Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:14:49 (1538)


[14:14]
     Björk Jóhannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir góðar undirtektir við tillöguna um nýtingu og markaðssetningu rekaviðar. Ég vil þakka fyrir ábendingar og ítreka að bændur binda miklar vonir við að úrbætur verði á markaðsmálunum því að nýir nýtingarmöguleikar gætu fylgt í kjölfarið á nýjum mörkuðum og þar af leiðandi skapað ný störf.
    Hv. þm. Guðmundur Bjarnason minntist á að mikill kostnaður væri samfara því að safna viðnum saman. Bændur hafa leyst það að einhverju leyti með því að kaupa þessa sögunarstöð sem er færanleg á milli staða þannig að það auðveldar málið að einhverju leyti.
    En ég vil leggja áherslu á að hugmyndir um nýtingu eru nú þegar mjög margar komnar í framkvæmd en þær eru háðar markaði og á þeim vettvangi þarf að gera átak.