Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 17:27:38 (1519)

[17:27]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, og breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Efni þessa frv. er raunar tvíþætt og hér eru lagðar til tvær meginbreytingar á reglum skattalaga sem snúa að persónuafslætti. Það er lagt til að þeim sem hafa á framfæri sínu barn á aldrinum 16--19 ára sé heimilt að nýta 80% óráðstafaðs persónuafsláttar barnsins. Í öðru lagi að skattþegn verði heimilað að nýta uppsafnaðan persónuafslátt sinn, hversu lítill sem hann er, um leið og hann hefur störf að loknu tímabundnu hléi eða þegar farið er af lægri launum yfir á laun sem fullnýta persónuafslátt.
    Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um þetta síðara atriði. Það felur í sér að það sé hægt að nýta uppsafnaðan persónuafslátt um leið og viðkomandi hefur störf að loknu hléi vegna atvinnuleysis eða þegar farið er af lægri launum yfir á laun sem fullnýta persónuafslátt. Ég tel að það hafi skapað mörg vandamál hjá ýmsum þegar þessar aðstæður skapast að geta ekki nýtt sinn persónuafslátt strax en gildandi lög gera kröfu um að 50% persónuafsláttur sé vannýtt til að heimild sé til að sækja um útgáfu skattkorts með uppsöfnuðum persónuafslætti og jafnframt gildir sú regla að ekki sé unnt að sækja um uppsafnaðan persónuafslátt fyrr en eftir 1. júlí ár hvert. Ég held að þau séu nokkuð stíf og þröng þessi skilyrði og það sé eðlilegt að breyta þessu vegna þess að það er auðvitað ljóst að það getur komið illa fyrir marga sem t.d. eru að hefja vinnu að nýju eftir atvinnuleysi að geta ekki nýtt ónýttan persónuafslátt nema að 50% persónuafsláttar séu vannýtt. Það verður að teljast eðlilegt að umsókn um að nýta þennan ónýtta persónuafslátt sé ekki bundin við að hægt sé einungis að sækja um hann eftir 1. júlí ár hvert.
    Hinn þáttur þessa frv. er um að framfærendur sem eru með börn í námi á framfæri sínu á aldrinum 16--19 ára geti nýtt ónýttan persónuafslátt barnanna. Ég held að þetta sé mál sem eigi fyllsta rétt á sér. Við búum við það í núgildandi tekjuskattslögum að þau heimila hjónum eða sambúðarfólki að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti þess sem lægri tekjur hefur en engar slíkar heimildir eru fyrir hendi varðandi það að nýta óráðstafaðan persónuafslátt barna. Ég held að þetta geti komið sér afar illa hjá mörgum og sérstaklega einstæðum foreldrum. Það er alveg ljóst að framfærslukostnaður þeirra hlýtur að vera mjög mikill sem eru með börn á skólaaldri á framfæri og afla sér lítilla tekna sjálf.
    Félag einstæðra foreldra hefur gert úttekt á framfærslukostnaði barna á aldrinum 13--15 ára og þá var hann áætlaður 500 þús. kr. árlega. Það er náttúrlega alveg ljóst að þegar um slíka fjárhæðir er að ræða, sem ég kann kannski ekki alveg að leggja mat á því ég hef ekki skoðað þessa könnun ítarlega, að ef um svo stórar fjárhæðir er að ræða, þá eru á ferðinni mjög mikil útgjöld og að stór hluti af tekjum einstæðra foreldra, sem þurfa að framfleyta sér á lágmarkslaunum, fer í kostnað af menntun og uppeldi barna. Búast má við að framfærslukostnaður foreldra barna á aldrinum 16--19 ára, sem eru í námi, sé jafnvel meira en þetta.
    Það er um verulegar fjárhæðir að ræða þegar talað er um ónýttan persónuafslátt barna vegna þess að samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum var ónýttur skattafsláttur þeirra sem fæddir voru á árunum 1973 til 1977, að báðum árum meðtöldum, um 2,5 milljarðar kr. Þeir sem voru á þessum aldri voru um 16.700. Má áætla að mikill meiri hluti barna á þessum aldri eða um 70% sé í framhaldsskóla og er alveg ljóst að þau sem eru í skóla á þessum aldri afla sér afar lítilla tekna og skattafslátturinn er langt frá því að nýtast þeim að fullu.
    Ég tel að öll sanngirni mæli með því að foreldrum sé heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt barna með sama hætti og nú er mögulegt milli hjóna og sambýlisfólks.
    Ég held að það sé líka rétt að vekja athygli á heimild í skattalögum í 66. gr., sem ég skoðaði ítarlega í tengslum við þetta frv., sem felur í sér að skattstjóri skal taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem þar er tilgreint, en þar er m.a. talað um að það á að taka umsókn til greina um lækkun á tekjuskattsstofni ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri.
