Sumarmissiri við Háskóla Íslands

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 17:13:14 (1517)


[17:13]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég stíg hér í stólinn til að lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu sem hér liggur fyrir og er hugmynd sem fyrst var reifuð af stúdentaráði Háskóla Íslands. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með því hve stúdentar við Háskóla Íslands eru vakandi yfir þróuninni innan skólans og hvað þeir hafa komið með margar og merkilegar hugmyndir varðandi það að bregðast við vaxandi atvinnuleysi á meðal stúdenta. Þeir komu með þá hugmynd að stofna nýsköpunarfyrirtæki stúdenta líkt og gert var í Frakklandi og nú hafa þeir bent á þessa leið hér að tíminn verði nýttur til þess að fólk geti hraðað sínu námi yfir sumartímann, ýmist til þess að draga úr atvinnuleysi meðal stúdenta eða styðja það fólk sem vill einfaldlega flýta fyrir sér í námi.
    Það er algengt erlendis að haldin séu sumarnámskeið við háskóla af ýmsu tagi sem fólk nýtir sér þá og bætir við sitt nám en ég veit ekki hvort það hefur verið gert með jafnskipulegum hætti og verið er að leggja hér til. Ef sumarmissiri er skipulagt þarf það að vera skilgreint út frá ákveðnum einingum, að það sé hægt að taka ákveðinn fjölda eininga yfir sumarið sem bætast við vetrarstarfið.
    En það sem mér datt líka í hug í sambandi við þetta sumarmissiri er að það er hægt að nýta slíka kennslu á margan hátt. Hægt er að bjóða upp á námskeið fyrir útlendinga sem vilja læra íslensku skipulega. Slík námskeið eru hér yfir sumartímann, m.a. á vegum Stofnunar Sigurðar Nordals en Háskóli Íslands hefur ekki boðið upp á slík námskeið. Þá gæfist kostur á að skipuleggja eins konar námskeið fyrir ferðamenn, fyrirlestraraðir og annað slíkt um íslenska sögu, íslenska menningu og íslenskar fornbókmenntir sem jafnvel stúdentar gætu sinnt líka og verið þá eins konar svona útfærsla á lokaverkefni eða einhverju slíku, því að mér finnst að við höfum alls ekki nýtt þann arf sem við eigum í okkar fórum, þ.e. okkar fornbókmenntir og okkar sögu og menningu sem er sérstæð um margt og það má einmitt bjóða upp á námskeið af þessu tagi, bæði fyrir almenning og fyrir ferðamenn. Það eru því ýmsir möguleikar ef menn stefna inn á þá braut að hafa sumarmissiri við Háskóla Íslands og þá verður að skipta þeirri kennslu á milli kennara við háskólann því að það er ekki ætlunin að fara að bæta þar við vinnutíma fólks heldur frekar að deila vinnunni og leita möguleika eins og þeirra að stúdentar séu í eins konar verkefnum af þessu tagi sem ég var hér að nefna. Þetta gildir auðvitað fyrst og fremst um heimspekilegar greinar eins og sögu og íslensku og jafnvel heimspeki, þjóðháttafræði og fornleifafræði og fleira slíkt. Fornleifafræði er reyndar ekki kennd sem grein við Háskóla Íslands en það er mjög margt sem hægt væri að gera í þessu samhengi. Ég á sæti í hv. menntmn. þar sem við munum fjalla um þessa tillögu og það væri þá einmitt fróðlegt að fá fram fleiri hugmyndir um það hvernig hægt væri að nýta sumarmissiri og sumarnámskeið af þessu tagi sem ég var hér að nefna.