Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 13:34:47 (1531)

[13:34]
     Björk Jóhannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um nýtingu og markaðssetningu rekaviðar. Tillagan er 53. mál þessa þings og er á þskj. 53. Flutningsmenn tillögunnar eru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Ragnar Arnalds og Stefán Guðmundsson og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót starfshóp á vegum landbúnaðarráðuneytis til að gera tillögur um nýtingu rekaviðar og markaðssetningu afurða frá rekaviðarvinnslu. Starfshópurinn sé skipaður jafnt konum sem körlum. Þar eigi sæti m.a. fulltrúar frá bændasamtökunum og búnaðarráðunautar, sérfræðingar í markaðsmálum og aðilar frá samtökum iðnaðarins. Starfshópurinn skili niðurstöðum og tillögum fyrir 1. mars 1995.``
    Ein af þeim auðlindum sem náttúran gefur okkur í ríkum mæli er rekaviður sem rekur á fjörur. Talið er að fljótin í Síberíu beri rekaviðinn með sér út í Norður-Íshafið og þar nái hann aðalstraumnum frá Beringssundi sem stefnir að norðurheimskautinu, frjósi þar í ísnum og eftir um það bil þrjú ár losni hann á leiðinni milli Grænlands og Svalbarða eða síðar. Að þessum niðurstöðum hefur m.a. komist Norðmaðurinn Ívar Samset er hann rannsakaði rekavið á Ströndum í júlí 1990. Ástæða þess að Ívar hóf rannsóknir á viðnum var að hann frétti að bændur söfnuðu viðnum saman og söguðu eða nýttu á annan hátt.
    Rekaviður þykir endast mun lengur en innfluttur fúavarinn viður. Ástæðan er sú að á ferð sinni í sjónum sem tekur oft mörg ár síast sjávarseltan inn í viðinn og verður að fyrirtaks fúavörn. Þess vegna endast hlutir úr rekaviði mun lengur en hlutir úr öðrum viði.
    Reki taldist til mikilvægra hlunninda á árum áður og bændur notuðu hann gjarnan sem borgun fyrir vinnu eða vöru. Nú til dags er rekaviður helst notaður á býlum rekabændanna sjálfra sem eldiviður í girðingarstaura eða til smíði. Lengi vel gátu rekabændur selt viðinn í girðingarstaura, en samdráttur í hefðbundnum greinum landbúnaðar og þar af leiðandi minnkandi ræktun graslendis hefur haft það í för með sér að eftirspurnin er orðin sáralítil. Vegagerð ríkisins keypti lengi vel girðingarstaura af bændum, en því er nú svo til hætt.
    Rafvæðing á girðingum hefur líka átt sinn þátt í því að dregið hefur úr eftirspurn eftir rekastaurum, en þeir þykja ekki ákjósanlegir í rafmagnsgirðingar. Markaður fyrir þessa vöru hefur því nánast horfið. Þó held ég að allir geri sér grein fyrir að um verðmæti er að ræða sem ófært er að fari til spillis þó ekki sé nema út af því að vinnsla á rekaviði gæti skapað þó nokkur störf í landinu.
    Ekki þarf að orðlengja það að rekabændum er það fullljóst hve mikil verðmæti gætu legið í rekaviðnum, væri hægt að fullnýta hann. Oft hef ég setið og tekið þátt í umræðum um ótal möguleika á framleiðslu á hinu og þessu úr rekaviði, allt frá skrautnælum til heilla húsa. En allt ber að sama brunni. Markaðurinn er ekki til, hann þarf að vinna. Eigi að síður hefur heilmikið verið gert á undanförnum árum til að nýta viðinn því hugur er í bændum og mikill áhugi á þessu máli. Hér á eftir greini ég frá því helsta sem gert hefur verið og af upptalningunni má sjá að fjölbreytnin er mikil og greinilegt að margir aðilar hafa sýnt málinu áhuga.
    Í Þorpum í Steingrímsfirði er nýbyggt íbúðarhús sem eingöngu er byggt úr rekaviði, þ.e. í burðarvirki, útiklæðningu, gluggum og hurðum er heimaunnið efni af Þorparekanum sem löngu er orðinn landsfrægur fyrir góða umhiðru. Má það teljast mikið þrekvirki í dag að saga svo til allt timbur sem þarf í heilt íbúðarhús með þeim verkfærum sem venjulegur rekabóndi hefur, því að oft eru sagirnar ekki mjög nákvæmar. Íbúðarhúsið hefur hlotið mikla athygli sem vonlegt er, því þarna geta menn barið augum einn þeirra fjölmörgu möguleika sem rekaviðurinn hefur og gefur þetta verk bændum nýja von um nýtingu á þessari auðlind. Hugmyndir eru uppi innan Fjórðungssambands Vestfirðinga um að hrinda af stað verkefni um nýtingu á rekavið til smíði á sumarhúsum, smáhýsum, safnkössum og fleiru. Stjórn Fjórðungssambandsins íhugar að kaupa hönnun á sumarbústað til notkunar í þetta verkefni.
