Samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 16:16:14 (1509)


            [16:16]
     Ragnar Þorgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér eru orð í tíma töluð, en hvað er orsök og hvað er afleiðing? Frá fornu fari hefur íbúum þessa lands, okkar litla eylands, þótt mikið til erlendra nýjunga koma. Vissulega ber að fylgjast með erlendum nýjungum en betra er að nýta þær hugmyndir sem fram koma til framleiðslu en að kaupa afsprengi þeirra, tilbúnar vörur.
    Öllum sem starfa að iðnaði, byggingarframkvæmdum o.s.frv. í þessu landi ber saman um það, fullyrði ég, að innkaupastefna hins opinbera er furðuleg, götótt og óskiljanleg. Þar er forvígismönnum algerlega frjálst að velja á milli innlendra og erlendra vara og virðist engu skipta þó að íslenska varan sé á svipuðu verði, jafnvel ódýrari. Þarna mættu vera einhver mörk og í rauninni er það skilyrði. Þetta er eins og ef bóndi hellir niður umframmjólk og fer svo í næstu verslun og kaupir inn mjólk til heimilisins. Við höfum geysilega umframframleiðslugetu í flestum tegundum iðnaðar vegna þess að íslenskur markaður er svo lítill, en framleiðslutæki, vélar og önnur gæði eru mjög afkastamikil. Ef bæta mætti nýtingu þessara þátta leiddi það augljóslega af sér lækkað einingaverð. Það mundi bæta samkeppnisstöðu iðnaðar ef okkur tekst að greina hvort núverandi innflutningsástand sé orsök eða afleiðing.
    Hvað veldur erfiðri markaðsstöðu íslenskra iðnfyrirtækja? Við megum ekki gleyma því að þjóðin er bundin á klafa milliríkjasamninga hvað varðar tolla og vörugjaldsmöguleika, meðan við verðum óneitanlega vör við stöðu iðnaðar í samkeppnislöndum okkar, atvinnuástand þar, þróun gengis, gjaldmiðils og viljastyrk stjórnvalda þeirra landa til að styðja við bakið á sínum iðnaði. Framleiðendur byggingarvara hér á landi hafa t.d. orðið áþreifanlega varir við atvinnuástand og stöðu finnskra samkeppnisaðila. Finnar hafa boðið vörur hér á mjög góðu verði, vörur umframgetu í iðnaði sem hefur orðið til vegna breytinga á þeirra markaðsstöðu með tilliti til Rússlands og nágrennis. Allir þekkja niðurgreiðslustefnu Norðmanna varðandi skipasmíðaiðnaðinn og reyndar nær sú stefna langt út fyrir þá iðngrein.

    Ég þykist muna það, hæstv. forseti, þegar þessi salur sem við hv. þingmenn sitjum í var innréttaður að nýju fyrir nokkrum árum, þessi þingsæti sem eru svo eftirsótt og er óneitanlega þægilegt að sitja í, þetta er allt erlend vara. Það er alveg hreint merkilegt, svo ekki sé meira sagt.
    Virðulegur forseti. Íslensk stjórnvöld standa utan við svona vinnubrögð. ,,Kemur-mér-ekki-við``-stefna ríkisstjórnarinnar er allt að drepa.