Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:56:22 (1507)


[15:56]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það er endalaust hægt að deila um það hversu vel menn hafi gert, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég ætla ekki að blanda mér í sjálfu sér í það hvort Framsfl. hefði átt að gera betur í skattamálum þegar hann var í ríkisstjórn eða hvort þessir flokkar sem núna eru í ríkisstjórn hafi getað gert betur. Það sem mér finnst hins vegar skipta mestu máli í umræðunni nú er það út á hvað stjórnmálaflokkarnir voru kosnir m.a. í skattamálum við síðustu alþingiskosningar. Sjálfstfl. lofaði þeim sem gengu til kosninga í apríl 1991 að kæmist flokkurinn til valda þá mundi hann lækka skatthlutfall einstaklinga í tekjuskatti niður í 35%. Alþfl. lofaði þeim er hann kusu að skattleysismörkin færu upp í 80.000 kr. á mánuði. Framsfl. var ekki með nein slík loforð fyrir þær kosningar, hvorki um lækkun skattprósentunnar né hækkun skattleysismarka. Hins vegar setti Framsfl. það í sína kosningastefnuskrá að það væri sanngirnismál að persónuafsláttur væri að fullu, 100%, flytjanlegur milli hjóna. Það var það sem Framsfl. vildi hafa að vissu leyti sem kjarajöfnun í þeim tillögum er hann boðaði fyrir alþingiskosningar 1991.
    Nú fór það hins vegar svo að Framsfl. lenti ekki í ríkisstjórn að afloknum þeim kosningum en tillöguflutningur okkar hv. þm. Guðna Ágústssonar og mín er í þá veru að fylgja eftir þeim loforðum er Framsfl. var með í kosningabaráttunni 1991. Ég fagna því auðvitað að til eru þeir þingmenn stjórnarliðsins sem segja að hér sé á ferðinni hið besta mál og réttlætismál sem vert sé að kanna gaumgæfilega og þá auðvitað að mínu viti að menn láti á það reyna á Alþingi hvort ekki sé meiri hluti fyrir þessari skattalagabreytingu sem hér er boðuð. Hún kallar að mínu viti ekki á einhverja uppstokkun eða heildarendurskoðun á skattalögunum sem slíkum heldur fyrst og fremst litla breytingu sem hefur engin önnur áhrif en þau að réttlætinu væri að vissu leyti fullnægt og svo hitt, sem skal viðurkennt, að hún hefur útgjöld í för með sér.
    600 millj. kr. er áætlað að þessi skattalagabreyting muni kosta ríkissjóð og það eru auðvitað miklir fjármunir. Ég geri ekkert lítið úr því. En ætli staðreyndin sé ekki sú að þetta mun kannski verða eitt af þeim málum er verkalýðshreyfingin mun leggja höfuðáherslu á í komandi kjarasamningum að ríkisvaldið komi til móts við aðila vinnumarkaðarins m.a. með því að millifæra þennan persónuafslátt.
    Hv. þm. stjórnarliðsins spyrja mjög um það hér hvernig Framsfl. vilji í raun fjármagna þessar 600 millj. kr. Það var bent á það af hv. þm. Guðna Ágústssyni að það stæði til að fella niður hátekjuskattinn. Ég ætla ekki að deila um það við hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson hvort í stjórnarliðinu sé meiri hluti fyrir því að halda hátekjuskattinum áfram eða hvort hann skuli aflagður. Það kemur hins vegar skýrt fram í fjárlagafrv., en það er kannski ekki mark takandi á því frekar en mörgu öðru sem kemur fram hjá þessari ríkisstjórn, að þar er ekki gert ráð fyrir neinum hátekjuskatti. Það hlýtur því að verða að líta á það sem hluta af stjórnarstefnunni að hátekjuskatturinn skuli lagður af. Vandamál ríkissjóðs eru vandamál ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnin, stjórnarstefnan hefur skapað þau vandamál sem ríkissjóður á við að etja. Sú samdráttar- og kjaraskerðingarstefna sem þessi ríkisstjórn hefur rekið lýsir sér í ákveðnum vítahring sem ríkisstjórnin hefur komið hljóðinu inn í. Menn byrja á því að auka álögur á atvinnulífið um mitt ár 1991, hækka vextina, hækka skattana á atvinnulífið, atvinnulífið fer að tapa verulegum fjármunum. Það bregst við með því að segja upp starfsfólki. Það bregst við með því að draga úr yfirvinnu sem skerðir kjörin hjá þeim

sem þó hafa vinnu. Atvinnuleysi leiðir til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Kjaraskerðingin vegna minni yfirvinnu leiðir til þess að fólkið hefur ekki peninga til þess að kaupa í jafnríkum mæli nauðsynjar og áður þannig að virðisaukaskatturinn dregst saman út af samdráttaráhrifunum í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin mætir þeim samdrætti í tekjum með áframhaldandi niðurskurði og áframhaldandi skattahækkunum sem enn leiðir aftur til meiri kjaraskerðingar og enn þá meiri halla á ríkissjóði vegna minni tekna. Það er út úr þessum vítahring sem menn þurfa að komast. Þetta er stjórnarstefna þessarar ríkisstjórnar í hnotskurn. Meðan menn eru inni í þessum vítahring og komast ekki út úr honum þá er það alveg kristaltært að menn munu ekki geta aukið tekjur ríkissjóðs. Tekjuaukann verða menn að framkalla með auknum hagvexti og auknum hagvexti náum við aðeins með framsækinni atvinnustefnu. Það er það sem við framsóknarmenn viljum gera ásamt því að leggja fyrir Alþingi í upphafi næsta kjörtímabils fjögurra ára fjárlög ríkisins sem gera ráð fyrir sömu krónutöluupphæð á fyrsta ári kjörtímabilsins og því síðasta, auðvitað að teknu tilliti til þeirra verðlagsbreytinga sem verða á tímabilinu. Þá vita stjórnendur ríkisfyrirtækjanna, þá vita stofnanirnar sem um er að ræða nákvæmlega hvernig menn verða að bregðast við og spara í samræmi við það. Þannig loka menn á næstu fjórum árum þeim fjárlagavanda sem þessi ríkisstjórn hefur verið að burðast við að ljúka á þessu kjörtímabili. Þegar menn státa sig af því í dag og segja: Vandinn sem ríkisstjórnin hefur tekist á við í fjárlagagerðinni er kominn niður í 6 milljarða úr 15--20 milljörðum. Það er bara rangt vegna þess að það er innbyggt í núverandi fjárlög a.m.k. 2 milljarða kr. halli bara í heilbrigðis- og tryggingamálum, hvað þá í öðrum málaflokkum ríkisvaldsins.