Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 13:50:55 (1533)


[13:50]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi láta í ljósi stuðning minn við þetta mál og lýsa yfir ánægju minni með að þessi till. til þál. skuli koma til umræðu. Ég held að hér sé á ferðinni mjög athyglisvert mál. Eflaust má alltaf deila fram og til baka um það form sem er á þessari tillögu, hvort nefndaskipunin skuli vera með þeim hætti sem hér er verið að leggja til o.s.frv. og hvort raunhæft sé að nefndin geti lokið störfum 1. mars á næsta ári. Þetta eru hins vegar aukaatriði sem við eigum að ræða í hv. landbn. en aðalatriði málsins finnst mér vera sú hugsun að leggja til atlögu við það að reyna að nýta sem best rekaviðinn og þessar auðlindir sem við höfum sem rekaviðurinn er vissulega einn hluti af. Þetta er auðlind sem við höfum því miður ekki getað nýtt með þeim hætti sem æskilegt hefði verið.
    Það er rétt sem kom fram í máli hv. frsm. áðan að aðstæður hafa breyst mjög mikið hjá rekaviðarbændum. Hér á árum áður var tiltölulega blómlegur markaður fyrir girðingarstaura og ýmis efni líka fyrir Vegagerð ríkisins en þetta hefur allt saman verið að breytast, bæði vegna rafvæðingar í girðingum og eins vegna þess að Vegagerðin er núna farin að nota önnur efni, þá hefur þetta allt saman breyst. Möguleikar manna til þess að koma afurðunum á markað eru því miður orðnir lakari heldur en áður.
    Það er líka rétt sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði áðan að kostnaðarsamasti hlutinn af þessu máli er það að nýta rekann víða. Víða rekur viðinn á fjörur þar sem erfitt er að komast að honum með tækjum og menn þurfa oft og tíðum í mikilli vosbúð að ná í þennan við þannig að þetta er ekkert einfalt mál. Þess vegna er það mjög þakkarvert að það skuli þó vera þannig að bændur, þar sem þannig háttar til, skuli nýta rekann og maður verður var við það núna upp á síðkastið að það er vaxandi áhugi á þessu máli. Kannski á það hérna við að neyðin hafi kennt naktri konu að spinna og að það hefur verið að þrengjast um í sveitum landsins og þrengjast um á vinnumarkaðnum í landinu sem hefur gert það að verkum að við erum farin að horfa á hluti sem áður voru ekki taldir mjög skynsamlegir. Ég held að allt um það sé það ómótmælanlegt að það er vaxandi áhugi á því að nýta rekaviðinn betur og til annarra hluta heldur en gert hefur verið.
    Ég get t.d. nefnt sem dæmi að norður í Árneshreppi hafa bændur nú þegar tekið við sér og þegar landbn. Alþingis var á ferðinni þar í sumar þá sáum við ákaflega skemmtileg vinnubrögð í nýrri sög sem menn þar höfðu keypt til þess að saga niður rekaviðinn og það er greinilegt að möguleikarnir með þessari nýju tækni sem verið er að innleiða með þessum nýju verkfærum eru allt aðrir en þeir voru. Þetta verkfæri sem við skoðuðum í sumar var finnsk vél sem ekki hafði áður verið flutt til landsins og þar var einfaldlega verið að innleiða nýja tækni og möguleika á því að vinna úr miklu grófara og erfiðara efni, borðvið og hvers konar við, sem örugglega er hægt að finna markað fyrir.
    Hér hefur verið mjög mikið rætt um möguleikann á því að nýta rekaviðinn til hvers konar handverksframleiðslu. Ég er sammála því að það er allt hið besta mál og mjög áhugavert að gera það og kannski er virðisaukinn í þeirri framleiðslu meiri heldur en í öðru. En engu að síður skulum við hafa það í huga og gera okkur það ljóst að við erum að tala um gríðarlega mikið magn af rekavið sem við verðum að finna markað fyrir. Þegar við erum að tala um það þá dugar ekki smálegur handiðnaður í þeim efnum, við verðum væntanlega að finna markaði sem henta til þess að taka á móti svona miklu magni. Borðvirður t.d. af ýmsu tagi, byggingarefni í hús og fleira af því taginu eru hlutir sem við hljótum sérstaklega að horfa á.
