Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 13:59:26 (1534)


[13:59]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta mál, eindregnum stuðningi raunar, vegna þess að það hefur ekki farið fram hjá neinum að það hefur verið sorglegt að sjá þessi miklu verðmæti liggja um allar Strandir og víðar á landinu, ónotaðan viðinn. Margt af þessu er eins og menn vita miklu betri viður en við eigum kost á annars staðar, eðalviður oft og tíðum. Mér finnst mjög þakkarvert að þessi tillaga skuli fram komin og vil endilega fara fram á það við hv. landbn. að þetta mál verði tekið alvarlega. Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að tækni hefur fleygt mjög fram í því erfiða verkefni að safna rekanum, sem er auðvitað töluvert snúið á okkar löngu strandlengjum. En eins og kemur hér fram í grein Brynjólfs Sæmundssonar sem fylgir með tillögunni sem fylgiskjal þá er greinilega miklu auðveldara um vik að framkvæma þetta verk núna. Menn hafa reyndar á síðustu áratugum í vaxandi mæli notað reka er mér kunnugt um á Ströndum til húshitunar og eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vestf. hefur álverið í Straumsvík keypt dálítið af viðarkubbum. En hér er um að ræða mjög fallegan við og sérstæðan og ég held að við megum ekki gleyma þeim þætti. Það mætti t.d. við vinnslu málsins benda opinberum aðilum á það sem kaupa dýrar klæðningar víða að úr heiminum í opinberar byggingar af öllu tagi að það mætti líta til þessa efniviðar sem við höfum hér liggjandi við strendur landsins.
    Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessa umræðu. Ég vil fagna þessari tillögu eins og ég gerði að ég hygg þegar hún var flutt fyrst á 117. þingi og fara fram á að þetta mál hljóti afgreiðslu á þessu þingi.