Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 10:45:52 (1571)


[10:45]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eitt af nokkrum mikilvægum frumvörpum sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram og varða umhverfisvernd og náttúruvernd. Það frv. sem hér um ræðir er eitt af þeim mikilvægari sem skapa þessum málaflokki ramma og ráða miklu um það í hvaða farveg náttúru- og umhverfisvernd fer á komandi árum og áratugum. Ég hef lýst því yfir úr þessum ræðustól og endurtek það hér og nú, að ég tel að umhverfisverndarmálum verði ekki komið í skynsamlegan og góðan farveg öðruvísi en okkur takist að rækta hér upp umhverfissinnaða þjóð. Það tekst ekki að stýra þessum málaflokki í trássi við fólkið í landinu með tilskipunum og miðstýringu, heldur tekst einungis að búa til lagaramma utan

um málaflokkinn og framfylgja okkar áhugamálum og áherslumálum í umhverfismálum ef fólkið er samferða stjórnvöldum. Að þessu leyti hygg ég að sé skynsamlegt að fjalla um þetta frv. í ljósi þess að hve miklu leyti það ýtir undir það að fólkið fylgi stjórnvöldunum og sátt geti náðst um þetta mál.
    Það eru mörg dæmi þess að einstaklingar og félagasamtök hafi á umliðnum áratugum haft bein og mikil afskipti af umhverfismálum. Vil ég nefna þar alveg sérstaklega skógræktarfélögin sem hafa starfað hér skipulega síðan 1930 og hafa tekið á þeim vanda, sem óneitanlega er aðalvandi íslenskra umhverfismála, en það er gróðureyðing landsins. Þessi samtök eru í eðli sínu grasrótarhreyfing. Þau eru sprottin upp úr samtakamætti einstaklinga sem hafa viljað bindast samtökum um það að koma miklum framkvæmdum í verk.
    Á tíðum hefur það háð þessum málaflokki að ekki hefur tekist sem skyldi að virkja þessi samtök með sameiginlegu átaki stjórnvalda og þessara samtaka. Um þessi mál gildir það sama að því er varðar þann málaflokk sem við erum að ræða hér nú, þ.e náttúruverndina yfirleitt, að það skiptir grundvallarmáli að ef samtök eru til í landinu sem eru á breiðum grundvelli með þann málaflokk á sinni stefnuskrá að sinna náttúruvernd í ýmiss konar mynd, þá leiti stjórnvöld leiða til þess að virkja slík samtök. Og ef stjórnvöld sjá til þess leiðir að ýta þá undir starfsemi og stofnun slíkra samtaka.
    Samtök af þessu tagi eru mörg starfandi hér á landi. Ég nefndi áðan skógræktarfélögin. Ýmiss konar áhugamannahópar hafa tekið að sér ákveðin landgræðsluverkefni og er það mjög jákvætt og verðugt viðfangsefni, en það eru einnig að verða til í landinu áhugamannasamtök sem hafa á blandaðri stefnuskrá sinni landgræðslumál, umhverfismál, skógræktarmál og raunar einnig útivistarmál almennt. Mörg skógræktarfélaganna hafa farið inn á þá braut að taka inn á sitt borð umhverfismál og útivistarmál, hafa sinnt þessu jöfnum höndum, skógræktarstarfinu, útivistarstarfi og umhverfismálum. Ég nefni sérstaklega í þessu sambandi tvö skógræktarfélög sem hafa löngum verið stærstu og mikilvirkustu skógræktarfélög landsins, þ.e. Skógræktarfélag Reykvíkinga og Skógræktarfélag Eyfirðinga.
    Hvort tveggja félagið hefur sinnt útivistar- og umhverfismálum með fjölbreytilegum hætti og nægir þar að geta sérstaklega um útivistarsvæðið í Kjarnaskógi við Akureyri, sem er orðið landsþekkt útivistarsvæði, en það svæði ræktaði Skógræktarfélag Eyfirðinga og gaf Akureyrarbæ og hefur verið verktaki þar síðan og skipulagt það svæði. Og ef það er eitthvað sem hefur virkilega ýtt undir skilning Akureyringa, hæstv. umhvrh., og Eyfirðinga á náttúruverndarmálum annars vegar og umhverfismálum og svo skógræktarmálum hins vegar og samspili þessara þátta, þá er það annars vegar starfsemi þessa félags og þar á meðal starfræksla útivistarsvæðisins í Kjarna og hins vegar sú staðreynd að skattborgarar þar í héraði, á Akureyri, kostuðu yfir aldarfjórðung stofnun, Náttúrufræðistofnun Norðurlands, sem var grunnvísindastofnun í náttúrufræðum. Þetta tvennt hefur orðið til þess að þar í héraði er almennur áhugi á umhverfismálum og náttúruverndarmálum sem kemur líka fram í starfsemi skógræktarfélagsins. Þessi áhugi hefur í mjög langan tíma, jafnvel fyrir stofnun skógræktarfélagsins, verið landlægur í Eyjafirði og má í raun og veru rekja til starfa Stefáns Stefánssonar, skólameistara í Möðruvallaskólanum og síðar í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem síðan óx upp í Menntaskólann á Akureyri.
