Sjóvarnir

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 16:49:07 (1514)


[16:49]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að hér er um mikilvægt mál að ræða. Fyrir tveimur árum flutti ég þáltill. um þetta efni og benti þá á nauðsyn þess að þessi mál yrðu tekin fastari tökum. Sú þáltill. náði því miður ekki fram að ganga þá, en vonandi kemur fram vilji hér á Alþingi nú að afgreiða þetta frv. á jákvæðan hátt hvort sem það verður samþykkt eða sent til frekari athugunar.
    Það sem ég benti þá sérstaklega á var að það þyrfti að gera sér betur grein fyrir því hvar þessi vá er fyrir hendi, þ.e. að sjór geti gengið á land og skemmt mannvirki. Þar nægi ekki eingöngu að horfa til líðandi stundar heldur einnig fram í tímann og því þurfi að efla rannsóknir á þessu sviði, sérstaklega með tilliti til þess að það virðast liggja fyrir óyggjandi sannanir um að ströndin er að breytast, sums staðar a.m.k. er ströndin að síga, þannig að á einhverjum öldum hafi orðið veruleg breyting á. Þar sem þannig háttar til þarf auðvitað að taka tillit til þess við skipulag byggða. Það er ekki lengur orðið nauðsynlegt að vera með byggingar alveg niðri í flæðarmáli eins og var kannski áður þegar lítil tækni var til þess að koma varningi frá skipi og í hús. Sem betur fer er landrými yfirleitt nægjanlegt hér á landi þannig að það eru orðin önnur viðhorf nú heldur en þegar minni tækni var fyrir hendi. Til dæmis með tilliti til þess að hér í kringum Reykjavík er talið öruggt að land hafi sigið á síðustu öldum þá virðist það vera furðuleg ráðstöfun þegar verið er að reisa byggingar niður undir sjávarmáli og grunnurinn stendur langt niður fyrir það og því hlýtur að verða vaxandi vandamál í kringum slíkar byggingar.
    Ég vil sem sagt vænta þess að það verði hugað að þessu mikla vandamáli og reynt að taka það föstum tökum. Þar sem byggð og land er í hættu þarf að sjálfsögðu að reyna það sem í mannlegu valdi stendur að verja það. Við þekkjum glögg dæmi um það frá suðurströndinni. Í Vík í Mýrdal hefur sjórinn verið að brjóta fjöruna og færast upp í landið og svo er einnig víðar á suðurströndinni þannig að á þetta mál þarf að horfa frá mörgum hliðum og reyna að gera það sem skynsamlegast er til úrbóta.