Flottroll og karfaveiðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:09:15 (1546)


[15:09]
     Guðni Ágústsson :
    Frú forseti. Hæstv. sjútvrh., Sjálfstfl. og Alþfl. bera fulla ábyrgð á því að búið er að þrengja og skekkja kvótakerfið sem stjórntæki í sjávarútvegi. Framsalsrétturinn hefur verið þrengdur, hagkvæmustu fiskiskipin eru að fara í úreldingu. Það er verið að þurrka upp vertíðarbátana, þeir eru að hverfa úr flotanum þar sem ég best þekki til eins og í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Það vantar fiskvinnslustefnu og virka friðunarstefnu. Þjóðhagsleg hagkvæmni verður að ráða ferðinni því að þjóðin á auðlindina. Sem dæmi: Grandi og Samherji eiga svipaðan kvóta. Grandi veltir 3,3 milljörðum og skaffar 400 ársstörf. Samherji veltir 2,1 milljarði, en skaffar aðeins 120 ársstörf. Stefnan má ekki bara snúast um hlutabréf fárra manna. Hún verður að snúast um mikilvægari markmið. Eru stórvirk fiskiskip komin inn á grunn og grunnsævi á viðkvæmum tíma að þurrka upp orange- og gullkarfa og er það rétt að þessi skip og flottrollið strádrepi smákarfa sem síðan er hent aftur í sjóinn? Það eru alvarlegar fullyrðingar í blaðinu Fréttum í Vestmannaeyjum. Þetta er alvarlegt ef satt er. Ég verð að segja það, hæstv. sjútvrh. Bóndinn hleypir ekki slátraranum inn í fjárhúsið á fengitímanum eða í sauðburðinum á vorin. Tilhugalífið í sjónum verður að eiga sér griðland, leikurinn verður alltaf ójafnari með stórvirkari veiðarfærum. Það er keyrt yfir öll svæði og fiskur tekinn alls staðar.
    Menn bönnuðu þorsknót á sínum tíma. Flottroll er kannski ekki síður hættulegt. Alla vega ber að skipuleggja vel hvar það er notað og sé staðan svo alvarleg eins og hv. þm. Árni Johnsen fullyrti, að þeir skipstjórar sem hafa hatað flottrollið gera það nú í einhverri samkeppni til að vera með í leiknum en vita hversu veiðarfærið er hættulegt, þá er þetta alvarleg ásökun á hendur íslenskum skipstjórum og sjómönnum sem er ekkert grín. Ég hvet þess vegna hæstv. sjútvrh. til þess að kanna þetta vel og jafnframt að fara vel yfir það hvernig þrenging stefnunnar er að leika sjávarútveginn á Íslandi.