    Það er mjög athyglisvert hvað fáir hafa nýtt sér þetta ákvæði skattalaga til frádráttar frá tekjuskattsstofni sínum. Þessi skattalækkun kemur til greina ef nemandi er á aldrinum 16--20 ára og hafi að mati skattstjóra ekki haft nægilegt ráðstöfunarfé á skattárinu til að mæta beinum kostnaði við námið. Samkvæmt þessu skal skattstjóri taka til greina umsókn manns um lækkun á tekjuskattsstofni ef hann hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16--20 ára og vegna tekna ársins 1993 er einungis miðað við að nám

sé stundað innan lands og tekjur námsmannsins séu undir 415 þús. kr. á ári. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru ekki sett fram önnur skilyrði til þess að fólk geti sótt um þennan frádrátt og átt rétt á honum. Eina skilyrðið fyrir þessum frádrætti frá skatti virðist vera að tekjur námsmannsins á heimilinu séu undir 415 þús. kr.
    Þegar skoðað er samkvæmt skattframtölum fyrir sl. ár hve margir hafa nýtt sér þetta þá voru það um 1.600 manns sem fengu þennan frádrátt, um 300 var hafnað, og þessi frádráttur nam um 92 millj. kr. og að meðaltali lækkaði skattbyrði þeirra sem sóttu um þennan frádrátt um 57.500 kr. En samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda voru 10.600 unglingar fæddir 1973 til 1977 með tekjur undir 450 þús. kr. Ef einungis 1.600 hafa nýtt sér frádráttinn en unglingar á þessum aldri með tekjur undir 450 þús. séu um 10.600 má ætla --- auðvitað er það ágiskun --- að um 2.000--4.000 framfærendur gætu hafa átt rétt á frádrættinum en hafa annaðhvort ekki vitað um þetta eða ekki nýtt sér þetta.
    Ég hef sett fram þá tölu að ekki sé óvarlegt að áætla að heimilin í landinu gætu átt inni 150--200 millj. hjá skattyfirvöldum vegna þess að skattyfirvöld hafa leiðrétt framtöl aftur í tímann. Hér er um lögvarða kröfu að ræða og því eru allar líkur á að þeir sem sækja um þetta núna, jafnvel þó þeir hafi ekki óskað eftir þessum frádrætti á skattframtölum sínum aftur í tímann, gætu átt rétt á að fá leiðréttingu frá skattyfirvöldum.
    Ég nefni þetta vegna þess að auðvitað þarf að skoða þessa heimildargrein skattalaga í tengslum við þá breytingu sem hér er lögð til. Hér er lagt til að það sé hægt að nýta ónýttan persónuafslátt barna á þessum aldri og vel má vera ef þessi grein, 66. gr., er framkvæmd sem skyldi gæti staðið val hjá einstæðum foreldrum sem hefðu börn á þessum aldri á framfæri sínu að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna eða þetta ákvæði skattalaganna. Alla vega tel ég rétt að horft sé á þessi mál í samhengi og mér finnst a.m.k. alveg ljóst að ástæða sé til þess að fólk viti um rétt sinn í skattkerfinu sem er alveg ljóst að fólk hefur ekki haft vitneskju um samanborið þær tölur sem ég hef sett fram.
    Sama gildir reyndar um annað ákvæði í þessari grein og kemur líka fram í 80. gr. laga um tekju- og eignarskatt en þar er kveðið á um að skattstjóra sé heimilt að taka til greina umsókn manns um lækkun eignarskattstofns og tekjuskattstofn ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega. Sem dæmi um þetta voru á þessu ári, vegna tekna 1993, einungis sex einstaklingar í Reykjavík og á Reykjanesi sem nýttu sér þennan skattafslátt til lækkunar á eignarskattstofni en enginn í öðrum kjördæmum. Enginn þarf að segja mér að ekki sé til aldrað fólk sem býr við fjárhagslega erfiðleika, er kannski í stóru húsnæði með litlar tekjur, að ekki séu fleiri en sex manns sem hefðu getað átt rétt á því að fá eignarskattstofn sinn lækkaðan ef það hefði vitað um þetta ákvæði skattalaganna. Það er athyglisvert að þetta eru aðeins sex einstaklingar í Reykjavík og Reykjanesi.
    Sama gildir reyndar um ákvæði varðandi lækkun á tekjuskattstofni vegna skerts gjaldþols. Þar eru þó nokkuð fleiri einstaklingar sem hafa sótt um þetta en það er athyglisvert hvað þeir eru fáir og einstök kjördæmi skera sig þar mjög úr og hef ég fengið upplýsingar um það hjá skattyfirvöldum.
    Ég taldi ástæðu til þess, virðulegi forseti, að ræða þessi mál í samhengi því að málin eru tengd. Ég tel að hér sé um að ræða leið sem gæti verulega bætt hag heimila, ekki síst einstæðra foreldra, sem eru með börn á framfæri sínu og sem eru í námi og gæti hugsanlega ráðið úrslitum um það að börn einstæðra foreldra gætu stundað framhaldsnám. Þetta á fyllilega rétt á sér, ekki síst vegna þeirra ákvæða skattalaganna sem kveða á um millifæranlegan persónuafslátt milli hjóna og sambúðarfólks.
    Ég vænti þess að málið fái jákvæðar undirtektir á hv. Alþingi og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. efh.- og viðskn.