Mat á umhverfisáhrifum

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 17:46:39 (1521)


[17:46]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Frv. er í fjórum greinum og fjallar 1. gr. um markmið laganna. Þar er tekið fram í upphafi greinarinnar að markmið laganna sé að koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta er að mati flm. grundvallaratriði. Markmið laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, er að koma í veg fyrir spjöll á náttúrunni sem oft eru afleiðing framkvæmda. Í markmiðsgrein gildandi laga kemur þetta að mati flm. ekki skýrt fram.
    Að þessu grundvallaratriði var vikið í athugasemdum með frv. til laga um umhverfismat auk þess sem atriði þar að lútandi komu fram í framsöguræðu hæstv. umhvrh. þegar fyrst var mælt fyrir frv. á Alþingi. Mat á umhverfisáhrifum er ekki markmið laganna í sjálfu sér heldur er matið í raun verkfæri sem löggjafinn hefur fengið framkvæmdarvaldinu til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll.
    Það blandaðist aldrei neinum hugur um það þegar þetta mál var til umfjöllunar hér á sínum tíma að tilgangur laganna er ekki að koma í veg fyrir breytingar í sjálfu sér. Þannig er það ekki í samræmi við tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum að fella undir þau ýmsar framkvæmdir sem miða að því að endurheimta landgæði, efla gróðurlendi og hefta jarðvegseyðingu. Í sérstökum lögum er fjallað um hlutverk Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Þessum stofnunum er ætlað það hlutverk að verja og efla gróðurlendi. Löggjafinn hefur ætlað þessum stofnunum það jákvæða þjóðþrifaverk að hafa forustu um endurheimt landgæða og eflingu þeirra. Mikill munur er á því að meta spjöll sem verða í náttúrunni við virkjanaframkvæmdir, við vegagerð eða við uppsetningu förgunarstöðva fyrir eitraðan úrgang annars vegar og hins vegar að leggja mat á breytingar sem verða á landi við uppgræðslu.
    Með ræktun örfoka lands og friðun er verið að koma af stað gróðurframvindu sem með skynsamlegri landnýtingu leiðir til eðlilegs ástands gróðurs miðað við aðstæður hverju sinni. Þær aðgerðir eiga því ekkert sameiginlegt með því sem lögum um mat á umhverfisáhrifum er fyrst og fremst ætlað að fjalla um, þ.e. röskun og spjöll á umhverfi af völdum framkvæmda.
    Í 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ætíð skulu háðar mati á umhverfisáhrifum. Þegar frv. til laga um umhverfismat var til umfjöllunar í umhverfisnefnd Alþingis bárust ábendingar frá nokkrum aðilum um að eðlilegt væri að framkvæmdir við framræslu votlendis, landgræðslu og skógrækt yrðu felldar undir 5. gr. laganna og þannig ætíð háðar umhverfismati. Við umfjöllun um málið féllst umhvn. Alþingis ekki á þetta sjónarmið. Í nefndaráliti kom fram að nefndin væri sammála um að nauðsynlegt væri að skipulega væri unnið að verkefnum á þessu sviði með tilliti til fjölþættra landnota og umhverfisverndar. Þannig gæti verið ástæða til að fram færi mat á umhverfisáhrifum eða --- og ég undirstrika --- hliðstæður undirbúningur ef ráðist yrði í meiri háttar verkefni af þessum toga, enda er heimild til þess í 6. gr. laganna. Það er álit flm. frv. þessa að ekki sé rétt að beita heimildarákvæðinu nema líklegt sé að framkvæmdir valdi umhverfisspjöllum og er það í samræmi við markmið laganna.
    Við framkvæmd laga um umhverfismat hefur komið í ljós að framkvæmdarvaldið hefur talið ástæðu til þess að beita heimildarákvæði laganna vegna landgræðsluverkefna. Hefur því til stuðnings verið vitnað sérstaklega í nefndarálit umhvn. en litið hefur verið fram hjá þeirri staðreynd að nefndin hafnaði því að fella skógrækt og landgræðslu undir framkvæmdir sem eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Gera verður ráð fyrir því að þessi beiting heimildarákvæðis 6. gr. laganna hafi fordæmisgildi um framkvæmd laganna. Flm. telur því nauðsynlegt að taka af tvímæli að því er varðar markmið laganna og þrengja heimildarákvæði 6. gr. Gengur flm. út frá því að með þessari breytingu verði landgræðsla og skógrækt ekki háð umhverfismati. Gerð áætlana á vegum Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins hefur tekið miklum framförum á síðustu árum. Flm. þessa frv. gerir ráð fyrir að í áætlanagerð framangreindra stofnana felist það mat að þau verkefni, sem ráðist er í hverju sinni, séu nauðsynleg framfaramál og jákvæðir áfangar á sviði umhverfismála. Þess ber einnig að geta í þessu sambandi að í nefndaráliti umhvn. var þess getið að ástæða gæti verið til að fram færi mat á umhverfisáhrifum eða hliðstæður undirbúningur áður en ráðist yrði í meiri háttar verkefni af þeim toga sem hér um ræðir. Í þeirri athugasemd fólst engin yfirlýsing um það að hjá Landgræðslu ríkisins væri ekki unnið skipulega að undirbúningi slíkra framkvæmda.
