Mat á umhverfisáhrifum

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 18:19:48 (1524)


[18:19]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það að eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich benti réttilega á er um fleiri greinar að ræða en 3. gr. sem tekur til 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, þá hygg ég nú að það sé engu að síður 6. gr. eða 3. gr. þess frv. sem hér er til umræðu sem helst er átakspunktur vegna þeirrar heimildar sem ráðherra er þar veitt. Varðandi það að frekar eigi að líta á lögin um t.d. landgræðslu vil ég að það sjónarmið mitt komi á framfæri að ég held að það væri að vissu leyti rétt að færa umhvrn. ákveðið umsagnarvald a.m.k. yfir nýtingarráðuneytunum þar sem þar er um stóra hagsmuni að ræða, umhverfisáhrif. Þá er ég bæði að tala um landbúnað og sjávarútveg. Nú ber ég hag landbúnaðar og sjávarútvegs mjög fyrir brjósti en ég held að ef við tökum stærri hagsmuni fyrir hina minni þá muni það fyrst og fremst vera hin víða sýn umhverfismála sem þarf að ráða. Við getum síðan deilt um það hvenær um það er að ræða. En ég held að dæmin sanni að ýmislegt hefur verið gert með mjög góðri meiningu, bæði í skógrækt og landgræðslu sem við munum nú sjá eftir og ég vil sérstaklega tala um það að dæmin hræða varðandi lúpínuna sem við þekkjum mjög vel. Ég vil líka taka það fram að ég ætla mér ekki að sjá fyrir allar þær breytingar sem hafa getað orðið á náttúru landsins, t.d. með alfriðun á móti hóflegri beit. Ég er því ekki að setja mig í sæti guðs almáttugs í þessum málum heldur einungis að fjalla um þau mál sem hafa sannanlega verið í umræðu.