Sjóvarnir

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 16:31:19 (1511)

[16:31]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að leggja fram þetta frv. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að það gildi ákveðin lög um sjávarvarnir hér á landi þar sem þetta er mjög stórt atriði og mikið hagsmunamál fyrir fjöldamörg byggðarlög.
    Ég hef hins vegar ákveðnar athugasemdir og ábendingar fram að færa varðandi þetta frv. og þar verð ég að segja að það langmikilvægasta og það fyrsta sem mig langar að nefna hér, er að það fer allt of lítið fjármagn til sjávarvarna hér á landi og það er kannski okkar stærsta vandamál. Ekki forgangsröðunin heldur skortur á fjármagni. Þetta hefur reynst mjög dýr sparnaður og þetta hefur leitt til þess að við höfum farið í að eyða nánast langstærsta hluta þess fjár sem varið er til sjávarvarna í mjög alvarlegar viðgerðir þegar stór óhöpp hafa átt sér stað og það hafa verið áhlaup sem hafa brotið niður dýra varnargarða vegna þess að ekki hefur verið unnið nægilega hratt og vel að því að gera þá þannig úr garði að þeir haldi. Því miður hefur þetta reynst okkur alveg geypilega dýrt og fjármagnsfrekt. Ég veit að hv. 1. flm. þekkir án efa dæmi eins og sú sem hér stendur.
    Það er hart þegar verið er að grípa í taumana eftir á að horfa á að það er mjög oft fyrirsjáanlegt á hvaða svæðum þessi áhlaup verða og það er hægt að lesa í vönduðum skýrslum og áætlunum um það hvers vænta má en samt sem áður höfum við ekki borið gæfu til þess að vera búin að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegt er í tíma og við lendum því í því að vera sífellt í dýrum viðgerðarkostnaði. Ég held að það dugi að nefna svæðið Eyrarbakki/Stokkseyri sem er tekið sérstaklega fyrir í fskj. með þessu frv. Eins vil ég nefna að fyrir ekki mjög löngu síðan var mikið áhlaup í Grindavík. Þetta var mjög fjárfrekt og tók í rauninni stóran hluta af því fjármagni sem hefði þurft að fara til sjávarvarna á Reykjanesi, en þar eru bæði til mjög góðar upplýsingar um hvað þarf að gera í sjávarvörnum og jafnframt eru alveg hlægilega lágar upphæðir sem fara til þessa brýna málaflokks. Það er íhugunarefni frammi fyrir hverju við stöndum bæði varðandi verðmæti og einnig varðandi það fólk sem býr nálægt sjó og horfir kannski á sín persónulegu verðmæti, því miður ekki nógu mikið bætt, fara beinlínis í sjóinn.
    Ég vil bæta því við þá upptalningu sem hv. 1. þm. Vesturl. gat hér um að það er ekki bara landbrot og ágangur sjávar sem við erum að glíma við og þær ástæður sem eru fyrir þessu, heldur erum við líka sums staðar að glíma við landsig. Þar sem það bætist ofan á, og ég tek undir það með hv. þm. að það eru sterkar vísbendingar um það að við fáum meiri veður núna heldur en við höfum fengið, en þegar þetta bætist við það landbrot sem fyrir er og það landsig sem sums staðar á sér stað þá eru veruleg teikn á lofti um það að einstök svæði geti verið í mikilli hættu ef ekki er gripið til réttra aðgerða.
    Það er ýmislegt sem veldur því að við erum að glíma við þetta mikla vandamál. Það er ekki bara við skipulagsyfirvöld að sakast þar sem hefur verið leyfð byggð of nálægt heldur eru sums staðar hreinlega þannig landfræðilegar aðstæður að jafnvel þótt að byggð sé ekki hleypt mjög nálægt þá brýtur það hratt og mikið land að það er ekki hægt að verja það að ekki sé gripið í taumana. Í minni heimabyggð, úti á Álftanesi, höfum við t.d. horft á heila jörð fara í sjóinn. Ég er að vísu ekki svo gömul enn að ég hafi fylgst með þeirri þróun alveg frá upphafi til enda því hún átti sér aðallega stað á síðustu öld og á framanverðri þessari. En það má segja að á liðlega öld hafi heil jörð, Bárhaugseyri, sem var hálflenda, bókstaflega farið í sjóinn. Nú er þetta í rauninni bara nafn einhvers staðar úti í sjó þar sem áður voru græn og grösug tún. Þetta hlýtur að vera mikil áminning frá sögunni um það hvað getur gerst og hvað mun gerast á meðan ekki eru byggðar upp fullnægjandi sjávarvarnir.
    Ég held að ef því væri bætt inn í þetta frv. að það væri tryggt ákveðið fjármagn til þessa mikilvæga málaflokks með einum eða öðrum hætti þá mundi það fyrst ná tilgangi sínum. Ég hef ákveðnar efasemdir varðandi þá tillögu að sveitarfélög fjármagni að 1 / 8 hluta sjávarvarnir eða þá í samráði eða samvinnu við landeigendur. Ég vil benda á að það eru og hafa verið eilífar deilur varðandi samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og það hefur verið reynt að skerpa skilin á milli ríkis og sveitarfélaga og þótt vera góð pólitík. Á sama tíma og við erum að glíma við það að sveitarfélögin eru ekki sátt við að vera gert það að greiða húsaleigubætur í samstarfi við ríkisvaldið þá held ég að það sé hyggilegra að koma málum að einhverju öðru leyti fyrir.
    Þannig að ef þetta á að vera, sem vissulega gæti verið, ákveðin hvatning fyrir sveitarfélög og ákveðin trygging fyrir frumkvæði þeirra held ég að við verðum að sjá það með einhverjum öðrum hætti, þó ég telji mig skilja hugmyndir hv. 1. þm. flm. mætavel. Ég held einfaldlega að sá tími sé liðinn að menn séu reiðubúnir að fara í of mikil samstarfsverkefni milli ríkis og sveitarfélaga. Ef það er verið að velta fyrir sér kostnaðarþátttöku sveitarfélaga eða einstaklinga með einhverjum hætti verði að gera það á einhvern annan veg.
    En í grundvallaratriðum get ég tekið undir að það þarf að skipa þessum málum í fast form og ég sé engin sérstök atriði sem ég hef efasemdir um annað en þennan kostnaðarhlut sveitarfélaga. En ég ítreka enn og aftur að þetta er tómt mál að tala um ef ekki verður verulega aukið fjármagn til sjávarvarna.