Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:01:52 (1535)


[14:01]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og flm. og frsm. fyrir að hafa hreyft þessu máli hér í þinginu. Það vill nú svo til eins og reyndar kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vestf. sem talaði fyrr í þessari umræðu að landbn. hefur kynnt sér þessi mál nokkuð og m.a. í eftirminnilegri ferð norður á Strandir síðasta sumar. Þar var okkur sýnd þessi nýja sög og reyndar höfum við séð fleiri af sama toga. Það er auðvitað grundvallaratriði í þessum efnum að það sé hægt að beita tækjum við vinnsluna því svo kemur það þá frekar í hlut annarra að leggja fram hugvit við að nýta þessa afurð. Það vill svo til að fyrir stuttu síðan afgreiddi Byggðastofnun ofurlitla stuðningsstyrki við tvær slíkar sagir að ég hygg sem einmitt eru til notkunar á þessum slóðum.
    Það verður hins vegar að segjast eins og er að mér hefur fundist það varðandi stuðning frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins við verkefni af þessum toga, þ.e. sagir, stórviðarsagir til að nýta rekavið, að það hafi verið nokkuð þungt fyrir fæti að sækja þangað stuðning. Því það gefur náttúrlega auga leið að þegar verið er að þróa verkefni með sama hætti og hér er verið að stofna til og vinna upp markaði þá er miklum erfiðleikum háð að leggja í mikla fjárfestingu. Þessir styrkir voru að sjálfsögðu ekki háar upphæðir enda vita það sjálfsagt allir hv. þm. að Byggðastofnun hefur ekki úr miklu að spila til slíkra verkefna en hún vildi hins vegar sýna viljann í verki að því er varðaði stuðning við þetta starf.
    Mér finnst vert að geta þess við þessa umræðu að trjávinnsla er í rauninni hafin úr íslenskum skógum eða íslenskum skógi austur á Hallormsstað. Þangað hefur verið keypt fullkomin sög til vinnslu á þessum íslenska skógi og þar hefur að því er ég hygg verið gengið frá sölu á tilteknu magni til ákveðinna verkefna austur á Egilsstöðum sem verða að sjálfsögðu sérstæð að því er varðar þennan þátt mála. Mér finnst líka rétt að það komi fram við þessa umræðu að landbrh. hefur skipað sérstaka nefnd til þess að fjalla um nýtingu og vinnslu á íslenskum trjávið. Ég hygg að það væri góður kostur fyrir landbn. þegar hún kemur til með að fjalla um þetta málefni að fá upplýsingar frá þessu nefndarstarfi. Vera má að það geti orðið til stuðnings við að þoka þessu máli áleiðis.
    Ég tek undir það sem hefur komið fram að hér er um mikilvæg verðmæti að ræða. Umræðan sýnir það að menn halda tryggð við það sem landið gefur þeim og sjórinn og það er gott til þess að hugsa að mönnum þyki þessi vara verðmætari vegna þess hvernig hún er til komin, unnin hér á landi, fremur en að vera flutt frá öðrum þjóðum. Ég get fullvissað hv. 14. þm. Reykv. um að eins og með önnur alvörumál þá mun landbn. taka þetta mál til umræðu með þeim góða ásetningi að geta orðið því að liði.