Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:06:10 (1585)


[12:06]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta voru engin rök hjá hæstv. landbrh. Það eru skólar í landbrn. Á þá ekki að flytja þá frá landbrn. og undir menntmrn.? Það sem hann flutti hér voru engin rök í þessu samhengi. Það sem liggur hins vegar fyrir er það að um þessi mál hafa verið skipar skoðanir. Um þau hafa verið deilur og um þau hefur verið rætt. Núv. ríkisstjórn hefur kosið að læsa þessi mál inni í bakherbergjum Stjórnarráðsins. Ég er andvígur því og ég tel að Alþingi eigi að taka málið fyrir. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að auðvitað gæti ég flutt um málið frv. Af hverju geri ég það ekki? Það geri ég m.a. af slæmri reynslu af núv. ríkisstjórn. Það er einlægt illa tekið í það sem kemur frá stjórnarandstöðunni, það er sama hvað það er, og ég vildi stuðla að því og hvetja til þess að þeir hæstv. ráðherrar sem fara með þessa málaflokka, taki á þeim málum í friði og sátt við stjórnarandstöðuna, því að annars leysist þetta mál aldrei. Það má ekki taka á þessu máli með þeim stríðstóni sem mér fannst koma fram hjá hæstv. landbrh. Menn þurfa að vanda sig og prófa rök og gagnrök hver á öðrum og komast að skynsamlegri og sameiginlegri niðurstöðu.