Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:11:18 (1537)


[14:11]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir ræðumenn hér, þakka fyrir flutning þessar tillögu og ætla að reyna að endurtaka ekki það sem nefnt hefur verið henni til ágætis. Ég vil aðeins geta þess að það hefur verið veitt ráðgjöf í því að reyna að nýta þá auðlind sem rekaviðurinn er og hefur verið unnið að því af hálfu ráðunauta bæði hjá Búnaðarfélagi Íslands og búnaðarsamböndum eins og reyndar kemur fram í því að fskj. með tillögunni er umsögn eins ráðunauts Búnaðarsambandsins. En það sem þar var unnið að t.d. á síðustu árum var að kynna katla til þess að brenna úrgangsrekavið í sem ekki var hægt að nýta á annan hátt og þannig gátu menn sparað sér kostnað við aðkeypt upphitunarefni.
    Það er að sjálfsögðu mikilvægt að reyna að nýta þessa auðlind ekki aðeins til þess að skapa atvinnu, sem ég vil sterklega taka undir að er mjög mikilvægt, heldur líka að reyna að koma í veg fyrir að þessi verðmæti fari til einskis. Við hljótum að verða að huga að því á öllum sviðum hvernig við nýtum verðmætin og þá ekki síst þau sem eru takmörkuð í heiminum eins og timbur. Það ætti líka að vera metnaður okkar að vinna vel að því. Og þá kemur hin hliðin sem ég vildi minnast á, þ.e. að að sjálfsögðu er það lýti á landinu sums staðar þar sem mikið er af timbri sem verður þá að rusli á fjörunum. En nú er einmitt að hefjast átak í því skyni að reyna að hreinsa fjörur og strendur vatna til landsins. Ungmennafélag Íslands er að fara af stað með átak í því efni og leitar eftir stuðningi annarra félagasamtaka í landinu til þess að reyna að halda landinu hreinu. Að sjálfsögðu er það auðveldara ef samfara því að hreinsa landið gæti fylgt nýting og margföld verðmætasköpun.