    Það kom fram líka í þessari ferð landbn. norður í Árneshrepp, svo ég enn nefni þessa merku og eftirminnilegu ferð, að bændur höfðu þegar náð nokkrum markaði fyrir þennan við sinn sem parketefni í stássstofum suður í Reykjavík og víðar og þetta virtist vera a.m.k. markaður sem sannarlega væri til staðar. Ég held að það sem er kannski eftirtektarverðast við þetta sé að vegna sérstöðu efnisins þá gætum við hugsanlega verið að tala um viðbótarmarkað sem ekki hafi verið hægt að sinna fram að þessu. Fólk mun auðvitað sækjast eftir því að nota við af þessu taginu umfram eitthvað annað. Ég tek sem dæmi um þetta eða til hliðsjónar af þessu að það er líka markaður fyrir t.d. sérvaldar íslenskar trjávörur vegna sérstöðunnar. Ekki vegna þess að menn eigi ekki þess kost að fá efni í parket eða veggi eða eitthvað annað, panel eða eitthvað annað, heldur vegna þess að þetta efni hefur ákveðna sérstöðu.
    Ég held að við séum núna kannski að upplifa ákveðna viðhorfsbreytingu og menn séu að átta sig á því að mögleikarnir í þessum efnum séu meiri heldur en við hugðum í upphafi.
    Ég ræddi við bónda sem er nú þegar að vinna úr þessum rekavið og hann hefur vakið athygli á því að e.t.v. væri hér líka kominn kjörinn vettvangur fyrir unglinga og börn úr þéttbýli til þess að kynnast nýjum háttum og nýju umhverfi. Hann sagði sem svo að kannski væri hér kjörið tækifæri til þess að skapa unglingum og börnum landsins möguleika á tímabundnu starfi við það að fá að kynnast því að nýta þennan við.
    Ég nefndi áðan ýmsar nýjar hugmyndir og ég get getið þess líka að mér er kunnugt um það að menn sem núna vilja efla nýtingu á rekavið hafa þegar aflað markaðar fyrir þennan rekavið í álverinu í Straumsvík sem yrði þá nýr markaður. Ég kann ekki fyllilega skil á hvernig þessi viður nýtist þar en þar mun vera um að ræða einhvers konar niðursagaða kubba sem nýtast við uppstöflun á álinu sem áður þurfti að kaupa einhvers staðar annars staðar frá. Hér er um að ræða ýmsa möguleika af þessu taginu og ég held að við finnum ekki neina eina allsherjarlausn.
    En aðalatriðið er sem sagt það að ég held að það sé rétt sem fram kemur í þessari þáltill. að það er þess virði að reyna að finna nýja markaði fyrir þessa afurð, líka vegna þess að hér kann að vera um að ræða eitthvert svar, ekki fullnægjandi svar, en svar við þeim minni tekjum sem hafa orðið í sveitum landsins. Víða þar sem svo háttar til að við rekur á land hefur þetta komið mjög harkalega niður, t.d. norður í Árneshreppi þar sem menn geta nánast ekki búið að neinu öðru en sauðfjárrækt og því miður hefur það verið svo að þar hafa menn fengið á sig eins og annars staðar þessa miklu skerðingu þrátt fyrir að sjálfsagt sé sú sveit hvað verst undir flatan niðurskurð í sauðfjárræktinni búin. Þarna kann að vera um að ræða lið í því að efla aftur tekjurnar í þessu byggðarlagi.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að þetta mál fái vandaða og góða meðferð og hv. landbn. taki það til efnislegrar umfjöllunar. Ég vil segja fyrir mína parta að ég er ákaflega jákvæður fyrir þeirri hugmynd sem hér býr að baki. Ég tel að það þurfi kannski að skoða ýmsar hliðar þessa máls en allt að því tel ég að aðalatriðið sé það að að þessu máli sé unnið og það verði gert innan tíðar.