    Frv. þetta felur í sér nákvæmari markmiðslýsingu en nú er í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Eru með frv. tekin af öll tvímæli um að lögunum sé ætlað að tryggja að með mati á umhverfisáhrifum sé komið í veg fyrir umhverfisspjöll. Til samræmis eru gerðar breytingar á 4. og 6. gr. laganna þannig að í stað þess að miðað sé við umtalsverð áhrif á umhverfi er lagt til að miðað verði við umtalsverða röskun og spjöll.
    Enn fremur eru gerðar breytingar á 1., 4. og 6. gr. laganna í þá veru að kveðið er á um að meta skuli hugsanlegan skaða á umhverfi, náttúruauðlindum eða samfélagi, þ.e. að það nægi að framkvæmdir hafi neikvæð áhrif á einhvern einn þessara þátta en ekki á alla þrjá þættina eins og orðalag gildandi laga gefur tilefni til að álykta.
    Loks er lagt til að bætt verði við 6. gr. laganna nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli rökstyðja ákvörðun sína um að framkvæmdir skulu háðar umhverfismati þannig að skýrt komi fram forsendur fyrir því að talin sé þörf á matinu. Talin er full þörf á að kveða sérstaklega á um þetta atriði þar sem um verulega íþyngjandi ákvarðanir er að ræða en ákvæði 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um rökstuðning, eru hér til fyllingar eftir því sem við getur átt.
    Ég vil taka fram virðulegi forseti, að af hálfu umhvn. Alþingis var lögð áhersla á að varlega yrði farið í framkvæmd laganna. Við vinnslu málsins í umhvn. Alþingis var raunar sú ákvörðun tekin að gera enn harðari kröfur um það hvaða framkvæmdir skyldu ganga sjálfkrafa í mat á umhverfisáhrifum en tilskipun um þetta sama efni frá Evrópusambandinu gaf tilefni til. Gerður var þrengri rammi um þessi lög en annars staðar gildir. Var það gert í þeirri trú að náttúra Íslands væri að mörgu leyti viðkvæmari fyrir röskun en gerðist í Evrópu.
    Hins vegar blandaðist aldrei hugur um það af hálfu nokkurs þingmanns að ég tel að lagasetningin beindist fyrst og fremst að þeim aðgerðum sem væru líklegar til þess að valda spjöllum á umhverfinu en lagasetningin var ekki gerð til þess að hindra framkvæmdir sem slíkar eða breytingar sem gætu hlotist af framkvæmdum.
    Einnig er rétt að geta þess að við umfjöllun Alþingis um frv. til laga um umhverfismat, sem svo hét þegar frv. var lagt fram fyrst, voru felldar úr 2. gr. frv. skilgreiningar á hugtökum, m.a. skilgreining á hugtakinu framkvæmd. Þar stóð svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Framkvæmd er gerð bygginga og annarra mannvirkja, svo og breytingar á þeim eða viðbætur, landröskun og vinnsla jarðefna.``
    Þessi lýsing á framkvæmdum er með þeim hætti að ekki er hægt að gera ráð fyrir því ef hún hefði staðið óbreytt að landgræðslu- og skógræktaráform flokkuðust undir þessar framkvæmdir. Skilgreiningin var hins vegar felld niður, ekki vegna þess að ástæða þætti til þess að fella hana niður til þess að víkka út gildissvið laganna, heldur voru nefndarmenn sammála um að þessi skilgreining ásamt nokkrum öðrum væri óþörf því að augljóst væri við hvað væri átt. Skýrleiki lagatextans nægði í þessu tilfelli.
    Ljóst er að markmiðsgrein laganna ásamt þeirri breytingu sem gerð var að tilhlutan hv. umhvn. Alþingis hafa valdið því að þessum lögum hefur verið beitt á landgræðsluverkefni þó svo að það kæmi skýrt fram í umfjöllun umhvn. Alþingis að hún hafnaði því að þessi verkefni ættu að vera föst verkefni laganna um mat á umhverfisáhrifum. Ég tel nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um þetta mál og legg því fram þetta frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum í þeirri trú að það geti orðið til þess að framkvæmd laganna verði skýr og óumdeild og þar með að meiri sátt verði um framkvæmd þessara laga

en komið hefur í ljós.