    Ferðamálasamtök Vestfjarða eru að hrinda af stað samkeppni um hönnun á leiktækjum úr rekaviði á tjaldstæði á Vestfjörðum. Þannig fá tjaldstæðin sérstakan svip sem markast af því hve rekaviðurinn er einkennandi fyrir svæðið. Þannig geta leiktækin bæði verið eins konar listaverk og minnt ferðamanninn á hve einkennandi rekinn er fyrir þetta landsvæði.
    Rekabændur í Árneshreppi á Ströndum hafa stofnað hlutafélag. Markmið þess er úrvinnsla og markaðssetning á rekavið. Hlutafélagið heitir Háireki hf. og keypti það sögunarstöð sem knúin er með aflúrtaki úr dráttarvél. Hún er þannig hönnuð að einn maður getur auðveldlega stjórnað allri vinnslu ef aðrir sjá um að flytja efni til og frá vélinni. Auk þess að ætla sér að saga sitt eigið timbur ætla félagar í hlutafélaginu að bjóða öðrum rekabændum að saga fyrir þá gegn greiðslu því að sögin hefur þann ágæta kost að vera færanleg á milli staða. Eftir því sem ég best veit verður sögin í vinnslu í allan vetur.
    Ung bændahjón í Kirkjubólshreppi í Strandasýslu hafa keypt sér viðarkurlara til að kurla niður úrgangsvið sem til fellur og gera úr honum verðmæti. Kurl af þessu tagi er hægt að nota til margra hluta, t.d. sem ofanálag í göngustíga og trjábeð. Einnig er hægt að nota kurlið til upphitunar en víða í Strandasýslu hafa bændur keypt sér katla sem brenna úrgangi og viði til að minnka upphitunarkostnað sem er mjög mikill á þessu svæði. Kurlarinn kostaði 350 þús. kr. og er um heilmikið átak að ræða hjá fólki sem hefur þurft að horfast í augu við minnkandi tekjur og skerðingu á framleiðslu sinni. Af þessu má sjá að sjálfsbjargarviðleitnin hjá bændum er mikil þrátt fyrir aðgerðir stjórnarvalda í flötum niðurskurði á framleiðslu þeirra.
    Byggðastofnun veitti styrk nú nýlega til hönnunar á garðhúsgögnum úr rekaviði og stáli sem Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt og vélsmiðjan 3X-stál hyggjast smíða. Þar gætu opnast fleiri möguleikar á nýtingu ef markaður vinnst. Ekki má gleyma því að listafólk hefur óþrjótandi hugmyndir um alls kyns listmuni sem hægt væri að framleiða úr rekaviðnum. Það ættu að vera miklir möguleikar á því að listmunir úr rekaviði seldust því að hann er svo einkennandi fyrir Strandirnar.
    Handverkshópar skjóta nú alls staðar upp kollinum með konur í broddi fylkingar og er þar um merkilega þróun að ræða sem gæti skilað litlum samfélögum dýrmætri reynslu á sviði markaðsmála og framleiðslu. Við skulum nefnilega vara okkur á því að gera lítið úr því smáa því þar leynist oft sá vaxtarbroddur sem skilar sér til framtíðarinnar. Búnaðarsamband Strandamanna hefur leitað eftir aðstoð Búnaðarfélags Íslands til þess að hanna tölvuforrit sem hefði að geyma allar upplýsingar um það timbur sem bændur í Strandasýslu ættu, tegundir timburs og aðrar þess háttar upplýsingar sem kaupandanum nýtast. Þá væri hægt að saga það timbur sem markaðurinn vildi. Kaupandinn gæti athugað það sem í boði væri og hvar það fengist og þannig sparað kostnaðarsaman akstur með timbur og borgun milliliða.
    Virðulegi forseti. Af fyrrgreindum atriðum má ljóst vera að mikil þörf er fyrir aðstoð við uppbyggingu á markaði fyrir afurðir unnar úr rekaviði. Margir aðilar hafa unnið mikið starf nú þegar við að efla nýtingu á þessari auðlind sem hefur verið vannýtt svo lengi okkur öllum til vansa. Með framkvæmd þessarar tillögu getum við aukið atvinnu í landinu og nýtt auðlind sem náttúran gaf okkur.
    Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. landbn.