    Það er því ljóst að stofnanir úti um landið sem sinna þessum málum, hvort sem um er að ræða félagasamtök eða ríkisstofnanir sem eru vísindastofnanir í eðli sínu, skapa í kringum sig viðhorf og viðmót til umhverfismála sem er grundvöllurinn fyrir því að lög um náttúruvernd geti fengið hljómgrunn hjá fólkinu og að hæstv. umhvrh., hið milda yfirvald, sem svo hefur skýrt sjálfan sig og ég vil taka hér undir, að ég tel að hann eigi skilið, geti stjórnað málaflokknum.
    Ég tel því að þetta frv., virðulegi forseti, sem hér er til umræðu í dag, þurfi að skoða sérstaklega með hliðsjón af því hvaða hljómgrunn það getur fengið meðal fólksins, hvernig það ýtir undir að heimaaðilar telji sig vera virka í umhverfismálum og finni til þess að það sem þeir leggja áherslu á, það sem skiptir þá máli, nái fram að ganga í tengslum við umhverfismálin.
    Ég taldi nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hafa þennan almenna inngang vegna þeirra athugasemda sem ég mun gera á eftir við þetta frv., en í stórum dráttum get ég þó lýst því yfir að frv. er til verulegra bóta miðað við þau lög sem nú gilda í landinu. Ég mun nú fara yfir einstaka þætti þessa frv. í þessari 1. umr. um málið og kem þá fyrst að þeirri breytingu sem samkvæmt frv. verður á starfsemi og eðli Náttúruverndarráðs.
    Svo hefur verið og er samkvæmt gildandi lögum að Náttúruverndarráð sinnir stjórnsýslu og starfar á ábyrgð ráðherra. Náttúruverndarráð hefur og ber ábyrgð gagnvart stefnu ríkisstjórnarinnar og á framkvæmd hennar og er rekið í umboði ráðherra og er fjármagnað úr ríkissjóði. Engu að síður er Náttúruverndarráð að verulegu leyti vettvangur frjálsra félagasamtaka. Þessi staðreynd, hvernig í ráðið er valið og svo hið raunverulega hlutverk ráðsins, sem er að sinna stjórnsýslu, er ekki skynsamleg ráðstöfun og gengur ekki nú, síst af öllu nú þegar sérstakt ráðuneyti umhverfismála fer með þennan málaflokk. Ég er því sammála því viðhorfi sem fram kemur í frv., að starfsemi ráðsins verði breytt og það verði gerður sjálfstæður aðili, en þó lögbundinn ráðgjafar- og umsagnaraðili á sviði náttúruverndar. Ég tel að það sé málaflokknum til styrktar að Náttúruverndarráð sé óháð ríkisvaldinu og geti virkað til aðhalds ríkisvaldinu og tel það eðlilegri skipan mála að öllu leyti.
    Þau verkefni flest sem eru með gildandi lögum fengin Náttúruverndarráði og flokkast undir stjórnsýslu flytjast ýmist til ráðherrans sjálfs eða ráðuneytisins eða sérstakrar stofnunar sem samkvæmt frv. heitir Landvarsla ríkisins. Að því er varðar Landvörsluna þá hef ég nokkrar athugasemdir fram að færa og er þar fyrst að nefna að Landvarsla ríkisins kemur mér fyrir sjónir sem nokkuð miðstýrt fyrirtæki. Það hefur samkvæmt frv. með stjórn þjóðgarða að gera. Þjóðgarðarnir eru eðli málsins samkvæmt landsvæði sem hafa sérstaka þýðingu og sérstakt gildi fyrir þjóðina í heild og eru þar af leiðandi undir stjórn ráðuneytisins. Engu að síður er það svo að inni á hverju landsvæði, sem þannig er markað sem þjóðgarður með lögum, koma fram verulegir hagsmunir heimamanna sem eðlilegt er að tekið sé tillit til. Það hefur komið upp oftar en einu sinni að hagsmunir heimamanna fara ekki fyllilega saman við hagsmuni þeirra sem fara með stjórn þessara svæða. Það hefur verið svo með Náttúruverndarráð og mun verða svo, að öllu óbreyttu, með Landvörslu ríkisins eins og hún er hér skilgreind.
