Mat á umhverfisáhrifum

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 18:22:09 (1525)


[18:22]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að meginbreyting frv. felist í breytingu á orðalagi 6. gr. sem er heimildargreinin. Ég held að það hafi líka komið skýrt fram í máli hennar áðan að meginbreytingin er orðalag á markmiðsgrein laganna en beiting heimildarákvæðisins, hv. þm., hlýtur að vera gerð í ljósi markmiðs laganna. Ef beiting heimildarákvæðisins er gerð án tillits til markmiðs laganna er heimildin ekki fyrir hendi. Heimildin hlýtur að þrengjast með markmiðsgrein laganna. Þetta er grundvallaratriði og ég er sannfærður um það að við nánari umhugsun kemst hv. þm. að því að í þessu tilliti hef ég rétt fyrir mér. Þess vegna er grundvallaratriði að hér er verið að leggja til orðalagsbreytingu á markmiðsgrein laganna til þess að fyrirbyggja misbrúkun á lögunum, mistúlkun og tvímæli.
    Í máli hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson kom fram að umhvrn. ætti að fá vald yfir svokölluðu nýtingarráðuneytunum en um þetta snýst einmitt deilan. Ég er þeirrar skoðunar að við rekum ekki umhverfisnefnd með einu miðstýrðu ráðuneyti sem ætlar sér að höndla þessi mál og vera með puttana á öllum öðrum aðilum. Þannig gerist þetta ekki og þannig hefur þetta hvergi gerst, hv. þm. Þvert á móti þurfum við að reka náttúruverndar- og umhverfismál með því að styrkja forsendur þess að hér sé umhverfissinnuð þjóð og að umhverfissjónarmið komi fram á öllum stigum ríkisvaldsins.