Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:46:32 (1560)

[15:46]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Í hvítbók ríkisstjórnarinnar segir á bls. 19 að endurskoðuð skuli frá grunni lög um starfsmanna- og kjaramál ríkisins og skilgreind á ný réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað langt þessari vinnu sé komið.
    Það sýnir virðinguna fyrir þessum stéttum sem nú eru að stríða í verkfalli að báðir hæstv. ráðherrar sem málið varða eru erlendis. Ég vona að þeir spyrji kollega sína í Tromsö hvað sjúkraliði hafi í byrjunarlaun í Noregi. Hafi þeir gleymt því þá eru það ekki 56.000 kr. eins og hér heldur rúmar 130.000 kr. í byrjunarlaun. Ég vænti þess að þeir fái þessar upplýsingar þar.
    Annað er að ekki er nú meiri áhugi á þessu máli en svo að ekki er talið svara kostnaði að skipa ríkissáttasemjara og er ég nú þar með ekki að vantreysta virðulegum vararíkissáttasemjara. Ekki væri

kannski verra að í það embætti væri skipað.
    Sannleikurinn er sá að hér er um að ræða aðeins einn þátt af mörgum í samfélaginu þar sem laun og þá sérstaklega kvennastéttanna eru undir öllu velsæmi. Það er ekki hægt að greiða nokkurri manneskju 56.000 kr. á mánuði --- og nú sé ég á svipnum á hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni --- ég man ekki númer hvað hann er, það gerir ekkert til ég hef svo lítinn tíma --- ( Gripið fram í: 3. þm. Reykv.) en ég veit að hann veit að það eru til verr launaðar stéttir og á ég þá við verslunarfólk sem er undir 50.000 kr. á mánuði. En við þetta verður auðvitað ekki unað, hæstv. forseti, það verður gerð uppreisn í þjóðfélaginu innan tíðar. Það er ekki hægt að lifa af þessum launum. Ég fæ ekki betur séð en öll störf sem eru til einhvers gagns í samfélaginu leggist af en þeir sitji eftir sem minnst gagnið gera.