    Ég tel því skynsamlegra að það verði tekið til athugunar þegar þetta frv. kemur til skoðunar í hv. umhvn. þingsins, hvort ekki væri ákjósanlegt að yfir hverjum þjóðgarði væri sérstök stjórn og heimamenn kæmu að þeirri stjórn. Þannig að þegar málefnum þjóðgarðsins er stýrt þá komi þar jöfnum höndum fram sjónarmið heimamanna, hagsmunamál þeirra og áhersluatriði, en jafnframt sjónarmið heildarinnar. Ég held að þessi skipan mála mundi ýta undir það að heimamenn sýndu málefnum þjóðgarðanna aukinn áhuga, tækju lifandi þátt í því starfi sem felst í að stýra þessum görðum og minna yrði um hagsmunaárekstra í meðferð þjóðgarðsmála heldur en verið hefur undanfarið.
    Ég vil ítreka það og beini þeirri spurningu til hæstv. umhvrh. hvort honum finnist ekki sjálfum koma til greina að setja sérstaka stjórn yfir hvern þjóðgarð þar sem sitji fulltrúar sem umhvrh. velur og fulltrúar heimamanna, sem gæti þá þeirra mála sem undir þjóðgarðinn heyra. Með þessu móti hygg ég að yrði fundinn farvegur fyrir þessi mál sem mundi ýta undir betra samstarf milli ráðherrans, sem fer með málaflokkinn, milli Landvörslunnar, sem er sú stofnun sem þjóðgarðarnir heyra undir samkvæmt frv. og heimaaðila, sem hafa mikilla hagsmuna að gæta, ekki bara hagsmuna sem væri hægt að lýsa sem andstæðum umhverfisvernd, heldur hafa þeir líka mikla hagsmuni af því að umhverfisverndin sjálf fari í ákveðna farvegi sem eru samrýmanlegir þeirra áhugamálum og hagsmunum.
    Þetta er, virðulegi forseti, aðalathugasemd mín varðandi þetta frv., en ég ætla einnig að koma á framfæri við þingheim nokkrum öðrum athugasemdum sem hafa minna vægi.
    Í d-lið 1. gr. frv., sem varðar 5. gr. laganna um náttúruvernd, segir með leyfi forseta: ,,Telji Landvarslan nauðsynlegt að halda uppi sérstöku eftirliti með framkvæmd, ber þeim sem framkvæmdina annast að endurgreiða stofnuninni kostnað sem hún hefur af slíku.``
    Hér er Landvörslunni falið mikið vald og ekki vel skilgreint hlutverk. Með þessum hætti gæti Landvarslan tekið sér ærið umsvifamikil völd og það vaknar sú spurning hvort ekki er nauðsynlegt að skilgreina betur hlutverk hennar í þessum frumvarpstexta. Það er nokkuð erfitt að gera ráð fyrir því að það sé farsæl lausn að Landvarslan geti framkvæmt eftirlit og lagt kostnað á framkvæmdaraðila án þess að nokkur sé dómbær á það hversu nauðsynlegt eftirlitið sé annar en Landvarslan sjálf.
