Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:48:56 (1562)


[15:48]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Verkfall sjúkraliða hefur haft víðtæk áhrif á starfsemi sjúkrastofnana í Reykjavík. Sjúkrahúsin hafa á undanförnum árum þurft að draga saman starfsemi sína með lokun deilda og með því að halda úti lágmarksmannafla til umönnunar sjúklinga. Það gefur því auga leið að álag á starfsmönnum sjúkrahúsanna var þegar orðið gífurlegt fyrir verkfall sjúkraliða. En verkfall sjúkraliða bitnar mest á öldrunar- og langtímaþjónustu þar sem sjúkraliðar eru flestir enda nýtast kraftar þeirra þar best. Þessar deildir eru líka einna viðkvæmastar þar sem þar liggja sjúklingar sem eru meira eða minna ósjálfbjarga og þarf bæði að mata og þrífa. Þessir sjúklingar fylgjast glöggt með störfum sjúkraliða og hafa á undanförnum dögum borið vitni í fjölmiðlum um það álag sem er á sjúkraliðum.
    Starfsemi sjúkrahúsanna er nú sinnt þannig að mannafli er að nálgast að vera fyrir neðan lágmark. Það er því nauðsynlegt að sjúkraliðar og stjórnendur spítalanna komi sér sem fyrst saman um þær undanþágur sem eiga að gilda meðan á verkfalli stendur sem vonandi verður sem skemmst.
    Launakerfi ríkisins býður opinberum starfsmönnum ekki upp á neitt sældarlíf. Sjúkraliðar eru þar síst undanskildir miðað við það vinnuálag og þá ábyrgð sem þeir axla. Ég vil því ítreka þá skoðun mína hér á Alþingi að nauðsynlegt sé að endurskoða launakerfi ríkisins þannig að laun endurspegli vinnuframlag og ábyrgð hvers einstaks starfsmanns. Ég vil einnig hvetja deiluaðila til að ganga til samninga sem allra fyrst, bæði með því að sjúkraliðar leggi fram gagntilboð við tilboði samninganefndar ríkisins og ríkisvaldið skoði það tilboð með jákvæðum huga því verkfallinu verður að linna.