Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:51:14 (1563)




[15:51]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og hversu vel hefur verið tekið undir mál mitt af öllum aðilum raunar og þar er hæstv. starfandi fjmrh. ekki undanskilinn. En ég tel að sú staðreynd að aðeins skuli hafa farið fram 29 fundir til sátta á þessu langa tímabili sé dálítið dæmi um það hversu lítið alvarlega kröfur sjúkraliða hafa verið teknar. Þetta var reginmisskilningur og er kannski farið að renna upp fyrir samningamönnum núna.
    Það var nefnt ósætti varðandi undanþágulista og að sjúkraliðar hefðu ekki mætt til vinnu samkvæmt undanþágulistunum. Ég verð að mótmæla því og segja að þeir hafi mætt eins og þeim fannst og þeir túlka að listarnir gefi tilefni til og þegar á þeim er brotið svara þeir kannski í þá mynt að ansa ekki þeim undanþágulistum sem ríkisvaldið álítur að þeir hafi löggilt.
    En eins og við vitum þá átti fyrir 1. febrúar sl. að gefa út undanþágulista. Sumir gerðu það og aðrir ekki og verða því að bíta í það súra epli núna að verða að sækja um undanþágu dag hvern ef þeir ætla að fá einhverja sjúkraliða til starfa.
    Það er siðferðilega erfitt að fara í verkfall fyrir heilbrigðisstéttir og sýnir hversu illa er komið, hversu langt er gengið og hversu langþreyttir sjúkraliðar eru orðnir að þeir skyldu grípa til þessa óyndisúrræðis sem það auðvitað er í sjálfu sér.
    Hingað til hafa yfirmanneskjur á stofnunum bjargað sér með yfirvinnu annarra starfsmanna sem tæpast getur talist heppileg aðferð og hjálp aðstandenda hefur einnig komið til og orðið til mikilla bóta en þreyta fer áreiðanlega að gera vart við sig innan örstutts tíma. Það er ekki nokkur efi á því. (Forseti hringir.) Ríkið greiðir (Forseti hringir.) --- virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu --- 70% sjúkraliða laun og ég tel að launahækkanir þær sem hugsanlega kæmu til framkvæmda mundu að 3 / 5 hlutum skila sér aftur í ríkiskassann í formi skatta og því um líks. (Forseti hringir.) Störf sem eru eins erfið og sjúkraliðar inna af hendi og eru þannig að fólk er orðið útkeyrt löngu áður en 8 stunda vinnudegi er lokið er þrældómur sem verður að linna. (Forseti hringir.) Mér sýnist að koma þurfi til bæði stytting vinnuvikunnar og hækkun launa. Ég skora á hæstv. ráðherra um leið og ég þakka honum þessa umræðu að sjá til þess að lausn finnist hið fyrsta.