Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:38:28 (1556)


[15:38]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og þó það liggi í hlutarins eðli að við leysum ekki kjaradeilur hér á Alþingi þá er það jafnljóst að verkfall sjúkraliða er m.a. afleiðing þeirrar stjórnarstefnu sem hefur verið rekin. Afleiðing þeirrar stefnu sem rekin er í launamálum og afleiðing þessa handahófskennda niðurskurðar sem verið hefur í heilbrigðiskerfinu. Það er því fullkomlega eðlilegt að við tökum þetta mál til umræðu hér og hvetjum til þess að deilan verði leidd til lykta sem allra fyrst, því eins og fram hefur komið þá gegna sjúkraliðar mikilvægu og krefjandi starfi í heilbrigðiskerfinu, bæði inni á sjúkrastofnunum en einnig og ekki síður í heimahúsum. Störf þeirra hafa gert það að verkum að stór hópur sjúklinga getur nú dvalið í heimahúsum og það er ekki lítils virði fyrir hvern einstakling að geta verið sem lengst heima hjá sér. Þá er heimaþjónustan ekki síður mikilvæg ef horft er til þeirra biðlista sem eru eftir plássi á sjúkra- og dvalarheimilum. Þeir sem vinna við heimahjúkrun vinna oft við mjög erfiðar aðstæður en sinna sjúklingum af alúð. Í mörgum tilvikum er ekki eingöngu um líkamleg veikindi að ræða heldur einnig þörf einstaklings fyrir félagsskap.
    Helmingur stöðugilda í heimahjúkrun á vegum heilsuverndarstöðvar eru stöðugildi sjúkraliða og þannig er það hjá flestum þeim stofnunum sem gegna sama hlutverki. Þjónusta í heimahúsum skerðist í verkfallinu um 50%. Ástandið er alvarlegt og verður verra og verra eftir því sem verkfallið stendur lengur.
    Virðulegi forseti. Konur voru eitt sinn hvattar til að ná sér í aukna menntun. Það átti að verða vísasti vegurinn til betri launakjara og aukins jafnréttis milli kynja. Því miður hefur þetta ekki gengið eftir. Þessi svokölluðu hefðbundnu kvennastörf eru enn flest láglaunastörf. Starf sjúkraliða er dæmigert fyrir þetta. Þrátt fyrir auknar menntunarkröfur og sífellt ábyrgðarmeiri störf eru launakjör þeirra okkur til skammar.