Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 10:44:47 (1570)


[10:44]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. gat þess að hún væri ósátt við eitt tiltekið atriði sem aðrir hv. þm. hafa einnig lýst andstöðu við og það er hvernig ég hef lagt til að skipað verði í stjórn Landvörslunnar. Ég hef breytt frv. frá því í fyrra þegar gert var ráð fyrir að það yrðu tvær tilnefningar, annars vegar frá Náttúruverndarráði og hins vegar frá Ferðamálaráði. Það var mikil andstaða við það. Þess vegna féll ég frá því. En ég vil, vegna þeirrar andstöðu sem hefur komið fram, lýsa því alveg klárt yfir að þetta er mér ekki fast í hendi og það er alveg sjálfsagt að ræða þetta í umhvn. og breyta því ef mönnum sýnist svo, ef það mætti verða til þess að greiða fyrir þessu frv. Ég vil bara að þetta komi fram.