Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 11:56:33 (1581)


[11:56]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í ræðu hæstv. umhvrh. komu fram hugleiðingar um það að e.t.v. væri eðlilegt að forleifavarslan í landinu færðist inn undir umhvrn. og tengist þá skipulagsstjórn ríkisins væntanlega með einhverjum hætti. Vegna þessa vil ég taka það fram að ég teldi það mjög miður ef í tengslum við umfjöllun um þetta frv. hér í þinginu yrði farið að taka á því máli og hrófla við tiltölulega nýjum þjóðminjalögum. Ég tel að það væri óvinafagnaður ef það yrði farið að brjóta Þjóðminjasafnið upp, taka fornleifaskráningu og fornleifavörslu frá Þjóðminjasafninu og færa t.d. til skipulagsstjórnar ríkisins. Ég tel það ekki æskilegt fyrirkomulag og tel að það megi vara sig á því að ríkisstofnanir, svo sem eins og Skipulag ríkisins, fari með of mikið vald og taki til sín of mikið af verkefnum sem e.t.v. stangast á. Það að skipuleggja land getur stangast á við fornleifavörslu. Það væri mjög óeðlilegt ef Skipulag ríkisins bæri ábyrgð á fornleifavörslunni og skipulegði land í andstöðu við nauðsynlega vörslu fornleifa og sinnti þess vegna ekki e.t.v. nauðsynlegri skyldu sem tengdist skráningu og vörslu fornminja án þess að aðrar stofnanir geti rönd við reist.
    Ég vildi að þetta kæmi fram, virðulegi forseti, við þessa umræðu en mér heyrðist sem betur fer að e.t.v. hefði hæstv. umhvrh. ekki hugsað sér að herða á þessari skoðun við endurskoðun á þeim lögum sem hér eru til umræðu.
    Að öðru leyti vil ég lýsa stuðningi mínum við frv. sem hér er til umfjöllunar.