta verkalýðshreyfinguna rækilega með sér í því. Hins vegar voru skiptar skoðanir og eru alls staðar skiptar skoðanir og e.t.v. innan allra flokka um það hvort æskilegt sé að hafa fleiri en eitt þrep í virðisaukaskatti.
    Það má vel vera og ég get út af fyrir sig tekið undir það að æskilegast og einfaldast væri að hafa eitt þrep þannig að sem fæstar undanskotsleiðir væru í virðisaukaskattskerfinu. Hins vegar var sátt um þetta, þetta var niðurstaða sem fékkst sem var unnið að í þeim tilgangi að lækka matarverð í landinu. Á það vil ég leggja áherslu. Það var fyrst og fremst vilji a.m.k. míns flokks, Sjálfstfl., að ná fram árangri, ná fram stöðugleika í þjóðfélaginu og ná fram lækkun á matvöruverði. Það kom láglaunafólkinu best og ég treysti því að þingmaðurinn geti verið mér sammála um að það sé mjög mikilvægt verkefni fyrir okkur þingmenn að ná fram árangri sem kemur láglaunafólki vel.