    Í öðru lagi vil ég benda á j-lið 1. gr., sem varðar 11. gr. laganna, en þar segir: ,,Náttúruverndarráð skal skipað sjö mönnum kosnum óbundinni kosningu á náttúruverndarþingi. Annað hvert þing skal kjósa formann og varaformann ráðsins sérstaklega til fjögurra ára og tvo aðra ráðsmenn til sama tíma. Á öðrum þingum skal kjósa þrjá ráðsmenn til fjögurra ára.``
    Hér er farið inn á þá braut sem hefur orðið nokkuð algeng í félagastarfi á Íslandi á síðari árum og er satt best að segja ærið hæpin og snertir í raun og veru lýðræðislegan grundvöll félagastarfsemi. Ég tek sem dæmi félag sem ég hef haft mikil afskipti af, sem endurnýjar sína stjórn á þremur árum, sjö manna stjórn, tvo eitt árið, tvo annað árið og svo þrjá það þriðja. Þetta leiðir til þess að komi upp verulegur skoðanaágreiningur innan félags eins og þessa þá er það alltaf sami hópurinn sem velur þessa menn þannig að stjórnin endurspeglar alls ekki með lýðræðislegum hætti þá krafta sem eru að verki innan félagsins. Þannig er þessi aðferð, sem hefur nánast verið í tísku lengi, andlýðræðisleg og hún er ekki heldur nauðsynleg til þess að halda uppi einhvers konar þekkingu á félagsstörfum inni í stjórninni. Það geta menn að sjálfsögðu tryggt með öðrum hætti. En ég vil vekja athygli á þessu, þó að þetta sé kannski ekki mjög mikilvægt atriði, þá er þetta þó atriði sem full ástæða er til þess að hugleiða.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir fleiri atriði í þessu frv. Ég tel að það geti beðið þess að frv. fer í vinnslu í nefnd, en ætla að lokum að koma örfáum orðum að því sem hv. 3. þm. Norðurl. e. spjallaði um áðan í ræðu sinni og snerti landbrh. sem hv. þm. taldi að vildi hafa ófrið og stríð við umhvrn. og hafði nokkur frekar niðrandi orð um hæstv. landbrh. í þessu sambandi. Ég vil geta þess að þegar umhvrn. var sett á laggirnar á Íslandi þá komu fram mjög skiptar skoðanir um það með hvaða hætti slíkt umhvrn. ætti að starfa. Annars vegar kom upp sú hugmynd að umhvrn. ætti að vera eins konar yfirráðuneyti yfir öðrum málaflokkum, hafa um öll önnur mál að segja. Þessi skoðun er enn til á hinu háa Alþingi og kom m.a. skýrt í ljós í umræðum hér í gær um frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þeir sem þessari skoðun fylgja telja að það sé umhverfismálum til framdráttar að umhvrn. sé afar valdamikið ráðuneyti og hafi mjög mikið yfir öðrum málaflokkum að segja sem stjórnskipulega heyra þó undir önnur ráðuneyti.
    Sá sem hér stendur og raunar Sjálfstfl. voru þeirrar skoðunar að umhverfismál ættu að koma inn í öll ráðuneyti. Þegar umhvrn. var sett á laggirnar þá töldum við, sá sem hér stendur sérstaklega, að ástæða væri til að það ráðuneyti væri ekki þetta yfirráðuneyti annarra ráðuneyta sem margir vonuðust til að það

yrði. Að þessu leyti er mjög brýnt að undirstrika það að málaflokkar eins og landgræðsla og skógrækt eiga ekkert erindi inn í umhvrn. Það skiptir mjög miklu máli að bændastéttin í landinu líti á skógrækt og uppgræðslumál sem sín verkefni. Það er mjög brýnt að umhverfismálin komi sem áhersluatriði inn í landbrn. í samvinnu við bændur eins og það er líka mikilsvert að umhverfismálin komi með virkum hætti inn í menntmrn. en tök menntakerfisins á umhverfismálum skipta sköpum um viðhorf fólks almennt til þessa málaflokks.
    Hins vegar er ekki hægt að neita því að átök um þessi viðhorf hafa átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar og athugasemdir hafa komið fram hjá hæstv. landbrh. sem tengjast þessum átökum. Um það er ekkert annað en gott eitt að segja og sérkennilegt að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem er efnislega sammála landbrh. í þessum efnum, skuli vera að hnjóða í ráðherrann fyrir afstöðu hans. Ég vil því lýsa yfir samstöðu með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, 3. þm. Norðurl. e., um það að sá málaflokkur sem hún gerði sérstaklega að umræðuefni í þingræðu áðan, þ.e. skógræktarmálin og landgræðslumálin, verði í landbrn. Um þetta erum við hv. þm. sammála og þegar menn eru að fylkja liði til þess að fylgja einhverju máli eftir þá er best að kalla menn til samstöðu en ekki að skjóta á þá sem fylgja sama sjónarmiði. Ég held að í þessu máli fylli hæstv. landbrh. þann flokk sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var að fylla með ræðu sinni áðan, flokk þeirra sem vilja að landbrn. fari með málefni skógræktar og landgræðslu. Það er því engin ástæða til þess að láta þær raðir riðlast með óskynsamlegu tali úr þingstól.
    Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, og læt lokið umfjöllun minni um frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd.